Morgunblaðið - Sunnudagur - 04.10.2015, Blaðsíða 47
4.10. 2015 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 47
mörg, eins og sagt var um Gróu móður henn-
ar, og hún setti ljós sitt ekki undir mæliker. Þá
var hún félagi í Íslendingafélaginu í Toronto og
fann alltaf fyrir Íslendingnum í sér, hélt ætt-
erni sínu á loft hvar sem var.
Íslandsdvölin 1938
Að ofanrituðum orðum sögðum er við hæfi að
segja frá beinum kynnum hennar af Íslandi og
íslenskri þjóð í heimalandinu. Verður stað-
næmst við árið 1938. Það ár kom hún til Ís-
lands snemma sumars, líklega síðla í maí og
dvaldist í landinu langt fram á haust, mest í
Reykjavík, en fór víðar um landið. M.a. lagði
hún leið sína austur á Norðfjörð. Þar átti hún
tvo föðurbræður, Ingvar og Pálma, sem voru
drjúgir ættfeður, þar var helst að Pearl hitti
nánasta skyldfólk sitt. Frumkvæði að ferð
hennar til Íslands átti án efa frændi hennar
Sveinn Ingvarsson lögfræðingur og þá forstjóri
Viðtækjaverslunar ríkisins. För hennar austur
á Norðfjörð var í boði hans og Ingvars föður
hans.
Eins og áður hefur komið fram fluttist Pálmi
Pálmason, föðurbróðir hennar, til Norðfjarðar
skömmu fyrir 1890, en Ingvar fluttist austur
1891. Gerðust báðir grónir Norðfirðingar. Mér
er koma Pearl til Norðfjarðar minnisstæð,
enda var ég orðinn 12 ára. Ég held ég muni
það rétt að fyrstu vikuna í júní þetta ár var
veður bærilegt, þótt vissulega væri snjór í
fjallagiljum enn viðloðandi og túngrös rétt að
taka við sér. Dvöl hennar eystra miðaðist við
áætlun strandferðaskipa og var ekki löng. En
minnisstæð hefur hún áreiðanlega verið henni
eins og hún er minnisstæð okkur sem enn lif-
um af frændfólki hennar eystra.
Þegar til Reykjavíkur kom úr strandferðinni
austur tók megindvöl hennar við sumarlangt.
Og þar mátti segja að hlutirnir gerðust! Var
Sveinn Ingvarsson henni til halds og trausts
um hvað eina. Hann kom henni í kynni við ís-
lenska tónlistarmenn og samtök þeirra og átti
stærstan hlut að því að Pearl gat efnt til tón-
leikahalds í Gamla bíói tvívegis, fyrst 15. júní
og aftur 30. september við góða aðsókn og
framúrskarandi undirtektir. Árni Kristjánsson
var meðleikari hennar á píanó. Páll Ísólfsson
tónskáld var tónlistargagnrýnandi Morg-
unblaðsins. Í gagnrýni sinni minnti hann á að
eins og kunnátta hennar í fiðluleik væri „geysi-
mikil“ hafi hún valið til flutnings erfið verk og
„sýnt hversu alhliða og leikandi tækni hún hafi
náð á hljóðfæri sitt“, svo ung sem hún væri.
Meginniðurstaða hans um frammistöðu Pearl
fólst í þessum orðum: „Var allur leikur hennar
myndugur og víða töfrandi fagur og heillandi.“
Mbl. 17.6.1938.
Pearl hélt einnig kvöldtónleika í Dómkirkj-
unni.
Auk þessara tónleika lék Pearl í dagskrá
Ríkisútvarpsins 23. október. Segir í Útvarpstíð-
indum „það einn merkasta viðburð í hljómlist-
arstarfi útvarpsins nú um langt skeið“. Út-
varpstíðindi birta viðtal við hana og spyr
blaðamaður hana hvort hún gæti hugsað sér að
setja íslensk lög á efnisskrá sína. Hún kveðst
gjarna vilja það, en sá hængur sé á að íslensk
lög séu yfirleitt samin til söngs en síður til
hljóðfæraflutnings, „... finnst mér það einkenna
dálítið íslenzkt tónlistarlíf, að menn dá sönginn
tiltölulega meira hér en aðrar greinar hljóm-
listarinnar,“ er haft eftir henni í Útvarpstíð-
indum.
Tímarit Tónlistarfélagsins 3. hefti 1938
fjallar um Pearl sem fiðluleikara og glæsilegan
feril hennar sem námsmanns og flytjanda ým-
iss konar fiðlutónlistar. Segir svo orðrétt:
„Vestan hafs hefir ungfrú Pálmason oft
komið fram sem einleikari, bæði á sjálfstæðum
tónleikum og á annan hátt. Einnig hefir hún
leikið í strokkvartettum, enda hefir hún mikinn
áhuga fyrir kammermúsik. Viðfangsefni henn-
ar hafa flest verið mjög erfið og má t.d. nefna
konserta eftir Sibelius, Glazounov og Mozart,
sónötur eftir Beethoven og ýms smálög, sem
krefjast framúrskarandi tækni. En bæði ís-
lenzk og ensk blaðaummæli um leik hennar
eru mjög á einn veg, að hann sé með af-
brigðum góður.“
Dvöl Pearl Pálmason á Íslandi sumarið 1938
var í raun áfangi eða viðkoma á leið hennar til
áframhaldandi náms í London, sem var hennar
dvalarstaður næsta ár og hafði verið fyrirfar-
andi ár, en hlaut bráðan enda þegar heims-
styrjöldin síðari hófst 1. september 1939. Þá
fýsti hana mjög að komast heim til Winnipeg.
Af undirbúningi heimferðarinnar er býsna
dramatísk saga, mörkuð af ógnum styrjald-
arinnar. Um það gef ég systur hennar, Ruby
Dawson, orðið:
„Pearl hafði lokið námi sínu hjá Carl Flesch
í Englandi. Hún pantaði far með [bandaríska
farþegaskipinu] Atheniu til New York og bað
foreldra sína að senda sér peninga fyrir far-
gjaldinu. En peningasendingin dróst, svo að
hún missti af skipinu. Atheniu var sökkt við Ír-
land. Svo vel vildi til að frændi okkar, Sveinn
Ingvarsson, búsettur á Íslandi ... var staddur [í
viðskiptaerindum] í London um þessar mundir,
og tókst honum að útvega henni far með Oslo-
fjord, sem var í förum milli Noregs og New
York. En mánuði síðar [í annarri ferð] var Os-
lofjord sökkt. Mórallinn í sögunni er sá, að Pe-
arl Pálmason verður ekki í hel komið! — Úr
þessu hefst æviskeið og starfsferill hennar,
sem þegar hefur verið rakinn, þ.e. tónlist-
arvegsemd hennar í Toronto, sem stendur öllu
öðru ofar í lífi hennar og starfi.“
Úrvalsfiðlan frá 1741
Áður en ég lýk þessari knöppu frásögn af
merkri tónlistarkonu, þykir mér hlýða að
greina frá því að Pearl eignaðist dýrmæta fiðlu
frá 18. öld sem var umtalsverður þáttur í sögu
hennar. Ekki fer milli mála að Pearl var metn-
aðarfull og fann til sín. Hún var sköruleg kona.
Í loftinu liggur að hún hefði getað hugsað sér
að eiga fiðlu eftir hina frægu ítölsku fiðlusmiði
Stradivarius-feðga á 17. og 18. öld. Slík löngun
var vitaskuld óvon. Hins vegar eignaðist hún
úrvalsfiðlu frá 18. öld eftir nafnkunnan ítalskan
fiðlusmið, Januarius Gagliano. Hann mun hafa
verið af þekktri tónlistarætt, starfaði í Napóli
og þar smíðaði hann fiðluna, sem hér um ræð-
ir, árið 1741.
Saga fiðlu þessarar er rakin þannig á blöð-
um sem ég hef undir höndum, að 1895 selur
W.E. Hill & Co hana manni að nafni John A.
Brown. Árið 1938 er eigandi hennar nefndur
Pierre Vidoudez og selur hana Jean Klein í
Genf. Pearl Pálmason kaupir fiðluna 1960. Um
kaupverð er ekki talað. Eftir það er fiðla þessi
hennar aðalhljóðfæri að ætla má, en ekki hef
ég á takteinum neinar sérstakar umsagnir um
notkun hennar á fiðlunni. Hins vegar lét hún
svo um mælt, að hún elskaði slíkan kjörgrip
meira en frægð sína og frama og hvers kyns
metorð. Þá stendur hér á minnisblaði hjá mér
að verðmat á fiðlunni sé Value: $350,000. Þetta
verð get ég að sjálfsögðu ekki rengt og hlýt að
fagna eignarstöðu hinnar knáu vesturíslensku
frænku minnar, sem skírð var Guðrún Perla
Sveinsdóttir eftir ömmu sinni, húnvetnskri
konu, Guðrúnu Björgu Sveinsdóttur frá Ysta
Gili, sem var hundelt til dauðadags fyrir skuld
við Engihlíðarhrepp, öreigaekkja, sem reyndi
að framfleyta sér sem vinnukona eða í hús-
mennsku eftir makamissi og gjaldþrot á harð-
indaárunum upp úr 1880 og snerti ekki síst
Húnvetninga. Leggi hver út af þessu innskoti
sem hann vill!
Í erfðaskrá sinni arfleiddi Pearl fiðluna arf-
þega, sem ekki er upplýst hver er, en með
strangri kvöð um að fiðlan yrði „lánuð Canada
Council for the Arts ótiltekinn tíma að því er
virðist, en listráðinu ætlað að deila hljóðfærinu
milli ungra og efnilegra nema í fiðluleik til
tímabundinna afnota.“ Þótt ýmsum mætti
þykja þessi arfur nokkuð sérstæður, lýsir ráðs-
lagið stórhug arfleiðandans um mikilvægi fiðl-
unnar sem lifandi hljóðfæris öld af öld.
Af Pearl Pálmason er það síðast að segja af
minni hálfu, að hún giftist ung að árum, en þau
hjón skildu eftir skamma og erfiða sambúð.
Eftir það lifði hún einlífi og eignaðist enga af-
komendur. Eins og ráða mátti af stóru og vel
búnu einbýlishúsi hennar í Toronto, þar sem
margir nutu gestrisni hennar, var hún ágæt-
lega efnuð og kunni vel með fé að fara. Pearl
Pálmason lést í Toronto 17. febrúar 2006 á 91.
aldursári.
Pearl Pálmason í
heimsókn í Reyk-
holti árið 1935.
Pearl Pálmason eftir kveðju-
tónleika sína árið 1981.
Sveinn Pálmason, faðir Pearl.