Skólavarðan - 01.05.2007, Blaðsíða 7

Skólavarðan - 01.05.2007, Blaðsíða 7
7 KJARAMÁL SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 7. ÁRG. 2007 Í þessari grein er ætlunin að fjalla um foreldraorlof, en samkvæmt lögum nr. 95/2000 (Lög um fæðingar- og foreldraorlof) á hvort foreldri um sig rétt á að taka foreldraorlof (launalaust leyfi) í 13 vikur til að vera samvistum við barn sitt. Svo virðist sem fáir viti um þennan lögbundna rétt starfsmanna til töku foreldraorlofs þó flestir viti eitthvað um rétt starfsmanna til töku fæðingarorlofs. Það er heldur hvergi skráð með skipulögðum hætti hve margir nýta sér þennan rétt og því erfitt að segja til hversu algengt þar er. Réttur til foreldraorlofs Auk réttar til fæðingarorlofs stofnast réttur til foreldraorlofs við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs sem er ekki fram- seljanlegur. Foreldraorlof er réttur foreldris til þess að taka 13 vikna launalaust leyfi eftir að hafa starfað samfellt í sex mánuði hjá sama vinnuveitanda og fellur þessi réttur niður við átta ára aldur barnsins. Ólíkt fæðingarorlofinu þá fylgir ekki réttur til greiðslu launa úr Fæðingarorlofssjóði í foreldraorlofi, heldur er þetta eins og áður sagði launalaust leyfi. Skipulag foreldraorlofs Foreldri á rétt á að taka foreldraorlof í einu lagi en þó er heimilt með samkomulagi við vinnuveitanda að haga foreldraorlofi með öðrum hætti þannig að orlofið skiptist t.d. niður á fleiri tímabil og/eða það sé tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Þótt starfsmaður eigi fleiri en eitt barn undir átta ára aldri getur hann ekki sótt um nema 13 vikur á hverju 12 mánaða tímabili nema með sérstöku samþykki vinnuveitanda. Tilkynning um foreldraorlof Starfsmaður þarf að tilkynna vinnuveit- anda ef hann hyggst taka foreldraorlof eins fljótt og auðið er, en í síðasta lagi 6 vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag foreldraorlofs. Tilkynningin þarf að vera skrifleg og þar þarf að koma fram upphafsdagur foreldraorlofs, lengd og tilhögun. Vinnuveitandi á þá að árita á tilkynninguna móttökudagsetningu og afhenda starfsmanni afrit af henni. Vinnu- veitandi þarf jafnframt að skrá töku foreldraorlofs á þann hátt að starfsmaður geti fengið, ef hann óskar þess, vottorð um fjölda foreldraorlofsdaga sem hann hefur tekið enda getur taka foreldraorlofs dreifst yfir átta ára tímabil. Frestun Ef vinnuveitandi getur ekki fallist á óskir starfsmanns um tilhögun foreldraorlofsins skal hann að höfðu samráði við starfsmann tilkynna skriflega um aðra tilhögun innan viku frá móttökudagsetningu til- kynningar. Tilgreina þarf ástæður fyrir breyttri tilhögun og ef um frestun er að ræða þarf að koma fram hve lengi hún varir. Heimild vinnuveitanda til frestunar verður þó einungis beitt þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi í rekstri stofnunar sem gera slíkt nauðsynlegt eða óhjákvæmilegt. Það gæti t.d. verið þangað til ákveðnu verkefni eða álagstíma er lokið. Aðrar ástæður geta verið t.d. árstíðabundin störf, álagstími í starfi, ef ekki tekst að finna hæfan staðgengil, ef margir sækja um foreldraorlof á sama tíma eða ef viðkomandi starfsmaður gegnir lykilhlutverki í æðstu stjórn stofnunar. Óheimilt er í öllum tilfellum að fresta foreldraorlofi sem er í beinu framhaldi af fæðingarorlofi. Vinnuveitanda er aldrei heimilt að fresta töku foreldraorlofs lengur en um sex mánuði frá þeim tíma starfsmaður óskar eftir að hefja foreldra- orlof nema með sérstöku samþykki starfsmannsins. Ef vinnuveitandi fer fram á frestun sem verður til þess að starfsmaður nær ekki að ljúka foreldraorlofi fyrir átta ára aldur barnsins þá framlengist sá tími sem heimilt er að taka foreldraorlof til þess dags að barn nær níu ára aldri. Réttindi í foreldraorlofi Réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafs- degi foreldraorlofsins haldast óbreytt til loka þess, en þá gilda sömu réttindi auk þeirra sem gætu hafa breyst á grundvelli laga eða kjarasamninga. Að lokum vil ég svo minna á að ráð- ningarsamband starfsmanns og vinnu- veitanda helst óbreytt í foreldraorlofi og starfsmaður skal eiga rétt á að koma aftur í starf sitt að foreldraorlofi loknu, en sé þess ekki kostur á viðkomandi rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning. Einnig er rétt að benda á að óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku foreldraorlofs eða er í foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja upp- sögninni. Ef þið hafið einhverjar spurningar varð- andi þessi mál er ykkur velkomið að hringja til mín í síma 595 1111 eða senda mér tölvupóst á netfangið ingibjorg@ki.is Ingibjörg Úlfarsdóttir Launafulltrúi KÍ Ingibjörg Úlfarsdóttir launafulltrúi KÍ Lj ó sm y n d : S te in u n n J ó n a sd ó tt ir Foreldraorlof

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.