Bændablaðið - 13.08.2015, Blaðsíða 22

Bændablaðið - 13.08.2015, Blaðsíða 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 13. ágúst 2015 Stefanía Þorgeirsdóttir er verkefnisstjóri á sviði riðusjúkdóma að Keldum: Riða er óvenjulegur smitsjúkdómur – best að kalla til dýralækni ef grunur vaknar um smit Í síðasta Bændablaði mátti lesa aðsenda grein sem fjallaði að mestu um gasmyndun í fjárhúsum, undir yfirskriftinni Gerjunargas. Þar leiddi höfundurinn Guðbrandur Jónsson líkum að því að tengsl kynnu að vera milli riðu í sauðfé og gasmyndunarinnar. Það er því ekki úr vegi að rifja upp hvað þetta fyrirbæri riða er – nú þegar haust er á næsta leiti. Stefanía Þorgeirsdóttir er verkefnisstjóri þjónusturannsókna á sviði riðusjúkdóma á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Hún segir að riða í kindum flokkist undir príonsjúkdóma, sem draga nafn sitt af litlu próteini; príon, sem finnst á eðlilegu formi í öllum spendýrum. „Við smit, og í sumum tilvikum án þess, getur príonprótein hýsils umbreyst, orðið smitandi og þolið gagnvart niðurbroti. Keðjuverkun veldur uppsöfnun á óeðlilegu príonpróteini í heila, þar sem sjúkdómseinkenni koma fram, en sjúkdómurinn hefur fengið opinbera heitið smitandi heilahrörnun. Príonsjúkdómar finnast í fleiri dýrum eins og minkum og hjartardýrum, en þekktasta dæmið er kúariðan, sem er talin hafa valdið afbrigði af Creutzfeldt-Jakob sjúkdómnum í mönnum.“ Riða er óvenjulegur smitsjúkdómur „Ég veit ekki til þess að r iðusjúkdómurinn tengist gerjunargasi á neinn hátt eða meltingarbakterium sem nefndar eru í umræddri grein,“ segir Stefanía um tilgátur Guðbrands. „Það liggja hins vegar fyrir margar rannsóknir sem sýna fram á að riða er smitsjúkdómur og að príonpróteinið er lykilþáttur í sjúkdómsferlinu. Rannsóknir á dýrum sem ekki hafa próteinið hafa sýnt að þessi dýr geta ekki smitast. Enn fremur má benda á að á Íslandi eru nokkur riðulaus svæði, til að mynda á Ströndum, Snæfellsnesi, Öræfum og Þistilfirði. Varnargirðingar og bann við flutningi á sauðfé og heyi, hafa að öllum líkindum komið í veg fyrir að smit hafi borist þangað. Rannsóknir á riðunæmi sauðfjár á mismunandi svæðum hafa sýnt að ekki er munur á tíðni áhættuarfgerðar milli svæða, þannig að ekki er um riðuþolnara fé að ræða á þessum svæðum. Gera má ráð fyrir að fjárhúsin á þessum svæðum séu heldur ekki mikið frábrugðin þeim sem eru á riðusvæðum. Riða er því má segja óvenjulegur smitsjúkdómur, það er af völdum smitandi próteins – en er hvorki veiru- eða bakteríusjúkdómur. Erfðauppbygging kindanna er talin skipta máli fyrir smitnæmi, og hafa kynbætur verið nýttar á síðustu árum til varnar sjúkdómnum. Þær byggjast á því að náttúrulegur breytileiki í príongeninu er mikilvægur fyrir næmi kinda fyrir riðu. Mismunandi samsætur tengjast áhættu og vernd fyrir hefðbundinni riðu í íslensku fé en samsætan sem er þekkt erlendis vegna verndandi eiginleika hefur ekki fundist hér á landi. Áhætta tengd erfðum snýst hins vegar við hjá óhefðbundinni riðu í samanburði við hefðbundna riðu. Hér á landi hefur verið reynt að minnka magn áhættuarfgerðar í íslensku sauðfé, meðal annars með því að greina arfgerðir kynbótahrúta sem velja á inn á sæðingastöðvar með tilliti til riðunæmis.“ Barst til landsins með sýktum hrúti Að sögn Stefaníu hefur sauðfjárriða lengi verið vandamál á Íslandi, en sjúkdómurinn er talinn hafa borist til landsins með sýktum hrúti árið 1878. „Fyrstu 75 árin fannst hann eingöngu á Norðurlandi, en breiddist síðar út um mest allt landið, með nokkrum undantekningum þó, en útbreiðsla og tíðni sjúkdómsins náði hámarki um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Síðan 1978 hefur skipulega verið reynt að útrýma riðu, fyrst með niðurskurði á fé og síðar sótthreinsun útihúsa. Tilfellum hefur fækkað mikið í áranna rás, en erfitt virðist að uppræta sjúkdóminn með öllu. Reglubundin skimun fyrir riðu í sláturhúsasýnum úr íslensku sauðfé hófst árið 1978, sama ár og íslensk yfirvöld hófu opinbera herferð gegn frekari útbreiðslu riðu með útrýmingu að leiðarljósi. Þá voru skimuð 5-10 þúsund sýni á ári með vefjalitun en árið 2004 var skipt yfir í fljótvirkari próf en sýnum fækkað í um 3500 sýni á ári. Frá árinu 2004 höfum við prófað alls 38 þúsund sýni með þessum aðferðum og greint samtals 24 riðutilfelli. Að meðaltali greinast örfá tilfelli hér á ári og í sumum tilfellum er um að ræða óhefðbundið afbrigði riðu; Nor98, sem margt bendir til að sé sjálfsprottinn sjúkdómur án utanaðkomandi smits. Nor98 riða hefur önnur einkenni en hin hefðbundna riða og annars konar dreifingu vefjaskemmda og smitefnis í heila. Alls hafa sex Nor98 tilfelli greinst á Íslandi, og hafa síðustu ár oft verið einu riðutilfellin sem greinst hafa það ár. Síðan 2012 hefur sauðfé ekki verið skorið niður ef Nor98 tilfelli greinist, enda virðast þekktir áhættuþættir riðu, eins og flutningur og náin samskipti dýra, ekki eiga við um þessa gerð riðu,“ segir Stefanía. Hefðbundin riða greinst á þremur bæjum á þessu ári „Á þessu ári hefur sjúkdómurinn greinst á þremur bæjum á Norðurlandi og í öllum tilvikum var um hefðbundna riðu að ræða. Hefðbundin riða greindist þar áður árið 2010, en síðan þá hafa greinst þrjú tilfelli af Nor98 riðu. Fyrsta riðutilfellið sem greindist í vetur var rakið til tveggja sýna sem voru tekin við haustslátrun haustið 2014. Má því leiða líkur að því að sjúkdómurinn hafi verið það stutt á veg kominn að einkenni hafi ekki verið komin fram. Seinni tvö tilfellin fundust í kindum sem höfðu sýnt einkenni sem bent gátu til riðu og voru það bændurnir sjálfir sem komu auga á þau. Í hvoru tilviki fyrir sig var um þrjár kindur að ræða sem reyndust jákvæðar fyrir riðusmitefninu.“ Best að kalla til dýralækni ef grunur vaknar Stefanía bendir bændum á að riðuveikin sé tilkynningaskyldur sjúkdómur og bændum ber að tilkynna til héraðsdýralæknis ef grunur er um sjúkdóminn. „Ekki er hægt að greina sjúkdóminn með óyggjandi hætti í lifandi fé en ýmis einkenni geta bent til sjúkdómsins, svo sem kláði, titringur, skjálfti og tannagníst. Einnig er oft um vanþrif að ræða og kindurnar vilja liggja fyrir. Almennt má segja að einkennin geta verið mjög mismunandi og einnig breytileg eftir dögum og þarf því að fylgjast með kindunum í nokkurn tíma. Best er að kalla til dýralækni sem metur til hvaða aðgerða skal grípa í hverju tilviki. Ef kindur drepast af ókunnum orsökum er æskilegt að senda hausinn eða heilasýni til greiningar á Keldum í samráði við dýralækni. Við erum að skima fyrir riðu í heilasýnum í samstarfi við Matvælastofnun og er sú greining bændum að kostnaðarlausu.“ Á Keldum hefur um árabil verið unnið að rannsóknum á riðu og stofnunin hefur verið tilnefnd sem innlend tilvísunarrannsóknarstofa fyrir smitandi heilahrörnun, það er riðu og skylda sjúkdóma. Greining riðu byggist að sögn Stefaníu á skimun fyrir riðusmitefninu í heilasýnum en flest sýnin koma úr fullorðnu sláturfé, en auk þess berast sýni úr áhættuhópum; neyðarslátrun og kindum með klínísk einkenni. „Einnig eru prófuð sýni úr nautgripum vegna eftirlits með kúariðu en sá sjúkdómur hefur ekki greinst hér á landi. Þessar rannsóknir eru gerðar í samstarfi við Matvælastofnun sem fer með eftirlit þessara sjúkdóma. Ég hef einnig unnið að grunnrannsóknum á príonsjúkdómum í sauðfé og mönnum ásamt Ástríði Pálsdóttur, Birki Þór Bragasyni og fleiri sérfræðingum á Keldum, aðallega á sambandi arfgerða príongensins við riðusmit.“ /smh Stefanía Þorgeirsdóttir. Tíðni smits í innfluttu alifuglakjöti minni en í upprunalandinu Í rannsókn Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga kom í ljós að salmonella greindist ekki í erlendum afurðum sem vottað var að væru lausar við salmonellu. Tíðni kampýlóbakter var minni en almennt gerist í alifuglaafurðum erlendis enda afurðirnar frosnar við komuna til landsins. Einn kampýlóbakterstofn reyndist lyfjaþolinn. M a t v æ l a s t o f n u n o g heilbrigðiseftirlit sveitafélaganna hafa látið rannsaka salmonellu og kampýlóbakter í erlendu alifuglakjöti á markaði á Íslandi og mæla sýklalyfjaþol þeirra stofna sem greindust, en sýklalyfjaþol sjúkdómsvaldandi örvera er mikið áhyggjuefni heilbrigðisyfirvalda um allan heim. Kjúklingakjöt 90% af innfluttu alifuglakjöti Tekin voru 115 sýni af hráu, frosnu erlendu alifuglakjöti. Stærsti hluti erlends alifuglakjöts hér á landi er framleiddur í Þýskalandi og því næst í Danmörku. Kjúklingakjöt var tæp 90 % þess alifuglakjöts sem flutt var til landsins árið 2013. Aðrar tegundir voru anda- kalkúna- og gæsakjöt. Tekin voru 100 sýni af kjúklingakjöti, 6 sýni af andakjöti, 6 sýni af kalkúnakjöti og 3 sýni af gæsakjöti. Salmonella í einu sýni Salmonella greindist í einu sýni af þeim 115 sýnum sem tekin voru til greiningar og voru þær afurðir innkallaðar. Mistök höfðu átt sér stað við afgreiðslu vörunnar inn í landið og var í kjölfarið verklag bætt til að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. Salmonella greindist ekki í sýnum af alifuglum úr sendingum sem voru með fullnægjandi vottorð um að þær væru lausar við salmonellu. Kampýlóbakter í fimm sýnum Kampýlóbakter greindist í 5 sýnum af þeim 115 sýnum sem tekin voru til greiningar, þ.e. í þremur sýnum af andakjöti og í tveimur sýnum af kjúklingakjöti. Einn stofn kampýlóbakter reyndist fjölónæmur, þ.e. hann var ónæmur fyrir fjórum af þeim sex lyfjum sem prófað var fyrir. Óvarlegt er að draga miklar ályktanir af niðurstöðum þessa verkefnis, en þó má segja að þær ríma vel við skýrslu EFSA ( Matvælaöryggisstofnun Evrópu ) um sjúkdóma sem smitast milli manna og dýra og sýklalyfjaþol örveranna sem þeim valda. Tíðni kampýlóbakter í alifuglakjöti er almennt talsvert hærri í þeim löndum sem afurðirnar koma frá en hér á landi. Þekkt er að fækka má verulega fjölda kampýlóbakter með því að frysta afurðirnar, en alifuglakjötið sem rannsakað var í þessu verkefni hafði verið frosið í minnst fjórar vikur. /Mast greindi frá

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.