Skólavarðan - 01.05.2007, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.05.2007, Blaðsíða 3
3 FORMANNSPISTILL SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 7. ÁRG. 2007 Formaður og varaformaður KÍ og formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að skrifa formannspistla í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag leikskólakennara (FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag tónlistarskólakennara (FT), Skólastjórafélag Íslands (SÍ). Skömmu fyrir alþingiskosningarnar birti KÍ yfirlit yfir forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar í menntamálunum undir heitinu „Skóli morgundagsins - ný menntastefna á grunni tíu punkta samkomulagsins“. Menntastefnan felst í framsæknum tillögum um aukið jafnrétti til náms, um raunverulega aukningu á fjölbreytni í námi og tryggingar um rétt og aðgengi nemenda að námi, tillögum um góðan aðbúnað í skóla og betri stöðu heimila til að koma börnum og ungmennum til mennta. Og síðast en ekki síst: Tillögum um að festa ábyrgð stjórnvalda á þessum mikilvægu velferðarmálum í lögum með mun meiri skuldbindingu en við eigum að venjast. Tilgangur KÍ var að fá viðbrögð allra stjórnmálaflokka við menntastefnunni og vitneskju um raunverulegan vilja frambjóðenda þeirra til að hrinda henni í framkvæmd að kosningum loknum. Því miður voru viðbrögð bæði fá og rýr. Ársfundur KÍ sem haldinn var á svipuðum tíma lýsti yfir ánægju sinni með tillögurnar og veitti fulltrúum KÍ í laganefndum umboð til áframhaldandi vinnu að málinu samkvæmt stefnu sambandsins um fjölbreytt og jafngilt nám, breytilegan námstíma og lokapróf allt eftir inntaki náms og viðtökumiðun þess. Um leið var varað við öllum hugmyndum um skerðingu á námi. Á ársfundi skólamálaráðs KÍ sem var haldinn í beinu framhaldi af ársfundi KÍ, eftir hádegi sama dag, var farið yfir tillögur einstakra starfshópa um tíu punkta samkomulagið. Kom m.a. skýrt fram í máli fulltrúa KÍ í laganefndum skólastiga að vinnan þar er mjög misjafnlega fram skriðin og komin hvað styst á veg í laganefnd framhaldsskólans. Nú þegar kosningar eru að baki liggur fyrir að útfæra menntastefnuna í laganefndum skólastiganna. Í því sambandi er m.a. mjög mikilvægt að byrjað verði með „hreint borð“ í laganefnd framhaldsskólans til að skapa einhug og samstöðu um yfirvegað og vandað verklag, nemendum og skólastarfi til hagsbóta. Kennarar og samtök þeirra ætlast til þess að stjórnvöld taki fyrirliggjandi tillögur um endurskoðun náms og skólastarfs til efnislegrar meðferðar og taki afstöðu til framkvæmdar þeirra og fjármögnunar. Allir aðilar sem málið varðar geri þessa nýju menntastefnu að sinni, þannig að hún komi til meðferðar alþingis og nái alla leið inn í ríkisfjármálin. Á þessu ári verður þess minnst með ýmsum hætti að 100 ár eru frá setningu fyrstu alþýðufræðslulaganna á Íslandi og frá upphafi kennaramenntunar. Á þessum tímamótum er fyllilega ástæða til að spyrja: Hvenær var síðasta tilhlaupið tekið sem jók raunverulega jafnrétti til náms á Íslandi? Hér er ekki átt við endurritun námskráa og því um líkt heldur raunverulegar aðgerðir sem bættu og jöfnuðu stöðu einstaklinga og hópa til að komast til mennta. Er nokkuð meira viðeigandi á þessu ári en víðtæk samstaða um heildarniðurstöðu í endurskoðun náms og skólastarfs sem nemendur, kennarar og samfélagið allt getur vel við unað? Aðalheiður Steingrímsdóttir. Stóru verkefnin í menntamálunum Skömmu fyrir alþingiskosningarnar birti KÍ yfirlit yfir forgangs- verkefni nýrrar ríkisstjórnar í menntamálunum. Tilgangurinn var að fá viðbrögð allra stjórnmálaflokka við menntastefnunni og vitneskju um raunverulegan vilja frambjóðenda þeirra til að hrinda henni í framkvæmd að kosningum loknum. Því miður voru viðbrögð bæði fá og rýr. Kennarar og samtök þeirra ætlast til þess að stjórnvöld taki fyrirliggjandi tillögur um endurskoðun náms og skólastarfs til efnislegrar meðferðar og taki afstöðu til framkvæmdar þeirra og fjármögnunar. Aðalheiður Steingrímsdóttir formaður Félags framhaldsskólakennara

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.