Skólavarðan - 01.05.2007, Blaðsíða 14

Skólavarðan - 01.05.2007, Blaðsíða 14
14 SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 7. ÁRG. 2007 ingu leikskóladagsins kom upp í kennarasamfélaginu,“ segir Björg. „Sú fyrri er þensla í þjóðfélaginu. Hún hefur veruleg áhrif á leikskólastarf og víða fást leiðbeinendur ekki til starfa, hvað þá kennarar. Við þessar aðstæður þurfti að stytta tímann og senda börn heim og þá kom þetta upp: Er leikskólinn þannig í raun að fram fari markviss kennsla allan daginn? Svarið er nei. Raunin er sú að margir kennarar ráða sig til starfa frá klukkan átta til tvö eða þar um bil. Er þá ekki kominn tími til að þora að upplýsa að kennsla fer fram á þeim tíma og starfið sé með öðrum hætti þar fyrir utan? Þá drögum við um leið fram sýnileika kennarans en það er staðreynd að hann er bara á staðnum þennan tíma. Ef við ætlum að halda því til streitu að hver mínúta dagsins sé jöfn öllum hinum að innihaldi og gæðum, þá erum við um leið að segja að það skipti ekki máli hvort kennarar séu að störfum eða ekki. Og þetta snýst ekki bara um hátt hlutfall kennara í hlutastarfi. Deildarstjóri í fullu starfi hefur til dæmis eina klukkustund á dag í undirbúning og 35 mínútur í kaffi. Það er tæplega 6 ½ klukkustund í starfi með nemendum. Kennarinn sem sinnir ekki deildarstjórn hefur aðeins lengri tíma. Leikskóladagurinn er ekki dekkaður af kennurum og það er staðreynd,“ segir Björg. „Hin sögulega skýringin,“ heldur Björg áfram, „er sú að einu sinni höfðum við bæði leikskóla og dagheimili. Þessar tvær stofnanir höfðu mjög ólíkt yfirbragð. Leikskólinn átti að vera viðbót við foreldrauppeldið og þar var boðið upp á fjögurra klukkustunda skóladag. Foreldrar sem voru fjárhags- og félagslega betur staddir nýttu sér leikskólann. Dagheimilið var fyrir börn einstæðra foreldra og námsmanna og hafði yfir sér meiri heimilis- og gæslubrag. Úr þessu tvennu var svo búið til eitt kerfi. Fjögurra klukkustunda dvölin fór að lengjast, fyrst í fimm tíma, svo sex og alltaf teygðist á þessu. Árið 1991 voru sett lög um leikskóla og gert ráð fyrir að börn dveldu þar í 4 - 9 ½ tíma daglega. Rætt var um tvo grunntíma, að börnin væru annaðhvort frá 8-12 eða frá 13-17. Þetta þýddi tvöfalt prógramm eins og var í tvísetnum grunnskóla og leiddi meðal annars til þess að kennarar réðu sig gjarnan til starfa hálfan daginn. Þróunin hefur svo orðið sú að nú eru nánast öll börn sjö klukkustundir eða lengur í leikskólanum. Um leið kýs meirihluti leikskólakennara að vinna fyrri hluta dags, frá klukkan átta til klukkan tvö eða þrjú. Það er brýnt að bregðast við þessum breyttu aðstæðum og einn liður í því er að ræða hvort skilgreina þurfi nýjan grunntíma,“ segir Björg. Kennarar hafa áhyggjur af lengingu skóladagsins En eiga börn ekki rétt á að vera meira með foreldrum sínum? Samræmist það velferð barns að vera í níu klukkustundir á dag frá heimili sínu? „Margir kennarar hafa miklar áhyggjur af þessari þróun og finnst börn vera allt of lengi í leikskólanum á hverjum degi,“ segir Þröstur. „Og það eru ekki bara kennarar sem tala um þetta heldur líka foreldrar, umboðsmaður barna og stjórnmálamenn. Þá vaknar spurningin: Er yfirhöfuð hægt að stýra þessu? Fullt af fólki þarf á átta til níu tíma leikskóladvöl að halda fyrir börn sín og jafnvel lengri. Í Skotlandi fá til dæmis öll börn fimm grunntíma. Svo bætir fólk við ef þörf krefur. Þetta gæti verið ein leið til að hafa áhrif á hugsun samfélagsins og sá fræi að aðgerðum til að gera fólki kleift að vera meira með börnum sínum. Það er, að bjóða einungis upp á fimm eða sex klukkustunda skólastarf og fólk sækir svo um viðbótartíma að því loknu ef aðstæður krefja. Þess má geta að stórir atvinnurekendur hafa látið sér detta í hug að hafa leikskóla opinn til klukkan átta eða níu á kvöldin! Þessi hugmynd var meðal annars viðruð á ráðstefnu síðastliðinn vetur af fulltrúa vinnuveitenda, sem jafnframt er foreldri. Við vitum að börn eru móttækilegust fyrir nám fyrri hluta dags og eru búin að fá nóg um tvöleytið,“ segir Þröstur. „Hvað er kennsla og hvað er skóli?“ skýtur Björg inn í, „og hvernig skiljum við orðið kennsla? Það er til dæmis kennsla þegar kennari fylgist með og grípur inn í samskipti og leik nemenda af þekkingu og reynslu. Kennarinn kann að koma með jákvæð, skapandi og lærdómsrík innlegg. Er það frjáls leikur þegar börn sitja við borð og púsla? Það er alveg eins hægt að kalla það afþreyingu. Börn geta verið í frjálsum leik í kennsluumhverfi og þau geta verið í frjálsum leik í umhverfi sem er af allt öðrum toga. Þá er jafnvel enginn kennari á staðnum eða þau eru of þreytt til að nema eitthvað nýtt og þjálfa það sem þau hafa þegar lært,“ segir Björg. Á skipulag leikskólastarfs eingöngu að snúast um að mæta þörfum atvinnulífsins? Alls ekki, að sögn Bjargar og Þrastar. Þær HVAÐ ÞARF AÐ GERA? • Stórátak í því að fjölga leikskóla- kennurum. Menntun er undirstaða velferðar og samfélagið bíður skaða ef við höfum ekki á að skipa mjög góðum kennurum og getum valið úr umsóknum. • Bæta kjörin, m.a. auka undirbúnings- tíma. • Fækka í nemendahópum, þ.e. færri á hverri deild. • Stjórnvöld og atvinnurekendur hefji strax samstarf um að gera foreldrum kleift að verja meiri tíma með börnum sínum. • Skilgreina sex klst. sem skipulagt skóla- starf og grunntíma. Annað sé viðbót að vali foreldra og sótt sérstaklega um • Bæta þarf vinnuaðstöðu, til dæmis með fækkun nemenda, endurbótum á eldra húsnæði, hljóðvist og aðgengi að tækjabúnaði • Auka samstarf við aðra aðila, t.d. grunn- og tónlistarskóla. • Fjölga möguleikum til langra eða stuttra námsleyfa – kennsla er starf sem veldur kulnun ef ekkert er að gert. • Fjölmiðlar taki við sér og fjalli af myndarskap um leikskólamenntun. Leikurinn fylgir alltaf þegar leikskólakennarar skilgreina kennslu. Leikur, skapandi starf og daglegar athafnir, þetta þrennt er sett undir einn hatt og allt jafn mikilvægt. ÍSLENSK MENNTUN, MENNTASTEFNA OG -FRAMKVÆMD 2.GREIN

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.