Bændablaðið - 29.01.2015, Blaðsíða 24
24 Bændablaðið | Fimmtudagur 29. janúar 2015
Brúsastaðir í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu hafa verið í fremstu röð í mjólkurframleiðslunni ár eftir ár:
Með hæstu meðalafurðir kúabúa
landsins á síðasta ári
− kýrnar á bænum skiluðu að meðaltali 7.896 kg af mjólk og voru einnig afurðahæstar 2013
Kúabúið Brúsastaðir í Vatnsdal
í Austur-Húnavatnssýslu var
afurðahæsta kúabú landsins að
meðaltali á síðasta ári. Þar búa
hjónin Sigurður Ólafsson og Gróa
Margrét Lárusdóttir sem hafa
búið á bænum síðan 1994, eða í
rúm 20 ár.
Kýrnar á Brúsastöðum skiluðu í
heild um 389 þúsund kílóum mjólkur
á síðasta ári. Var hver kú þá að skila
7.896 kg af mjólk að meðaltali. Það
þýðir að þónokkrar kýr á bænum
voru að mjólka um eða yfir 8.000
kg, en fjórar voru með yfir 10.000
kg. Sú afurðahæsta heitir Bára og
mjólkaði 10.677 kg. Brúsastaðir
voru einnig afurðahæsta búið yfir
landið árið 2013 og í 10. sæti yfir
landið á árinu 2012. Búið hefur
skilað mestu meðalafurðum kúabúa
í Austur-Húnavatnssýslu í níu af
síðustu ellefu árum.
Þótt Brúsastaðir hafi verið
afurðahátt í fjölmörg ár, þá hafa
þau hjón aðeins einu sinni átt
afurðahæstu kúna í sýslunni, en það
var 2013.
Kíló en ekki lítrar
Þótt leikmönnum finnist það
einkennilegt að tala um mælingu á
vökva eins og mjólk í kílógrömmum,
þá er á því ákveðin skýring. Mjólk
hefur ekki sömu eðlisþyngd og vatn
vegna efnainnihalds og bændum
er greitt í samræmi við fitu- og
próteininnihald mjólkurinnar sem
vigtað er í kg. Þess vegna skapaðist
fljótt sú hefð að mæla mjólk eftir
þyngd en ekki í lítratali. Þá gefa
flestir ef ekki allir mjaltaþjónar
upp mjólkurmagnið líka eftir vigt.
Einnig er öll fóðurgjöf og breytingar
á henni í forritum reiknaðar út frá
þeirri kílógrammatölu sem kýrnar
skila í mjólk.
Allt snýst um að framleiða í takt
við aukna eftirspurn
Sigurður segir að nú snúist allt um
að framleiða meiri mjólk í takt við
sívaxandi eftirspurn. Búskapurinn
gengur vel hjá þeim hjónum og ef
þau þurfa aðstoð segjast þau eiga
bakhjarla í góðum nágrönnum sem
eru boðnir og búnir að rétta þeim
hjálparhönd.
„Þessir bændur eru þannig að
maður getur alltaf hóað í þá ef okkur
vantar aðstoð. Þetta eru öndvegis
nágrannar. Þeir koma nánast hvernig
sem stendur á,“ segir Sigurður, sem
sömuleiðis rúllar heyi fyrir þá í
verktöku á sumrin.
„Síðasta sumar rúllaði ég 3.400
rúllum fyrir mig og tvo aðra bændur.
Árið 2013 rúllaði ég enn meira vegna
tækjabilunar hjá einum bónda.“
Mjaltaþjónninn breytti miklu sem
og kjarnfóðrið
Á Brúsastöðum er Lely-mjaltaþjónn
sem Sigurður og Gróa keyptu notaðan
fyrir nokkrum árum en áður var þar
mjaltabás. Í honum voru þau búin
að mjólka yfir þrjár milljónir lítra
áður en þau seldu hann. Þau segja að
með tilkomu mjaltaþjónsins og þriðju
mjaltanna á sólarhring hafi nytin í
kúnum aukist talsvert.
„Þá hafði það mikið að segja
þegar við skiptum um kjarnfóður og
fórum að kaupa það frá Landstólpa.
Það hentar okkur vel og fer vel með
heyinu sem við gefum og árangurinn
er mjög góður. Það dugar þó ekki að
horfa bara á eina tegund kjarnfóðurs
af því að hún hafi einhvern tíma dugað
ágætlega. Menn geta þurft að skipta
um eftir tíðarfari og öðru. Ef menn
taka heysýni þá sést nákvæmlega
hvað þarf á móti,“ segir Sigurður.
Kvótinn og framleiðsluskyldan
stöðugt að aukast
„Kvótinn eykst svo mikið að við
verðum að reyna að fjölga kúnum.
Kvótinn hjá okkur eykst nú um 40
þúsund lítra milli ára og nú er orðin
krafa um að menn fylli upp í allan
kvótann.“
Gróa Margrét Lárusdóttir og Sigurður Ólafsson eru bændur á Brúsastöðum í Vatnsdal. Árangur þeirra í mjólkurframleiðsunni hefur verið afar góður ár eftir ár. Myndir / HKr.
Á Brúsastöðum er Lely-mjaltaþjónn sem Sigurður og Gróa keyptu notaðan fyrir nokkrum árum en áður var þar
mjaltabás. Við meðhöndlun slíkra tækja skiptir þrifnaður miklu máli.