Bændablaðið - 29.01.2015, Side 22

Bændablaðið - 29.01.2015, Side 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 29. janúar 2015 Gamlar matarvenjur Í tilefni þorra: Súrt, kæst og stropað Árleg þorrablót landans standa nú sem hæst og ungir sem aldnir gæða sér á sviðum og súrmat, hákarli og öðru góðgæti sem fylgir veisluhöldum. Þorrablót sem slík eru tiltölulega nýtt fyrirbæri og voru fyrst haldin á 19. öld og tengdust sjálfstæðisbaráttu og þjóðernisstefnu. Vinsældir þeirra jukust um 1960 þegar að veitingahúsið Naustið fór að standa fyrir skemmtunum kenndum við þorra. Þurrkað, reykt, kæst og súrt Íslensk matarhefð er á margan hátt sérstök. Matur var þurrkaður, reyktur og kæstur og ekki síst lagður í súr og geymdur þannig. Mjólkursýran sem maturinn er geymdur í kom í staðinn fyrir salt og hefur þau áhrif að hann virðist á einhvern hátt vera hálfmeltur fyrir neyslu. Eftir að kornrækt lagðist niður skömmu eftir landnám, vegna kólnunar, og fram á miðja síðustu öld var mataræði þjóðarinnar einhæft og saman stóð að miklu leyti af kjöti, fiski og mjólkurvörum. Vissulega byggist þorramatarhefð samtímans á gömlum mat en matur sem borinn er fram á þorrabökkum í dag er langt frá því að vera sá matur sem Íslendingar borðuðu í gamla daga. Honum hefur verið breytt til að þóknast matarsiðum nútímamanna. Dæmi um slíkt er að nú er á boðstólum sulta sem líkist sviðasultu í útliti en er gerð úr grænmeti þrátt fyrir að hún henti ekki fyrir grænmetisætur. Þorrablót á miðöldum Þorri er nefndur sem persónugervingur eða vættur vetrar í heimildum frá miðöldum og þar er einnig minnst á þorrablót. Ekki er vitað hvernig þau fóru fram en lýsingarnar benda til að blót hafi verið miklar veislur og gert hafi vel við sig í mat og drykk. Engar sagnir eru í Íslendingasögum eða öðrum fornsögnum um þorrablót sem gerast á Íslandi. Margs konar góðgæti Af góðgæti sem er þekkt sem þorramatur í dag má nefna harðfisk, laufabrauð, magál, punga, sperðla, svið með rófustöppu og sviðasultu, bringukolla, hangikjöt, flatkökur og rengi. Nýmæli til að svala forvitni þeirra allra svölustu eru súrsaðir lambatittlingar. Minna er um að á boðstólum séu sauðlappir, selshreifar, riklingur, steikt kálfablóð, siginn silungur og rafabelti. Hvað þá heldur blóðgrautur, heilastappa eða úldin egg. Krókasteik og ruslakeppir Þekkt er að á sumum bæjum voru leg úr kindum og kúm skafin, soðin og súrsuð. Kindaleg kölluðust krókasteik og notuð til að drýgja blóðmör og lundabagga. Í ruslakeppi var safnað alls konar afgöngum við slátrun og varla þóttu mannamatur. Þetta gat verið afskurður af vömbum, kirtlar, milta, rófur, hálsæðar og tægjur. Keppurinn og flot af honum var svo borðaður þegar lítið var til af öðrum mat. Ganglimir og höfuðbein Hraun er gamall íslenskur réttur sem að megninu til var búinn til úr ganglimum og höfuðbeinum stórgripa. Kjötið var grófskorið af beinunum og þau léttsöltuð, reykt eða kæst. Eftir það voru hraunin soðin og kjötið borðað af þeim. Afrennsli af kæstum hraunum, hraunaflot, þótti ágætt viðbit. Matur og drykkur á jólum Íslendingar reyndu að gera vel við sig um jólin og í Kristinna laga þætti Grágásar er kafli um jólahald. Þar segir að menn eigi ekki að vinna nema meðalvinnudag um jól og að slátra skuli fé til að hafa ferskt kjöt og að einnig skuli vera öl í boði. Í Grettis sögu segir frá því, að bændur í Skagafirði undirbjuggu að sækja sláturfé út í Drangey um vetrarsólstöður og í Reykdæla sögu er sagt frá því að Vémundur hafi látið ala uxa til jóla og Þorbergur hafi sent Ótrygg heimamann sinn með fé út í eyjar sem slátra skyldi fyrir jól. Hryllti við hrossakjöti Lengi var bannað að borða hrossakjöt hér og flestum Íslendingum hryllti við að borða það og dóu margir frekar úr sulti í harðærum en að leggja sér það til munns. Eftir að hrossakjötsát var leyft voru þeir sem borðuðu það gjarnan uppnefndir og kallaðir merardólgar. Nútímalegur þorramatur er alls ólíkur þeim mat sem Íslendingar borðuðu fyrr á tímum. Svið með rófustöppu eru að margra mati herramanns matur. Súrsaðir lambatittlingar fyrir þá allra svölustu.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.