Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2011, Page 62
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 87. árg. 201158
ánægju sjúklinganna eftir aðgerðum (χ=28,110, df=10,
p=0,00).
Í töflum 4 og 5 er að finna lýsandi niðurstöður og samband við
breyturnar sem spurt er um.
Í töflu 4 sést að sjúklingar, sem eru ánægðari með fræðslu um
ferlið eftir að heim var komið, eru marktækt eldri, líklegri til að
segjast fá upplýsingar um fleiri atriði (fá fleiri stig á upplýsingar á
spítalanum og við útskrift), segja skriflegt fræðsluefni gagnlegt,
eru ánægðari með umönnun á spítalanum aðspurðir heima,
greina frá færri heildareinkennum og einkennum um kvíða og
þunglyndi á spítalanum og heima, og segjast frekar hafa náð
sér vel eftir aðgerðina heldur en hinir. Í töflu 5 sést að karlar,
þeir sem fengu skriflegt fræðsluefni heim af sjúkrahúsinu,
þeir sem eru án barna á heimilinu, þeir sem telja að aðgerðin
hafi borið svipaðan árangur og búist var við og þeir sem telja
batann í samræmi við væntingar fyrir aðgerð eru líklegri til að
vera ánægðir með fræðsluna en samanburðarhópar.
UMFJÖLLUN
Í þessari rannsókn koma fram mikilvægar upplýsingar um
atriði sem hafa áhrif á ánægju skurðsjúklinga á Landspítala
með fræðslu og hvað má bæta í fræðslu þeirra fyrir aðgerð og
heimferð og hvaða þættir hafa þar helst áhrif.
Þegar litið er til þess hvaða starfstétt veitir sjúklingum oftast
fræðslu kemur fram að algengast er að hjúkrunarfræðingar
veiti fræðsluna. Sýnir það glöggt hversu mikilvægu hlutverki
hjúkrunarfræðingar gegna í þessu tilliti. Þó má einnig sjá að
þetta hlutverk gæti verið enn veigameira, ekki síst í fræðslu fyrir
aðgerð. Það er til dæmis athyglisvert að sjá að 98 sjúklingar
leita til annarra en heilbrigðisfólks um upplýsingar og að þeir
eru jafnframt óánægðari með fræðsluna. Því er nauðsynlegt
að sjúklingar hafi aðgang að fullnægjandi fræðslu og að
hana veiti fagaðilar sem gjörþekkja aðgerðarferlið. Það, að
sjúklingar, sem eru ánægðari með fræðslu fyrir aðgerð, séu
marktækt líklegri til að segjast fá upplýsingar um fleiri atriði
fyrir aðgerðina en hinir, bendir einnig til að ekki megi draga úr
þeirri fræðslu sem þegar er veitt. Mikilvægi ítarlegra upplýsinga
endurspeglast og í því að þeir sjúklingar, sem fá skriflegt
kennsluefni fyrir útskrift, eru ánægðari með fræðslu um ferlið,
sem þeir fengu á sjúkrahúsinu, eftir að heim er komið. Hér
mætti þó einnig skoða að þar sem fjölbreyttari kennsluhættir
virðast árangursríkari (Fredericks o.fl., 2010; Suhonen og
Leino-Kilpi, 2006; Sørlie o.fl., 2006) þyrfti að auka notkun
slíkra kennsluhátta en einungis 1,1% sjúklinga í rannsókn okkar
sagði að notað hefði verið myndband eða tölva við fræðsluna.
Niðurstöður þessarar rannsóknar eru samhljóma þeim
rannsóknum sem gefa til kynna að hluti sjúklinga fái ekki þá
fræðslu sem þeir telja nauðsynlega (Suhonen og Leino-Kilpi,
2006) og því virðist einstökum þáttum hennar ábótavant.
Þannig fær hluti sjúklinga ekki fræðslu um fylgikvilla, sjúkdóminn
sjálfan, hreyfingu og verki fyrir aðgerð en slíkt gæti auðveldað
þeim að takast á við það sem komið getur upp á eftir aðgerð. Þá
er aðkallandi að bæta fræðslu um verkjameðferð fyrir heimferð.
Er slíkt mikilvægt fyrir andlega og líkamlega vellíðan (Sjöling
o.fl., 2003) og til að draga úr líkum á fylgikvillum aðgerða
(Wilder-Smith og Schuler, 1992). Einnig er nauðsynlegt að allir
sjúklingar viti hvenær þeir eigi að leita aðstoðar vegna einkenna
eftir að heim er komið. Slíkar óskir komu einnig fram í íslenskri
rannsókn á útskriftarfræðslu sjúklinga af lyfja- og skurðdeildum
(Hafdís Skúladóttir, 2007) og rennir enn stoðum undir að þessi
atriði fræðslunnar þurfi að bæta. Flest þau atriði, sem sjúklingar
æsktu frekari upplýsinga um, hafa einnig komið fram áður
(Jacobs, 2000; Pieper, o.fl. 2006; Suhonen og Leino-Kilpi,
2006; Williams, 2008), þó er „tíminn sem það tekur að jafna
sig“ nokkuð meira áberandi hér en annars staðar. Kynlíf er
einnig atriði sem sjúklingar vilja meiri fræðslu um og hefur ekki
verið áberandi annars staðar.
Þó stærsti hluti sjúklinga í þessari rannsókn sé ánægður með
fræðsluna og telji hana gagnlega er greinilegt að skoða þarf
sérstaklega fræðslu ákveðinna sjúklingahópa sem fyrirsjáanlega
þurfa meiri eða annars konar fræðslu og eftirfylgd. Fræðsluþarfir
skurðsjúklinga hafa hingað til gjarna verið skoðaðar frá
sjónarhorni ýmissa aðgerðategunda, svo sem hjartaaðgerða
(Cebeci og Celik, 2008) eða liðskiptaaðgerða (Sjöling o.fl.,
2006). Niðurstöður okkar benda til að auk þessa þurfi
við skipulagningu fræðslunnar að taka tillit til lýðfræðilegra
einkenna, svo sem aldurs, kyns og fjölskylduaðstæðna,
sem áhrif hafa á ánægju sjúklinga og hefur slíkt ekki komið
fram í rannsóknum sem þessum hérlendis áður. Jafnframt
þarf að huga að heildareinkennum sjúklinga: verkjum, kvíða
og þunglyndi og merkjum um seinkaðan bata sem draga
úr ánægju og hafa tæpast hlotið nægilega athygli hingað
til. Þess vegna skyldi ekki steypa alla sjúklinga í sama mót
við skipulagningu fræðslunnar (Blay og Donoghue, 2005;
McMurray o.fl., 2007; Sørlie o.fl., 2006). Skoða þarf hvernig
sjúklingunum reiðir af eftir aðgerðina og hverjar væntingar
þeirra um bata eru. Þannig virðist sem áhrifum annarra
einkenna en verkja á ánægju skurðsjúklinga hafi lítill gaumur
verið gefinn í rannsóknum fram til þessa. Okkar niðurstöður
styðja niðurstöður rannsóknar McMurrey o.fl. (2007) en þar
kom fram að taka þurfi tillit til aldurs, kyns, skurðaðgerðar
og stuðnings ættingja og heilbrigðskerfis við fræðslu fyrir
útskrift. Þær stangast hins vegar á við niðurstöður rannsóknar
Clark o.fl. (2005) sem gaf til kynna að ánægja sjúklinga
með fræðslu við útskrift tengist ekki lýðfræðilegum þáttum
svo sem aldri, kyni eða hvernig þeir meta heilsufar sitt. Sú
rannsókn var þó ekki einskorðuð við skurðsjúklinga auk þess
sem frekar var lögð áhersla á að skoða ánægju sjúklinga eftir
sjúkdómaflokkum en sálrænum eða líkamlegum einkennum
sem þeir sýna eftir aðgerð. Áður hefur verið bent á að það að
laga fræðsluna að fræðsluþörfum hvers og eins sé vænlegt til
árangurs (Fredericks o.fl., 2010; Suhonen og Leino-Kilpi, 2006)
og í mörgum samanburðarrannsóknum hefur slík fræðsla verið
borin saman við venjubundna fræðslu (Blay og Donoghue,
2005). Hins vegar er oft óljóst hvað einstaklingshæfð fræðsla
nákvæmlega þýðir í þessum rannsóknum (Fredericks o.fl.,
2010) og hvort hún jafngildi þar eingöngu meira magni
fræðslu. Því þyrfti í þessu tilliti að skilgreina betur hugtakið
einstaklingshæfð fræðsla.