Dagblaðið Vísir - DV - 27.11.2015, Side 86
Helgarblað 27.–30. nóvember 201570 Menning
Brauð og hungurleikar
Nanna Hlín Halldórsdóttir veltir fyrir sér valdi og andófi í Hunger Games-seríunni
Í
síðustu viku var frumsýnd fjórða
og síðasta myndin í kvikmynda-
seríunni um Hungurleikana.
Myndirnar hafa slegið hvert
metið á fætur öðru í kvikmynda-
húsum heimsins undanfarin ár og
gert Jennifer Lawrence að einni
allra stærstu stjörnu Hollywood.
Þótt sagan virðist í upphafi vera
einföld dæmisaga góðs og ills er
margt undir yfirborðinu og út frá
myndinni hafa sprottið margar
áhugaverðar vangaveltur um
byltingar og andóf í samfélagi hins
stafræna sjónarspils.
DV ræddi við Nönnu Hlín
Halldórsdóttur, doktorsnema í
heimspeki, sem hefur velt fyrir
sér sambandi valds og andófs í
Hungurleikunum.
Byltingar ekki svarthvítar
Myndirnar um Hungurleikana eru
byggðar á samnefndum ævintýra-
bókum bandaríska rithöfundarins
Suzanne Collins. Þær gerast í sam-
bandsríkinu Panem í dystópískum
framtíðarheimi þar sem auðug for-
réttindastétt – með forsetann Snow
fremstan í flokki – lifir í vellystingum
á meðan stærstur fjöldi fólks lifir við
fátækt og þrældóm.
Árlega keppa ungmenni úr
hverju sambandsríkjanna upp á
líf og dauða í hinum svokölluðu
Hungurleikum – ógnvekjandi raun-
veruleikasjónvarpsskemmtun. Þegar
aðalpersónan Katniss Everdeen þarf
að etja kappi í leikunum gerir hún
sér grein fyrir kúguninni og beinir
athygli sjónvarpsvélanna að mis-
réttinu. Upp hefst andóf og uppreisn
sem leiðir til blóðugs byltingarstríðs.
„Frásögnin í bókunum er gríp-
andi en fær mann jafnframt til að
hugsa. Það kom mér sjálfri á óvart
hvað Hungurleikarnir ná að sýna
hvað andóf, vald og byltingar eru
marghliða og alls ekki svarthvít fyrir-
bæri,“ segir Nanna.
Brauð og hungurleikar
Hvernig birtist valdbeitingin í þess-
um dystópíska framtíðarheimi?
„Nafn framtíðarríkisins Panem
vísar í latneska frasann „panem
et circenses“ sem þýðir „brauð
og leikar“. Það mætti segja að það
hafi verið stjórnlist eða „valdastra-
tegía“ Sesars, rómverska keisarans,
til að halda fólki góðu með því einu
að tryggja þeim mat og skemmt-
un. Í máltækinu vísa „leikarnir til
þess þegar skylmingaþrælar voru
látnir berjast upp á líf og dauða í
hringleikahúsum. Á sama hátt er
íbúum Panem haldið „góðum,“
en fyrst og fremst hræddum með
Hungurleikunum,“ segir Nanna.
„Íbúar Panem búa við yfirráð
höfuðborgarinnar Kapítol sem hef-
ur nær algjört vald yfir hinum tólf
umdæmum. Fólkið í umdæmun-
um hefur nánast aldrei tækifæri á
að beita nokkurs konar valdi. En
Snow forseti veit að það er tilgangs-
laust fyrir fólk að lifa við algert
valdaleysi og örbirgð. Fólk verð-
ur að hafa einhverja von til þess
að halda áfram. Hann veit hins
vegar að vonina má nýta til þess
að snúa fólki gegn hvað öðru frem-
ur en gegn yfirvaldinu. Þannig nýt-
ast hungurleikarnir valdhafanum.
Í stað þess að minna fólkið á hver
ræður með því að drepa eitt stúlku-
barn og eitt drengbarn úr hverju
umdæmi, leyfir yfirvaldið voninni
að lifa. Fólk fær að halda í þá von að
barn úr þeirra umdæmi geti lifað af,
unnið ríkidæmi og orðið stolt um-
dæmisins,“ segir hún.
„Það þarf alltaf að vera að
minnsta kosti fræðilegur möguleiki
á andófi gegn valdi, annars er ekki
um valdatengsl að ræða heldur að-
eins skipun og hlýðni. Vonin snýst
um breytingar, um andóf, um kraft
sem getur leyst úr læðingi annað
og betra líf. En vonin má ekki vera
of mikil. Eins og Snow hugsar það
þarf fólkið að gera sér grein fyrir að
samfélagið muni ekki breytast, svo
það fari ekki að veðja á uppreisn.
Þarna koma Katniss og félagar inn í
hálfgerðan „valdastrategíuslag“ við
Snow.“
Leiksoppur uppreisnarinnar
Hvað með Katniss, hvernig fer henn-
ar andóf fram og hvernig breytist
það eftir að það breytist úr sjálf-
sprottinni andspyrnu yfir í skipu-
lega byltingarstyrjöld?
„Það sést strax í byrjun þríleiks-
ins að Katniss er ekki einhliða,
klisjukennd kvenpersóna held-
ur manneskja af holdi og blóði.
En það er einmitt í þriðja hlutan-
um sem dýpt hennar sem persónu
kemur í ljós. Við erum stödd í þeirri
uppreisn sem Katniss og öll um-
dæmin hafa þráð, en þá er ekki
lengur augljóst hvernig maður ger-
ir „það rétta“. Í gegnum hungurleika
annarrar og þriðju bókarinnar hef-
ur Katniss beitt sínu eigin hyggju-
viti til þess að lifa af og séð við
ráðabruggi Snow en engu að síð-
ur uppgötvar hún smám saman
að hún er líka leikskoppur annarra
afla. Það er ekki aðeins Snow sem
er að plotta og hún á það á hættu
að verða einungis að valdatæki í
höndum andstöðunnar, sett fram
og sýnd sem leiðtogi og andófs-
hetja byltingarinnar í sjónvarps-
tækjum Panem-manna. Við sjáum
hins vegar í þessari síðustu mynd
að Katniss heldur trú við andófið
sjálft frekar en ákveðinn uppreisn-
arher, hún knýr fram „nei“ þar sem
við gerðum okkur ekki grein fyrir
því að valdi væri beitt. Á sama tíma
getum við aldrei verið viss um hvar
andófið byrjar og öðrum erfiðum
mannlegum tilfinningum á borð
við hefnd lýkur. Í þessum atriðum
finnst mér Collins ná að fanga það
margbreytilega við mannlífið í frá-
sögninni,“ segir Nanna.
Sjarmerandi byltingarhetjur
Er hægt að sjá einhverjar hliðstæð-
ur milli þessara vísindaskáldsagna
og nokkurs sem er að gerast í hinum
pólitíska veruleika dagsins í dag?
„Já, það getur verið áhugavert
að skoða Hungurleikana út frá and-
ófspólitík samtímans sem er mest
beint gegn niðurskurði velferðar-
ríkisins. Afþreyingarmiðlar gegna
mikilvægu hlutverki í Panem við
að móta viðhorfs fólks. Það sama
er eflaust upp á teningnum í dag
og má til dæmis sjá nýjar sjarmer-
andi „andófshetjur“ leiða byltingar-
kennda flokka í Evrópu. Eitt skýrasta
dæmið um það er leiðtogi spænska
flokksins Podemos, Pablo Iglesias.
Spurningin sem Hungurleikarnir
spyrja er, þótt sjarmerandi leið-
togar og andófshetjur geti vissulega
fært fjöll og jafnvel hrundið af stað
byltingu en nægir það? Ég er ekkert
svo viss um að Katniss myndi vilja
vera Pablo Iglesias dagsins í dag, ég
held einmitt að hún geri sér grein
fyrir því að byltingarsprotarnir þurfi
að vera margir og margt fólk þurfi til
þess að hlú að hverjum þeirra svo
megi vaxa falleg blóm og tré. Eins
mætti segja að það þurfi að sá marg-
víslegum fræjum nýrrar samfélags-
skipanar strax í dag og kannski líka
koma auga á þær sem hefur þegar
verið sáð,“ segir Nanna. n
Kristján Guðjónsson
kristjan@dv.is
„Katniss á það á
hættu að verða
einungis að valdatæki í
höndum andstöðunnar,
sett fram og sýnd sem
leiðtogi og andófs hetja
byltingarinnar í sjónvarps-
tækjum Panem-manna.
Nanna Hlín Doktorsnemi í heimspeki,
greinir vald og andóf í sögunni um
Hungurleikana.
Harðstjórinn Forsetinn Snow gerir sér grein fyrir að kúgaðir undirsátar hans verði að hafa
einhverja von um betra líf til þess að þeir haldi áfram að lifa.
Byltingarhetjan Óviljandi verður
Katniss Everdeen að valdatæki í höndum
uppreisnar aflanna í Panem.
Skartgripur með táknræna merkingu, seldur til
styrktar blindum og sjónskertum á Íslandi.
Íslenskt handverk. Fæst um land allt.
Þríkrossinn
Stuðningur til sjálfstæðis