Skólavarðan - 01.10.2006, Page 30

Skólavarðan - 01.10.2006, Page 30
30 SMIÐSHÖGGIÐ SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 6. ÁRG. 2006 Þessi fyrirsögn myndi sóma sér vel framan á Séð og heyrt eða einhverju svipuðu riti ásamt mynd af einhverjum ofboðslega frægum. Inni í blaðinu mætti svo vafalaust finna „einlægt og opinskátt einkaviðtal“ við téð frægðar- menni þar sem baráttunni við Bakkus eða eitthvað álíka væri lýst. Ég vona að enginn skilji þessi orð sem svo að ég sé að gera lítið úr fíkn annarra og þeim vandamálum sem henni geta fylgt. Síður en svo. En það er til margs konar fíkn, pistlahöfundur er haldin einni slíkri og ætlar að deila reynslu sinni með lesendum Skólavörðunnar. Frá því að ég steig fæti mínum í fyrsta skipti inn í skólastofu í þeim tilgangi að kenna varð einfaldlega ekki aftur snúið. Mér þótti þetta bara svo gaman. Ég hafði ánetjast. Eins og algengt er með fíkla leitaði ég ýmissa leiða til að láta af þessum ávana og fyrsta tilraunin átti sér stað fyrir nokkrum árum. Þá kenndi ég ekki í tvö og hálft ár og menntaði mig til annarra starfa. En kennslan kallaði. Þegar þessi orð eru skrifuð er ég ekki starfandi kennari en ég get varla beðið eftir að snúa til baka. Allt nema gröfustjóri og súludansari Fyrsta kennsludaginn minn man ég miklu betur en fyrsta skóladaginn minn. Kannski er ein af ástæðunum fyrir því sú að þar er ólíkum árafjölda saman að jafna. Þetta var bjartur haustdagur fyrir rúmum tíu árum og ég var umsjónarkennari í sex ára bekk. Börnin mættu með fríðu fylgdarliði foreldra, þetta var fyrsti skóladagurinn þeirra og á bak við gríðarstórar skólatöskur iðuðu lítil börn af spenningi. Foreldrarnir voru líka margir hverjir á iði, sumir þeirra voru að upplifa það í fyrsta skipti að eiga skólabarn. Ég var líka ægilega spennt en reyndi að vera ekki of mikið á iði því ég vildi nefnilega koma vel fyrir. Þetta var fyrsti dagurinn minn í nýju hlutverki, hlutverki sem ég vissi ekki almennilega hvernig ég átti að leysa. Átti ég að vera hress, alvarleg, ströng, sýna þeim hver ræður, fara nákvæmlega eftir öllum uppeldiskenningunum, sem ég hafði lært undanfarin þrjú ár, eða átti ég kannski bara að henda öllum kenningum út um gluggann? Hvað með að leggja áherslu á samvinnu eða skipti meira máli að leyfa einstaklingnum að njóta sín og vinna á eigin forsendum? Átti ég að fara að haga mér eins og sex ára barn svo að ég næði alveg örugglega vel til þeirra, eða átti ég kannski að fylgja heilræði sem ég fékk eitt sinn frá gamalreyndum kennara: Ekki brosa fyrr en eftir jól? Ég held að ég hafi gert allt þetta, nema það síðastnefnda. Strax á fyrsta degi áttaði ég mig nefnilega á því að kennari er svo margt. Þegar ég var við nám í Kennaraháskólanum fékk ég einhvern tímann lista yfir öll þau störf sem kennarastarfið felur í sér. Listinn innihélt nánast öll starfsheiti sem til eru, það eina sem á vantaði voru gröfustjóri og súludansari. Ég var samviskusamur kennaranemi, sem tók námið alvarlega, en það var ekki fyrr en út á kennsluvöllinn var komið að ég áttaði mig á því hversu umfangsmikið starf kennarans er. Þetta er nefnilega málið. Að mínu mati er aðalinntak kennarastarfsins það að laða fram það besta í nemendunum. Að aðstoða þá við að finna leið sem hentar hverjum og einum til að ná sem bestum árangri, hvort sem markmiðið er að öðlast færni í eðlisfræði eða að læra að segja fyrirgefðu við skólafélaga sinn. Það gildir líka einu hvort um er að ræða deild á leikskóla, bekk í grunnskóla eða námshóp í framhaldsskóla; í öllum tilvikum eru afar ólíkir einstaklingar með ólíkar þarfir, skoðanir og viðhorf. Því reynir kennarastarfið á svo ótalmarga þætti hjá þeim sem gegnir því. Sviknir súkkulaðikökudraumar Og nú, loksins eftir rúmlega 600 orð, er ég komin að kjarna málsins, ástæðu fíknarinnar. Fjölbreytileikanum. Það var fjölbreytileikinn sem skapaði fíknina. Að fá að umgangast fjölbreyttan hóp nemenda á hverjum degi þykir mér vera forréttindi. Stundum er sagt að annaðhvort sé fólk fæddir kennarar eða ekki. Að kennsluhæfileikar séu meðfæddir og að langt og strangt nám breyti þar litlu um. Um sannleiksgildi þessarar staðhæfingar ætla ég ekki að fullyrða, en ég er hins vegar alveg viss um að það er ekki hægt að verða góður kennari án þess að hafa áhuga á öðru fólki. Auðvitað hefur allt sína kosti og ókosti, þar er kennarastarfið ekki undanskilið. Eins og svo margir kennarar sem ég þekki hef ég margoft spurt sjálfa mig hvers vegna í ósköpunum ég sé að standa í þessu. Þessi spurning vaknar sér í lagi þegar ég les eða heyri ósanngjarna gagnrýni á kennara. Svo veit ég fátt leiðinlegra en að þurfa sífellt að vera fulltrúi kennarastéttarinnar hvar sem ég kem. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef þurft að sitja fyrir svörum um eðli og tilgang þessarar lymskufullu stéttar sem að sumra mati hefur fátt annað fyrir stafni en að liggja í leti í verkföllum og sumarfríum. Þær eru ófáar veislurnar þar sem ég hef með angistaraugum horft upp á súkkulaðikökuna, sem mig langaði svo mikið í, klárast áður en ég komst í tæri við hana sökum þess að ég þurfti að halda uppi öflugum vörnum fyrir kennarastéttina. Þegar áföll á borð við svikna súkkulaðikökudrauma dynja yfir er ekki gaman að vera kennari. Mér þykir líka einstaklega leiðinlegt að fara í verkfall. Því lengra, því leiðinlegra. Sjö vikna verkfallið sem ég og aðrir grunnskólakennarar fórum í fyrir tveimur árum var svosem engin lautarferð. Og það sem á eftir fylgdi var allt annað en skemmtilegt, ekki síst vegna þess að stéttin varð af mörgum hæfileikaríkum kennurum í kjölfarið Júní, júlí og ágúst Skólaárið var talsvert styttra hér á árum áður og því fylgdi lengra sumarfrí kennara. Ef rífa þurfti stemminguna upp á mannamótum var nóg að spyrja: Hvað finnst kennurum skemmtilegast við starfið sitt? Svarið var: „Júní, júlí og ágúst,” og salurinn gjörsamlega lá. Þetta þótti afskaplega fyndið og klikkaði nánast aldrei, kannski einna helst ef kennarar voru viðstaddir. En kennarar vita betur, þeir vita hvað þetta er skemmtilegt starf og ég veit að ég er ekki eini fíkillinn sem hefur ánetjast kennarastarfinu. Eintóm sæla? Nei, auðvitað ekki. En ég mæli með þessu. Anna Lilja Þórisdóttir Höfundur er grunnskólakennari í leyfi. ÉG ER FÍKILL Anna Lilja Þórisdóttir Lj ós m yn d fr á hö fu nd i

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.