Bændablaðið - 13.08.2015, Blaðsíða 28

Bændablaðið - 13.08.2015, Blaðsíða 28
28 Helstu nytjaplöntur heimsins Ólífur – olía Evrópu Ólífur eiga sér langa ræktunarsögu auk þess sem þær eru samtvinnaðar trúar- og goðsögnum þjóða sem búa við Miðjarðarhafið. Vinsældir ólífuolíu hafa aukist undanfarna áratugi enda er góð ólífuolía sögð holl. Ekki er á allra færi að þekkja góða ólífuolíu frá útþynntum hroða Heimsframleiðsla á ólífum árið 2014 var sú minnsta í fimmtán ár, rúmlega 2,5 milljón tonn, en var 3,9 milljón tonn árið 2013. Ástæða niðursveiflunar var óhag- stætt veðurfar og sveppa- og bakteríusýking. Uppskeruhorfur fyrir árið 2015 eru slæmar og talið að uppskeran verið enn minni en 2014 og verð á ólífuolíu hefur hækkað um 10% í lok júlí 2015 frá því á sama tíma árið 2014. Spáverjar rækta þjóða mest af ólífum og framleiða einnig mest af ólífuolíu. Framleiðsla af ólífuolíu þar var tæplega 1,8 milljón tonn árið 2013 en 826 þúsund tonn 2014 sem um milljón tonna samdráttur. Ítalir eru í öðru sæti þegar kemur að ræktun og framleiðslu á ólífum og ólífuolíu. Árið 2013 framleiddu Ítalir 461 þúsund tonn af ólífuolíu en 302 þúsund tonn 2014. Framleiðslan gekk betur í Grikklandi og Túnis sem eru í þriðja og fjórða sæti. Í Grikklandi jókst framleiðslan úr 132 þúsund tonnum árið 2013 í 300 tonn árið 2014 og í Túnis jókst framleiðslan úr 70 í 260 þúsund tonn. Tyrkland er fimmti mesti ræktandi ólífa í heiminum. Bandaríkin flytja inn þjóða mest af ólífuolíu, um 164 þúsund tonn árið 2013. Brasilía flutti inn næstmest, 61 þúsund tonn, Japanir 42 þúsund og Kína 30 þúsund tonn árið 2013. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru flutt inn 4,3 tonn af ólífum árið 2014 en tæp 434 tonn af „hrá ólífuolíu“ og ólífuolíu til matargerðar. Mest er flutt inn af ólífum og ólífuolíu frá Ítalíu, Spáni, Frakklandi, Bandaríkjunum og Dan- mörku. 90% af ólífum pressaðar í olíu Ríflega tíu milljón hektarar lands í heiminum eru notaðir undir ólífurækt og er það talsvert meira en fer undir ræktun á eplum eða bönunum. 90% af öllum ólífum sem ræktaðar eru fara í framleiðslu á ólífuolíu, 10% eru svokallaðar borðólífur sem eru borðaðar beint eða með öðrum mat til dæmis pítsum. Laufið er nýtt til lyfjagerðar. Viður úr ólífutrjám er litfagur, harður, brunaþolinn og góður smíðaviður. Ólífuviður er dýr og gjarnan notaður til að smíða úr skálar, listmuni og dýr húsgögn. Grasafræði og lýsing Ólífur vaxa á trjám sem á latínu kall- ast Olea europaea sem þýðir olía Evrópu. Villt ólífutré vaxa í öllum löndunum í kringum Miðjarðarhafið og á Arabíuskaga, en trén eru einnig ræktuð allt frá Kína til Kaliforníu. Innan ættkvíslarinnar Olea er að finna um 40 tegundir plantna sem flestar eru runnar og vaxa á heitum svæðum í Evrópu, Afríku, Asíu og Ástralíu. Plönturnar tilheyra ætt plantna sem kallast Oleaceae og er skyld forsytíum, jasmín og asktrjám. Ólífutré eru sígræn og geta náð allt að 20 metra hæð en slíkt er sjaldgæft og í ræktun eru trén sjaldnast yfir þrír metrar. Rótarkerfið er stórt og liggur yfirleitt djúpt. Trén geta náð háum aldri og á Krít er að finna ólífutré sem er talið vera ríflega 3000 ára gamalt og gefur enn af sér aldin. Bolurinn vindur upp á sig og gildnar með aldrinum. Blöðin eru gagnstæð, ílöng og silfurgræn, fjórir til tíu sentímetrar að lengd og einn til þrír að breidd, blómin lítil og hvít að lit, og plantan yfirleitt ósjálffrjóvgandi. Ólífan sjálf er steinaldin og flokkast sem ávöxtur, einn til þrír sentímetrar á lengd eftir yrkjum. Munurinn á grænum og svörtum ólífum er sá að grænar eru minna þroskaðar en svartar þegar þær eru týndar af trjánum. Tegundinni Olea europaea er skipt í sex undirtegundir eftir því hvaðan þær eru upprunnar. Olea europaea sp. europaea vex í löndum í kringum Miðjarðarhafið, Olea europaea sp. cuspidata í suður- og austur-Afríku, Arabíuskaga og suðvestur Kína, Olea europaea sp. guanchica finnst á Kanaríeyjum, Olea europaea sp. cerasiformis á Madeira, Olea europaea sp. maroccana í Marokkó og Olea europaea sp. laperrinei Alsír, Súdan og Nígeríu. Talið er að O. eruopaea geti verið framræktuð tegund af O. chrysophylla sem finnst í norðanverðu hitabelti Afríku. Staðbrigði og yrki ólífutrjáa skipta þúsundum og eru ólífurnar sem þau bera ólíkar, að stærð, lögun og þegar kemur að gæðum olíunnar sem úr þeim fæst. Ræktun Ólífutré kjósa rýran, þurran og kalkríkan jarðveg og vaxa vel við sjávarsíðuna. Kjörvaxtastaður er á sólríkum stað á milli lengdarbauga 30° og 40° norður og suður þar sem hitinn fer ekki undir –10 gráður. Frost undir tíu gráður getur drepið stofn trjánna en yfirleitt vaxa þau aftur upp af rótarskotum. Trjánum er oftast fjölgað með ágræðslu þar sem ágrædd tré gefa betur af sér en tré sem ræktuð eru upp af græðlingum eða með sveiggræðslu þrátt fyrir að greinarnar róti sig auðveldlega. Ræktun af fræi er nánast eingöngu notuð við kynbætur. Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.