Skólavarðan - 01.05.2007, Blaðsíða 21
NÁMSFERÐ SÉRKENNARA
SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 7. ÁRG. 2007
og fleiri. Skólinn leggur einnig áherslu á
að kenna stærðfræði og var forvitnilegt
að fylgjast með kennslustund þar sem
engar bækur voru notaðar heldur einungis
stuðst við hlutbundið efni. Í samtali við
nemendur kom fram að það var þeim
mikill léttir að þurfa ekki að reikna í bækur
en vinna í staðinn á fjölbreyttan hátt með
margs konar kennslugögn.
Skólinn er viðurkenndur af bandarísku
dyslexíusamtökunum og er einnig í
alþjóðlegu dyslexíusamtökunum (IDA).
Í skólanum er rekin rannsókna- og
þjálfunarmiðstöð á því sviði. Meðal
fyrirlesara okkar var Jane Baker sem veitir
þessari miðstöð forstöðu. Hún er í mikilli
samvinnu við ýmsa rannsakendur við
John Hopkin´s háskólann og byggir því
kennslu sína ávallt á nýjustu rannsóknum
og þekkingu á dyslexíu. Þær kennslu- og
þjálfunaraðferðir sem við kynntumst
þarna þóttu okkur mjög áhugaverðar
og sérstaklega erindi og umfjöllun Jane
Baker. Seinni hluta þessa dags var smiðja
(workshop) undir hennar handleiðslu.
Þarna vaknaði áhugi okkar á því að fá
hana hingað til lands með þessa fræðslu.
Nú hefur Rannveig Lund forstöðukona
Lestrarseturs komið því í kring, Jane
Baker er væntanleg til landsins og
verður aðalfyrirlesarinn á fræðsludögum
Lestrasetursins sem haldnir verða 24. og
25. ágúst.
Harbour og Charlesmont skólarnir
Við heimsóttum fleiri skóla svo sem The
Harbour School sem er skóli fyrir fatlaða
nemendur með miklar sérþarfir og
Charlesmont Elementary School, sem er
almennur skóli í hverfi þar sem efnaminna
fólk býr. Í þeim skóla er lögð mikil áhersla
á að fyrirbyggja lestrarerfiðleika. Þar var
unnið með lestur á mjög fjölbreyttan
hátt með nemendum í litlum hópum.
Sem dæmi má nefna það að nota mörg
skynfæri við að tileinka sér lestur: Heyra
- sjá - segja - skrifa.
Skólamiðstöðin í Baltimore
Við heimsóttum einnig skólamiðstöð
Maryland fylkis í Baltimore. Þar fengum
við kynningu á miklu og merkilegu átaki
sem gert var fyrir nokkrum árum til að
bæta lestrarkennslu. Unnið var að þessu
á landsvísu á vegum National Institute for
Literacy (NIFL) og fleiri aðila og byggt á
fjölmörgum viðurkenndum rannsóknum
sem gerðar hafa verið á dyslexíu. Þar
sem ekki eru til nein einföld svör eða
töfralausnir við lestrarkennslu var farið
yfir um hundrað þúsund skýrslur og
rannsóknir á lestri og dyslexíu! Ákveðið
var að draga út nokkur áhersluatriði og
þeim fylgt vel eftir með mikilli fræðslu um
byrjendakennslu í lestri til kennara og með
kennslugögnum til að nota í kennslunni.
Við fengum í hendur 60 blaðsíðna bók
(Put reading first) þar sem farið er yfir
helstu áherslur og kemur þar margt
kunnuglega fyrir sjónir. Helstu þættir sem
lestarkennslan felur í sér og eru samofnir
henni eru:
• Hljóðkerfisvitund - Phonemic awareness
• Hljóðvitund (hljóðfræði) - Phonics
• Sjálfvirkni - Fluency
• Orðaforði - Vocabulary
• Skilningur á texta - Text comprehension
Í bókinni eru þessir fimm þættir skil-
greindir nánar og síðan er þar að finna
leiðbeiningar og aðferðir til að kenna og
þjálfa þessa þætti hjá börnum á fyrstu
árum lestrarnáms.
Þessi ferð var í alla staði mjög lær-
dómsrík og kærkomið tækifæri fyrir okkur
til að kynnast því nýjasta sem er á döfinni
í Baltimore og Marylandfylki, en ekki er
margt í boði fyrir sérkennara þegar kemur
að símenntun. Við getum því hiklaust mælt
með því að kennarar sæki námskeiðið í
ágúst og kynnist hjá Jane Baker nýjustu
kenningum og aðferðum við að vinna gegn
lestarörðugleikum hjá nemendum okkar.
Ólöf Sigurðardóttir
Höfundur er sérkennari í Fellaskóla
LestrarkennslaSögugerð - sjónræn fyrirmæli
21