Fréttablaðið - 21.01.2017, Page 24

Fréttablaðið - 21.01.2017, Page 24
Ég heiti því að gegna embætti forseta Banda-ríkjanna af trúfestu og að framfylgja, verja og vernda  stjórnarskrá Bandaríkjanna eftir minni bestu getu.“ Þessi orð lét Donald J. Trump, for- seti Bandaríkjanna, loks falla í gær á tröppum þinghússins í Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna. John Roberts, forseti hæstaréttar Banda- ríkjanna, fór með Trump yfir forseta- eiðinn. Varð Trump þar með 45. forseti Bandaríkjanna og tók hann við af Bar- ack Obama sem yfirgaf svæðið í þyrlu stuttu síðar með konu sinni Michelle. Skömmu áður hafði Mike Pence svarið varaforsetaeiðinn og tók hann þar með við af Joe Biden. „America first“ Innsetningarræða Trumps kallaðist á við þær fjölmörgu framboðsræður sem hann flutti í harðri kosninga- baráttu. Kom hann í ræðunni inn á það leiðarstef sitt að Bandaríkin og bandaríska þjóðin ættu að vera í fyrsta sæti í forgangsröð forseta. „Við höfum gert aðrar þjóðir ríkar á meðan auður okkar, styrkur og sjálfs- traust hefur horfið. Ein af annarri hafa verksmiðjur yfirgefið landið. Auður millistéttarinnar hefur verið rifinn af heimilum þeirra og honum dreift um hnöttinn. Frá og með deginum í dag munu Bandaríkin verða í fyrsta sæti,“ sagði forsetinn. Hann sagði að áhersla yrði lögð á að koma fólki af bótum og út á vinnu- markaðinn. Farið yrði eftir tveimur einföldum reglum. Að kaupa banda- rískt og ráða Bandaríkjamenn. Trump kom einnig inn á þau skila- boð sem ef til vill skiluðu honum sigri í Michigan, Pennsylvaníu og Wisconsin: „Yfirgefnar verksmiðjur standa á víð og dreif eins og legsteinar um landið. Þetta bandaríska blóðbað hættir hér og nú.“ Af ræðunni virðist ljóst að Trump hyggst ekki víkja frá þeirri einangrun- arstefnu sem hann boðaði í kosninga- baráttunni. Hann hyggst koma í veg fyrir að verksmiðjur yfirgefi Banda- ríkin og ætlar þannig að sjá verka- mönnum í Miðvesturríkjunum fyrir atvinnu. Þá hefur hann boðað háa tolla á vörur fyrirtækja sem yfirgefið hafa Bandaríkin. Þess ber einnig að geta að þau tvö orð sem heyrðust oftast í ræðu Trumps voru annars vegar Banda- ríkin og hins vegar Bandaríkjamenn. Næst á eftir komu hugtök á borð við ríki og þjóð. Í lokaorðum ræðunnar fór Trump fyrirsjáanlega með slagorð sitt úr kosningabaráttunni: „Make America great again!“ Vill sameina sundraða þjóð Hinn nýi og umdeildi forseti leitaðist í ræðu sinni við að græða sár and- stæðinga sinna og sameina þjóðina eftir einstaklega sundrandi kosninga- baráttu. Hundruð þúsunda Banda- ríkjamanna hafa mótmælt kjöri hans frá því í nóvember, meðal annars í höfuðborginni í gær. Þó var ekki að merkja neina truflun á athöfninni sjálfri þegar horft var á útsendingar bandarískra sjónvarpsstöðva. Í sameiningarskilaboðum sínum höfðaði Trump til föðurlandsástar- innar. „Þegar þið opnið hjarta ykkar fyrir föðurlandsást er ekkert pláss eftir fyrir fordóma,“ sagði forsetinn. „Endurnýjað þjóðarstolt mun lyfta okkur upp og lækna sárin. Núna er tíminn til að hafa í huga þau spak- mæli sem hermenn okkar gleyma aldrei. Hvort sem við erum svört, brún eða hvít blæðir okkur öllum sama rauða föðurlandsvinarblóðinu.“ Höfðaði til þeirra gleymdu Forsetinn var umkringdur stjórn- málamönnum á sviðinu. Honum á vinstri hönd voru meðal annars fyrr- verandi forsetarnir Barack Obama, George W. Bush, Bill Clinton og Jimmy Carter. Með Bill var andstæð- ingur Trumps í kosningabaráttunni, Hillary Clinton. Þrátt fyrir félagsskapinn veigraði Trump sér ekki við því að gagnrýna stjórnmálamenningu Bandaríkjanna. „Við munum færa völdin frá Wash- ington og aftur til fólksins. Undan- farið hefur Washington blómstrað en almenningur ekki fengið sinn skerf,“ sagði Trump. „Þetta er ykkar dagur, ykkar fögn- uður. Þetta land, Bandaríkin, er ykkar land. Hinir gleymdu menn og konur þessa lands munu ekki lengur falla í gleymsku. Nú hlusta allir á ykkur. Það sem skiptir mestu máli er ekki hvaða flokkur fer með völdin. Heldur hvort almenningur fái að stjórna.“ Trump sagðist ætla að berjast til síðasta blóðdropa fyrir þjóð sína. Bandaríkin myndu sigra á ný og sigra sem aldrei fyrr. „Við munum sameina hinn vestræna heim gegn hryðju- verkum öfgaíslamista. Við munum uppræta þau af yfirborði jarðar,“ sagði hann enn fremur. Stríðsöxin grafin Undanfarin átta ár hafa Trump og fyr- irrennari hans, Barack Obama, eldað grátt silfur. Í gær mátti þó ekki sjá annað en velvild þeirra hvor í annars garð á þessum síðasta degi Obama í embætti og fyrsta degi Trumps. Á árum áður hefur Obama sagt Trump stórkostlega vanhæfan og Trump sagt slíkt hið sama um Obama. Aukinheldur var Trump einn helsti forsprakki þeirra sem kröfðust þess að fá að sjá fæðingarvottorð Obama vegna gruns um að hann sé ekki fæddur í Bandaríkjunum. „Þau hafa verið stórkostleg,“ sagði Trump um Obama-hjónin. „Vel gert, vel gert,“ mátti lesa af vörum Obama þegar Trump fór með lokaorð ræðu sinnar. Ólíklegt afrek kórónað Innsetningin markaði lokapunkt ótrúlegs kosningasigurs Trumps og upphaf valdatíðar hans. Vegna umdeildra ummæla um ólöglega innflytjendur, múslima, konur og aðra mætti Trump miklu mótlæti í kosningabaráttunni. Varla væri hægt að telja þann fjölda frétta og skoðanagreina þar sem bandarískir stjórnmálagreinendur lýstu því yfir að Trump ætti enga möguleika á því að hreppa útnefn- ingu Repúblikana til forsetaframboðs, hvað þá verða forseti. Í hvert sinn sem Trump talaði af sér birtust slíkar greinar. Það gerðist strax í upphafi kosningabaráttunnar þegar hann lýsti ólöglegum, mexíkóskum innflytjendum sem glæpamönnum. Einnig gerðist það þegar hann sagði dómara vanhæfan til að dæma í máli sínu vegna þjóðernis, þegar hann tal- aði um að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna og þegar upptaka birtist þar sem heyra mátti forsetann tala um að grípa í kynfæri kvenna. Að morgni kosningadags mátti svo sjá reiknilíkön fjölmiðla spá Clinton sigri. New York Times sagði 85 pró- sent líkur á sigri Clintons, Huffington Post gaf Clinton 98 prósent líkur og FiveThirtyEight sagði 72 prósent líkur á sigri Clintons. Allt kom þó fyrir ekki og vann Trump afgerandi sigur. Vann hann stuðning 306 kjörmanna samanborið við 232 kjörmenn Clintons þrátt fyrir að hafa fengið mun færri atkvæði en Clinton á landsvísu. Fjölmargir mótmæltu Trump á strætum Washington-borgar. Sumir báru gömul skilti frá kosningabaráttu Baracks Obama. FréTTABlAðið/EPA Nýi forsetinn og forsetafrúin Melania Trump voru einkar hress við innsetningarat- höfnina í gær. Hér má sjá forsetahjónin kyssast. FréTTABlAðið/EPA Donald Trump, hér stuttu frá því að verða valdamesti maður heims, reisir hnefann á loft og heilsar almenningi. Margmenni var við innsetningarathöfnina. Þó mættu mun færri en árið 2008 þegar Barack Obama tók fyrst við embætti. FréTTABlAðið/EPA Donald John Trump varð 45. forseti Banda- ríkjanna í gær. Í innsetningarræðu sinni hvatti hann til sameiningar undir banda- ríska fánanum. Dagar innantómra orða væru taldir og tími aðgerða runninn upp. Forsetinn Bandaríkin í fyrsta sæti setur Þórgnýr Einar Albertsson thorgnyr@frettabladid.is Yfirgefnar verk- smiðJur sTanDa á víð og Dreif eins og leg- sTeinar um lanDið. ÞeTTa banDaríska blóð- bað hæTTir hér og nú. 2 1 . j a n ú a r 2 0 1 7 L a U G a r D a G U r24 h e L G i n ∙ F r É T T a B L a ð i ð 2 1 -0 1 -2 0 1 7 0 4 :4 1 F B 0 9 6 s _ P 0 7 3 K .p 1 .p d f F B 0 9 6 s _ P 0 7 2 K .p 1 .p d f F B 0 9 6 s _ P 0 2 4 K .p 1 .p d f F B 0 9 6 s _ P 0 2 5 K .p 1 .p d f A u to m a ti o n P la te r e m a k e : 1 C 0 3 -5 B 6 C 1 C 0 3 -5 A 3 0 1 C 0 3 -5 8 F 4 1 C 0 3 -5 7 B 8 2 7 5 X 4 0 0 .0 0 1 8 B F B 0 9 6 s _ 2 0 _ 1 _ 2 0 1 7 C M Y K

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.