Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2011, Side 44

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2011, Side 44
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 87. árg. 201140 sömu umhyggju til allra þjóðfélagshópa, óháð kyni, litarhætti eða þjóðfélagstöðu. Öryggi Öryggi sjúklinga og starfsmanna á að vera efst á baugi hjá öllum heil brigðisstarfs- mönnum. Öryggið á að vera í huga þeirra við vinnu og í hvíld og vera ætíð þeirra einlæga ósk sem heilbrigðisstarfsmanna. Umræður um öryggi og gæði í heilbrigðisþjónustu eru í brennidepli víða um heim enda er full ástæða til að vekja athygli á þeim mistökum er verða í þjónustu við sjúklinga. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hrinti af stað umfangsmiklu verkefni sem nefnt er „World alliance for patient safety“ (WHO, 2006). Í því verkefni er tekið á veigamestu þáttunum er lúta að öryggi í heilbrigðisþjónustu. Þar er meðal annars lögð mikil áhersla á öryggi í meðferð sjúklinga innan heilbrigðisþjónustunnar og rétta skráningu og úrvinnslu atvika þegar eitthvað fer úrskeiðis. Með því að skrá samviskusamlega öll óhagstæð atvik, er upp kunna að koma, er talið að verulega geti dregið úr því að slík tilvik endurtaki sig eða að sjúklingur hljóti skaða af því þótt eitthvað hafi misfarist. Danir standa framarlega hvað varðar öryggi sjúklinga innan heilbrigðisþjónustunnar og geta íslenskir hjúkrunardeildarstjórar mikið lært af þeim. Árið 1993 sneru dönsk heilbrigðisyfirvöld vörn í sókn og hófu herferð til að auka öryggi sjúklinga innan danska heilbrigðiskerfisins (Indenrigs- og sundhedsministeriet, 2010). Eitt af því sem átti einn stærsta þáttinn í velgengni Dana var að þeir hvöttu heilbrigðisstarfsmenn til að senda inn nafnlausar skýrslur um þau óhöpp sem þeir urðu vitni að. Nafnleyndin jók líkur á því að atvikin væru tilkynnt. Síðan var unnið úr þeim upplýsingum er bárust, atvikin flokkuð og skoðað hvaða atvik voru algengust. Í framhaldi af því var sett upp fræðslusíða sem allir danskir heilbrigðisstarfsmenn höfðu aðgang að þar sem fram komu algengustu mistök starfsmanna víðs vegar um Danmörku. Á síðunni var einnig fræðsla um helstu orsakir mistaka er verða innan heilbrigðisþjónustunnar og leiðbeiningar til að koma í veg fyrir þau. Íslenskir hjúkrunardeildarstjórar geta lært af Dönum með því að leggja aukna áherslu á skráningu og leita leiða til úrbóta ef óhagstæð atvik eiga sér stað en ekki að finna sökudólg eins og oft vill verða. Þannig vinna þeir eftir gildum LSH. Framþróun Landspítali stuðlar að menntun heilbrigðis- starfsfólks, styður við rannsóknastarf og metur árangur, meðal annars með tilliti til birtingar í ritrýndum tímaritum innan lands og utan (Landspítali, 2010b). Öflugt vísindastarf er forsenda þess að framþróun verði í starfsemi spítalans. Það er til hagsbóta fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra en bætir einnig forvarnir, almennt heilsufar og velferð Íslendinga. Fjöldi nemenda í heilbrigðisfræðum, og ekki síður í meistara- og doktorsnámi, er mælikvarði á gæði spítalans. Með tilkomu þessara nemenda eflast rannsóknir í samstarfi við háskóla borgarinnar. Með hækkandi aldri þjóðarinnar og auknum fólksfjölda á komandi árum er nauðsynlegt að halda áfram að mennta fleira heilbrigðisstarfsfólk. Heilbrigðisstarfsfólk þarf að vera til reiðu til að sinna þeim sjúklingum er sækja til spítalans og viðhalda þarf þeirri kunnáttu og fagmennsku er starfsfólk spítalans býr yfir. Það er ákaflega mikilvægt að stjórnendur á hjúkrunardeild skapi umhverfi sem örvar starfsmenn í að leita sér frekari þekkingar og ekki síður til að viðhalda stöðugu lærdómsferli þeirra. Hæfileikar og þekking, sem starfsmenn búa yfir, er stöðugt að breytast og þörf starfsmanna til að auka þekkingu sína hefur vaxið. Auknar kröfur um hagkvæmni og fagmennsku í starfi kalla á stöðuga þekkingarleit hjá heilbrigðisstéttum. Auknar kröfur eru gerðar um sjálfstæð vinnubrögð og leiðir til að miðla þekkingu og því þurfa starfsmenn aukið umboð til athafna. Þessi stöðuga þörf fyrir meiri þekkingu og hæfni skapar umhverfi þar sem nám og miðlun er þungamiðja í starfsemi hverrar deildar. Starfshvatning í slíku umhverfi er flókin en jafnframt mikilvæg þar sem hver starfsmaður er deildinni mjög verðmætur (Beardwell o.fl., 2004). Í bókinni Crossing the quality chasm frá Institute of Medicine (2009) kemur fram að sjúklingar geti búist við faglegustum vinnubrögðum þegar þau eru byggð á bestu fáanlegu vísindalegu þekkingu. Sjúklingar geti þá búist við að ólíkar fagstéttir stilli saman strengi sína þannig að þeir fái hnökralausa þjónustu og þurfi aldrei að vera óöruggir innan veggja sjúkrahússins. Í starfslýsingu hjúkrunardeildarstjóra hjá Landspítala (2009a) segir meðal annars: „Yfirmaður hjúkrunar á deild skal hvetja til rannsókna og vísindastarfs í hjúkrun.“ Stjórnendur verða að vera í aðstöðu til þess að stuðla að rannsóknastörfum og vísindastarfi þrátt fyrir aukinn sparnað og minni fjárráð en áður. Þeir geta nýtt sér kunnáttu og færni undirmanna sinna sem eru allir á sinn máta sérfræðingar sem þurfa að fá að njóta sín. Eitt af hlutverkum stjórnenda er því að hjálpa þeim að gera það sem þeir gera best. Hæfileikar starfsmanna eru miklir og þeir þurfa að fá verðug verkefni og tíma til að fást við þau. Stjórnendur ættu að stuðla að reglulegum fræðslufundum þar sem starfsfólkið miðlar af kunnáttu sinni og einnig mætti nýta starfsfólkið í þjálfun við að nota þau tæki og tól sem notuð eru á deildinni. Víða er stutt síðan rafræn sjúkraskrá var tekin í notkun. Slík nýjung kallar á þjálfun starfsmanna. Kjörið er að nýta sér þá er hafa fengið þjálfun í notkun hennar til þess að miðla kunnáttunni til annarra starfsmanna.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.