Gerðir kirkjuþings - 2010, Page 148
148
3. Unglingastarf – fræðsla fyrir unglinga og ungt fólk.
4. Fræðsla fullorðinna.
5. Starfsmannaþjálfun kirkjunnar.
Við samningu námskrár fræðslustarfs kirkjunnar hefur þessi skipting verið höfð að
leiðarljósi. Námskráin er heildstæð þar sem tekið er mið af öllum æviskeiðum
mannsins og dregin eru fram enn frekar þau viðfangsefni sem kirkjan vill vinna að í
fræðslustarfi sínu.
I. Skírnarfræðsla
Áherslur
Fræðsla kirkjunnar grundvallast á skírnar- og kristniboðsskipuninni:
Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og
heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með
yður alla daga allt til enda veraldar. (Matt. 28: 19-20).
Megintilgangur með barnastarfi kirkjunnar er að fræða börnin um Guð og leiða
þau inn í helgihald kirkjunnar og heim bænarinnar. Þetta er einn þáttur uppeldis
sem öll skírð börn eiga að njóta. Heilagur andi skapar trú í gegnum orðið og
sakramentin. Trúin kviknar vegna verka heilags anda. Með fræðslu er leitast við að
hafa áhrif á trú barnsins og ýta undir trúar- og siðgæðisþroska þess á margan hátt:
Í fyrsta lagi: Með því að hafa Guðsorð um hönd. Börnin þurfa að kynnast
innihaldi og boðskap Biblíunnar og læra að taka hann til sín.
Í öðru lagi: Í gegnum helgihald, fræðslu og námsumhverfi sem höfðar til
upplifunar má hjálpa börnunum að skilja og hlusta á Guð og lifa í samfélagi við hann.
Í þriðja lagi: Fræðslan á að hjálpa til við að auka og dýpka skilning barnanna á
innihaldi kristinnar trúar og undirbúa þau undir að takast á við siðferðilegan vanda.
1. Fræðsla í kirkjunni
Söfnuðurinn er vettvangur fræðslu þar sem Jesús Kristur er þungamiðjan og heilagur
andi er að verki. Sú fræðsla sem gengið er út frá verður að miðast við þarfir barnanna
og safnaðarins. Sú uppeldisfræði sem fram kemur í námskránni er grundvölluð í
evangelisk-lútherskri guðfræði.
Í fræðslunni er mikilvægt að lögð sé áhersla á þekkingu, upplifun og leikni. Upplifun
grundvallast á þeirri reynslu og þeirri þekkingu sem barnið býr yfir. Til að auka
skilning barnanna á trú og trúarreynslu má fara leið upplifunar sem kallar á tjáningu í
einhverju formi. Þessi leið er vandmeðfarin og þarf stöðugt að hafa í huga að gengið
sé út frá forsendum barnanna. Þau þurfa að fá möguleika til túlkunar og tjáningar
þannig að færi gefist á úrvinnslu á þeirra eigin forsendum. Frásagan er hér mikilvæg
leið. Mikilvægt er einnig að fá börnin til að tjá sig og tala um trú sína og andlegt líf.
Samtal og spurningar gera börnin virkari þátttakendur í fræðslunni. Í fræðslunni er
mikilvægt að ganga út frá spurningum barnanna. Á þennan hátt er hægt að komast til
móts við hugsanir, tilfinningar, og þarfir barnsins. Texti Biblíunnar og frásögur eru
vel til þess fallin að höfða til reynslu og upplifunar barnanna. Leið upplifunar til
skilnings er mikilvæg þegar viðfangsefnið er tilfinningabundið og mjög huglægt.
Það eru ekki einvörðungu orðin og fræðslan sem mætir barninu sem hafa áhrif á það
heldur allt það umhverfi sem barnið hrærist í og viðmótið sem það mætir. Mæta þarf
börnum af skilningi og virðingu. Jákvætt og vinarlegt viðmót gagnvart börnunum
skapar gagnkvæmt traust.