Morgunblaðið - 29.06.2016, Qupperneq 31
MENNING 31
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 29. JÚNÍ 2016
Smiðjuvegi 68-72, Rvk Hjallahrauni 4, Hfj Fitjabraut 12, Njarðvík Eyrarvegi 33, Selfossi Barðinn, Skútuvogi 2
Við tökum að okkur: Peruskipti, rafgeymaþjónustu,
bremsuviðgerðir, stýrisenda, spindilkúlur, kerti,
kertaþræði, hjólalegur, fjöðrunarbúnað, viftureimar,
hjólastillingar og margt fleira.
LAGFÆRUM
BÍLINN
VIÐ
www.solning.is
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Hljómsveitin Samaris lýkur þriggja
vikna tónleikaferð sinni um Evrópu
með tónleikum á Húrra í kvöld sem
hefjast kl. 20 og koma einnig fram á
þeim þau Árni Skeng, DJ Flugvél og
geimskip og DJ Bervit. Árni sér um
upphitun, Dj Flugvél verður á reyk-
vélinni og DJ Bervit spilar eftir tón-
leikana. Tilefni tónleikaferðarinnar
er þriðja plata Samaris í fullri lengd,
Black Lights, sem kom út 10. júní
sl., en á henni syngur hljómsveitin í
fyrsta sinn frumsamda texta á
ensku.
Samaris skipa Áslaug Rún
Magnúsdóttir, Þórður Kári Stein-
þórsson (kallaður
Doddi) og Jófríð-
ur Ákadóttir og
stofnuðu þau
hljómsveitina ár-
ið 2011, þá öll á
táningsaldri.
Fyrsta platan í
fullri lengd, samnefnd sveitinni, kom
út tveimur árum síðar og önnur,
Silkidrangar, árið 2014. Hljóm-
sveitin fór að vinna að Black Lights í
janúar í fyrra og segir Áslaug að
platan hafi verið tilbúin um ári síðar.
Fóru hvert í sína áttina
Spurð að því hvort þau séu að
prófa eitthvað nýtt á plötunni segir
Áslaug að það megi orða það svo.
„Ég veit ekki hvort við höfum þrosk-
ast eitthvað mikið frá síðustu plötu.
Ég vona það. Við fórum að gera
ólíka hluti, fluttum öll af landinu. Ég
fór að læra meiri raftónsmíðar,
Doddi var í Berlín að gera sitt og Jó-
fríður að vinna mjög mikið í sínu
sólóverkefni og öðrum verkefnum
þannig að ég held að við höfum öll
komið með nýjar hugmyndir. Við
hittumst reglulega í London, Ír-
landi, Berlín og Reykjavík og tókum
upp og að því leyti er þessi plata ólík
þeim fyrri,“ segir Áslaug, sem leikur
á klarínett í tríóinu, Jófríður syngur
og Doddi leikur á hljóðgervla.
-Er þetta hljóðgervlapopp með
klarínetti?
Áslaug hlær að skilgreiningunni.
„Jú, það má segja það. En núna
heyrir fólk ekkert rosa „lead synth
klarínett“-eitthvað með rosa popp-
línu, það er búið að breytast. Það er
komið miklu meira í bakgrunninn,
meira „prósessað“ og það sama má
segja með sönginn, lögin byggjast
mikið á hljómdæmum frá röddinni
og klarínettinu sem hefur verið
„skramblað“ saman í eitthvert raf-
haf og heyrist ekki nema rýnt sé vel
í lögin,“ útskýrir hún.
Sjálfstæðari vinnubrögð
-Í tölvupósti sem þú sendir mér
sagðir þú að þú vildir spjalla um
erfiðleika, ást og örlög hljómsveit-
arinnar. Ég verð því að spyrja: hefur
mikið gengið á hjá ykkur undanfarin
misseri?
Áslaug hlær innilega. „Nei, það er
kannski ekki hægt að segja það, ég
vildi bara grípa athygli fréttamanns-
ins og það hefur virkað. Ööö... erfið-
leikar, ást og örlög ... jú, ætli við höf-
um ekki öll gengið í gegnum
einhverja ástarsorg í þessu ferli, ég
held það. Þegar við vorum að byrja í
Berlín var fólk búið að vera upp og
niður í ástarmálum en það eru allir
stabílir núna eða satt best að segja
veit ég ekkert hvað er í gangi, það er
sumar... en allt í góðu.
Hvað erfiðleikana varðar held ég
að við séum að vaxa dálítið burt frá
hvert öðru. Þetta byrjaði sem ung-
lingaband, við vorum bara 17 ára
þegar við byrjuðum og höfðum ekki
hugmynd um hvað við ætluðum að
gera. Svo allt í einu vindur þetta upp
á sig og þú ert kominn með fullt af
fólki sem vinnur fyrir þig og þarft að
fara að taka hlutina alvarlega. Við
vorum kannski ekki tilbúin að taka
hlutina alvarlega þegar við vorum
bara unglingar en nú þarf maður að
fara að taka almennilegar ákvarð-
anir. Það var dálítið erfitt í þessu
ferli. Að vaxa í sundur hefur þó líka
jákvæð áhrif, fólk kemur inn með
nýjar hugmyndir, við erum ekki eins
hænd hvert að öðru inni í stúdíói,
getum unnið meira sjálfstætt og er-
um sterkari lagasmiðir hvert og eitt
fyrir vikið,“ segir Áslaug, en þau
Doddi voru 17 ára og Jófríður 16 ára
þegar þau stofnuðu hljómsveitina.
Samin um sumar
-Það er kannski einhver vitleysa í
mér en er ekki léttara yfir tónlist-
inni á þessari plötu en þeirri sein-
ustu?
„Jú, kannski. Síðasta plata var dá-
lítið drungaleg, svolítið dökk. Mig
minnir að hún hafi verið samin að
mestu að vetri til. Stór hluti nýju
plötunnar er saminn síðasta sumar
og þá sérstaklega að nóttu til og á
hún þess vegna til að vera aðeins
léttari og víraðri en hinar. Einnig
urðum við fyrir miklum áhrifum frá
því hvernig við spiluðum á tón-
leikum. Þegar maður er búinn að
túra plötuna í að verða ár, fara út
um allt og kann lögin út og inn fer
maður að breyta þeim og við fórum
að koma hvert öðru á óvart. Ég held
að það hafi verið að gerast á svip-
uðum tíma og við vorum að byrja í
stúdíói með nýju plötuna. Við fórum
að gera það sem okkur finnst
skemmtilegra, að spila „live“ og
þannig vinnum við líka, prófum lög
og sjáum hvernig tónleikagestir
bregðast við þeim. Við tökum upp
tónleikana og förum svo í stúdíó aft-
ur,“ svarar Áslaug.
Lög Samaris hafa fram að þessu
verið sungin á íslensku og þá eink-
um við ljóð þekktra skálda en á plöt-
unni nýju eru textarnir á ensku. Ás-
laug segir Jófríði hafa samið texta á
ensku og íslensku til margra ára og
þau hafi ákveðið að slá til, prófa að
hafa lögin á ensku. „Það var líka
miklu auðveldara að semja á ensku
en að fara allt í einu að semja á ís-
lensku þegar við vorum búin að vera
með svona ótrúlega fallega íslenska
texta. Ég held að ekkert okkar hafi
þau tök á tungumálinu að geta keppt
við þessi gömlu ljóðskáld. Og þetta
bara kom hjá Jófríði og allt í einu
var platan öll á ensku,“ segir Áslaug
kímin.
„Já, já, thank you very much!“
-Nú er rosa kúl í tónlistarbrans-
anum að vera frá Íslandi. Finnið þið
fyrir því á ykkar ferðalögum?
„Já, það er allt annað að vera ís-
lenskt band en t.d. band frá Austur-
Evrópu. Það vekur strax meiri at-
hygli að vera með þennan Íslands-
stimpil, þökk sé Björk og Sigur Rós
fyrir að koma okkur á kortið fyrir
löngu. En það er líka pirrandi, fólk
kemur með fyrirframgefnar hug-
myndir á tónleika, vill fá ákveðið
sánd og fer að lýsa því þegar það
kom til Íslands og sá einhvern jökul
og þá er það alveg málið þegar það
heyrir tónlistina. Svo eru íslenskar
söngkonur settar mikið í sama pott,
Katrína Mogensen, Jófríður o.fl. og
líkt við Björk en á endanum segir
maður bara „já, já, thank you very
much!“,“ segir Áslaug að lokum og
hlær.
Erfiðleikar, ást og örlög ... og þó!
Tríó Samaris skipa Þórður Kári Steinþórsson, kallaður Doddi, Áslaug Rún Magnúsdóttir og Jófríður Ákadóttir.
Samaris fylgir eftir þriðju plötunni í fullri lengd, Black Lights Sú fyrsta með enskum textum
Evrópuferð lýkur með tónleikum á Húrra í kvöld Léttari og víraðri plata en sú síðasta