Bændablaðið - 29.01.2015, Qupperneq 23

Bændablaðið - 29.01.2015, Qupperneq 23
23Bændablaðið | Fimmtudagur 29. janúar 2015 Þykkvabæingum mun hafa verið fundið það til foráttu að þeir átu hrossakjöt. Nágrannar þeirra hneyksluðust mjög á hrossakjötsátinu og töldu þá ókirkjuhæfa vegna þess. Bændur í nágrannasveitarfélögunum létu þó hneykslun sína ekki aftra sér frá því að reka heilu hrossastóðin til slátrunar í Þykkvabæ. Heimamenn máttu hirða af þeim allt nema hárnar. Svo mikið af hrossakjöti safnaðist á suma bæi að erfitt var að geyma það. Megn ýldulykt var því oft í kotunum og settist hún í föt og sagt er að fólk hafi neytt kjötsins eins lengi og það hafði nokkra lyst á því. Skinn, skóbætur og hundar Í Annálum 1400–1800 kemur greinilega fram að fólk hefur lagt sér nánast hvað sem er til munns í harðærum. „Þá átu margir hrossakjöt, bæði frjálst og stolið, og svo allt það tönn á festi, því þar á horfðu frómir menn, að manneskjur átu hráar tófur. … var þar etið allt, hvað tönn á festi, svo sem skinn, skóbætur og jafnvel hunda af sumum, ekki að talað sé um hrossakjöt, sem var orðið næsta almenn fæða alþýðu, meðan það fékkst, en þó úldið og rotið vera kynni.“ Smásteik úr nautablóði Nautgripir hafa alltaf verið vel nýttir hér hvort sem þeir eru lífs eða liðnir. Úr mjólkinni var unnið smjör, ostar, flautir og sýra til að geyma mat í. Í bók Hallveigar Gísladóttur, Íslensk matarhefð, er að finna gríðarlegan fróðleik um mataræði landans fyrr á tímum. Hún vinnur efnið að hluta til upp úr svörum sem bárust við spurningu sem þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins sendi út um slátrun og sláturverk. „Einnig fékk hún stundum nautablóð. Hún hrærði í það rúgmjöli, en lét enga mör í. Sauð það síðan og setti á það farg, í léreftspokum sem hún saumaði sérstaklega til þessa nota. Þegar búið var fergja var það alltaf stíft. Þetta var síðan geymt í vatni í tunnu í köldu herbergi og oft skipt um vatn, þannig að það súrnaði ekki. Matreitt þannig, að tólgur var bræddur í potti, blóðið saxað smátt á fjöl og látið út í, þessu var síðan hrært saman og sett sjóðandi heitt á fat og stráð yfir sykri. Þetta var mjög gott með heitum kartöflum.“ Stropuð egg Egg sjófugla, anda og gæsa sem ekki voru borðuð ný voru geymd í ösku eða sandi á köldum stað og höfð þar í hálft ár áður en þeirra var neytt. Sagt er að eftir þann tíma líkist þau gráðosti í áferð og á bragðið. Einnig lögðu sumir sér stropuð egg til munns jafnvel þótt unginn væru orðin fjaðraður og kominn að því að klekjast út. Þorskhausar og grautur úr grásleppuhrognum Eins og geta má var fiskur mikið borðaður, og nánast í öll mál á bæjum sem voru nálægt sjó, en af honum virðist eingöngu harðfiskur og hákarl hafa komist á þorrabakka samtímans. Úr þorskhausum var meðal annars búin til hausastappa með því að sjóða hausana vel og taka úr þeim stærstu beinin. Hausarnir voru síðan stappaðir í stöppu með lifur. Roð, sporðar, uggar og þorskhausabein, vandlega hreinsuð, voru látin saman við skyr á sumrin og skömmtuð á veturna með súru skyri sem þar að auki var drýgt með fjörukáli. Fátæklingar gerðu sér grauta úr grásleppuhrognum og þótti hann betri ef bætt var út í hann sýru. Til að kæsa hákarl var algengast að gerð væri gryfja í fjöruborðinu úr möl. Stykki úr hákarli voru lögð í gryfjuna þannig að skrápurinn sneri niður og þakið með grjóti og hann geymdur þar í mislangan tíma eða þar til að hægt var að hengja hann upp. Einnig þekktist að hákarl væri kæstur í moldarholum. Kæst skata Ekki eru til beinar heimildir um kösun á skötu fyrr en á 19. öld en að söltun undanskilinni var farið með hana eins og hákarl nema hvað verkun hennar tók skemmri tíma. Við kösun á skötu voru börðin skorin af og sett í gryfju og fergð með grjóti eða torfi og grassvörðurinn þá látinn snúa niður. Algengt var að kæsa skötu í tvær til fjórar vikur en til að flýta kösuninni þótti gott að geyma börðin úti í fjósi svo að fyrr slægi í þau. Eftir kösun voru börðin þvegin til að ná mestu slepjunni af þeim og síðan þurrkuð með því að hengja þau upp í rjáfur eða leggja út á klappir eða grjót. Kom fyrir að skata væri þurrkuð eins og harðfiskur en það þótti slæm geymsluaðferð. Súrir hreifar og selvafningar Auk selkjöts og selspiks voru hausar, hreifar og dindlar af sel nýttir til matar, sviðnir eða súrir. Magi, lifur, hjarta og þind voru einnig súrsuð en nýrun yfirleitt borðuð fersk. Garnir sela voru nýttar í ýmsa rétti eftir að búið var að hreinsa þær, meðal annars í selvafninga sem voru þannig að fléttað var saman görnum og spiki og vafningurinn reyktur eða soðinn. Einnig er þekkt að vafningarnir hafi verið verkaðir eins og lundabaggar og kallaðir sela- eða garnabaggar. Selslýsi var notað út á fisk hvort sem hann var siginn eða nýr auk þess sem það var notað til að steikja upp úr, þrátt fyrir að hnísulýsi hafi víðast hvar þótt betri steikingarfeiti. Verði ykkur að góðu. /VH Sumir lögðu sér stropuð egg til munns jafnvel þótt unginn væri orðinn fjaðraður og kominn að því að klekjast út. Auk selkjöts og spiks voru hausar, hreifar og dindlar af sel nýttir til matar, sviðnir eða súrir. Í síðasta Bændablaði var sagt frá því að komin væri á markað grænmetissulta sem líktist sviðasultu og hentaði fyrir grænkera á þorrabakkann. Eftir birtingu kom í ljós að í grænmetissultunni er gelatín sem meðal annars er unnið úr nautabeinum og hentar því ekki fyrir græn. Ólafur Már Þórisson, markaðsstjóri hjá Kjarnafæði, sem framleiðir sultuna, segir að eiginlega hafi verið um hugsunarleysi af þeirra hálfu að ræða. „Hugmyndin um að þetta væri þorramatur fyrir grænmetisætur fór svo hraðar á flug en við ætluðum sem var aldrei ætlunin. Ég átti ágætt samtal við fulltrúa grænmetisæta og hann lýsti ánægju sinni yfir því að við værum að gera tilraunir með nýja rétti. Við ætlum að halda áfram að þróa réttinn og ég á von á að endurbætt útgáfa af honum komi á markað á næsta ári og þá með matarlínu sem hentar grænmetisætum. Samtal okkar var mjög gott og þeir lýstu ánægju sinni yfir að við værum að prófa okkur áfram með þorrarétti fyrir grænmetisætur.“ /VH Þorramatur: Grænmetissulta hentar ekki fyrir grænkera

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.