Skólavarðan - 01.05.2007, Blaðsíða 6
6
GESTASKRIF
SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 7. ÁRG. 2007
vaxa úr grasi.
Sem fyrr segir er skólinn í útjaðri Doha
sem er e.t.v. ekki til fyrirmyndar út frá
þeirri hugmyndafræði að börn með fötlun
fái að vera sýnileg og virkir þátttakendur
í samfélaginu. Þetta stendur þó til bóta
því ævintýraleg uppbygging á sér stað í
Doha - talið er að flesta byggingakrana
í heimi sé að finna í landinu - og allt í
kringum skólann rísa nú hröðum skrefum
ný íbúðahverfi. Einnig skiptir hér máli að
ekki er um sólarhringsstofnun að ræða
heldur fara öll börnin heim til sín í lok
skóladagsins.
Aðkoman að skólanum er sérstök, húsin
eru lágreist og byggð í arabískum stíl en
aðstaða skólans er hreint með ólíkindum.
Húsin eru björt og vítt til veggja og öll
nýjasta tækni er til reiðu. Skólinn státar
af fimm skynörvunarherbergjum en
starfsbróðir minn frá Bandaríkjunum
sagði mér að stofnanir þar í landi teldust
í fararbroddi ef þær væru svo heppnar
að hafa eitt slíkt herbergi til umráða.
Við skólann er fullkomið bókasafn í
fötlunarfræðum auk fullkomins tölvuvers
og allar kennslustofur eru búnar besta
fáanlega tækjakostii. Skólanum er skipt í
nokkrar deildir þar sem fram fer kennsla
og þjálfun en einnig er þar fullkominn
víðmyndabíósalur (IMAX) og fjölmiðlaver
þar sem þónokkrar fræðslumyndir um börn
með sérþarfir hafa verið gerðar. Þá má
ekki gleyma að þjóðartónskáld Katarbúa
hefur samið tónverk fyrir skólann, en það
er ekki oft að maður situr ráðstefnur sem
hafa sitt eigið titillag.
Á ráðstefnunni voru kynnt ýmis
alþjóðleg samstarfsverkefni Shafallah
skólans, sýndar voru mjög áhugaverðar
heimildamyndir um börn með sérþarfir
en einna áhrifaríkust var samkoma
foreldra þar sem þau lýstu viðhorfum í
landinu til fatlaðra barna. Ein mæðranna
frá Katar lýsti fæðingu sonar síns sem
er alvarlega hreyfihamlaður. Hún fékk
ekki að sjá hann fyrr en nokkru eftir
fæðinguna því fjölskyldan hafði í hyggju
að senda barnið strax á stofnun erlendis
og móðirin var hvött til að gleyma honum.
Með þrotlausri baráttu tókst henni þó að
vinna gegn fordómum samfélagsins og
koma syni sínum, með hjálp Shafallah, inn
í almennan skóla þar sem hann eignaðist
vini og var tekið sem einum úr hópnum.
Hann er nú orðin hálfgerð þjóðhetja í
Katar og hefur gerbreytt viðhorfum sam-
félagsins til fólks með fötlun.
Hvernig við komum fram við þá sem
eru öðuvísi en fjöldinn er mælikvarði á
siðmenntun hverrar þjóðar. Á Íslandi örlar
stundum á fordómum gagnvart hinum
arabíska menningarheimi en við ættum
að líta okkur nær og svo e.t.v. fjær, ef svo
má segja, þegar kemur að þjónustu og
menntun fyrir börn með sérþarfir.
Guðrún D. Guðmundsdóttir
Höfundur er framkvæmdastjóri
Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Skólinn státar af fimm skynörvunarherbergjum og í
honum er fullkomið tölvuver, bókasafn í fötlunarfræðum,
víðmyndabíósalur (IMAX) og fjölmiðlaver.
Borgin Doha í Katar
Nemandi í Shafallah