Gripla - 20.12.2016, Blaðsíða 128
GRIPLA128
í tuttugu bókum eftir spænska Vestgotann Isidorus af Sevilla (um 560–
636), en einnig má nefna mörg verk, bæði smá og stór, eftir hinn engil-
saxneska Beda prest hinn fróða (um 672–735), sem sat í Jarrow-klaustri
á Englandi.4 Á Karlungatímanum sömdu fræðimenn á borð við hinn
frankverska Hrabanus Maurus (um 780–856) alfræðirit, sem þeir tíndu
saman úr fornum og nýjum bókum, eins og heitið De universo í tuttugu og
tveimur bókum ber með sér.5 Markmiðið hjá öllum þessum latínulærðu
kristnu fræðimönnum af ættum óþjóðanna sem lagt höfðu Rómaveldi
í rúst var að skrá og varðveita frá gleymsku þekkingu fornaldarinnar á
heiminum, svo og að halda til haga aðferðunum við að uppgötva hana, en
einnig ljósum og leyndum þráðum í tilurð og sögu heilagrar Guðs kristni.
Þetta söfnunarátak hélst fram á 12. öld þegar rit á borð við Imago mundi
eftir Honorius augustodunensis (um 1120) og Liber floridus eftir Lambert
af Saint-Omer komu fram, hvort tveggja verk af alfræðilegum toga þótt
ólík væru.6 Oft er reyndar talað um 13. öldina sem öld alfræðiritanna en
um miðbik hennar setti Vincent af Beauvais saman stærsta alfræðirit
þess tímabils sem nú er kallað „hinar löngu miðaldir“ eða fram til þess að
frönsku alfræðibókarhöfundarnir komu fram á upplýsingartímanum.7
Eins og áður var nefnt er heitið „alfræðirit“ uppfinning fræðimanna frá
19. öld sem fengust við að greina þessa texta og gefa þá út. Miðaldamenn
notuðu önnur hugtök yfir þessi rit og þau fela í sér hugmyndina um mynd
(imago) eða spegil (speculum). Miðaldaritin má greina sundur eftir upp-
4 Isidori Hispalensis episcopi Etymologiarvm sive Originvm libri XX, útg. W. M. Lindsay (ox-
ford: Clarendon, 1985, 1. útg. 1911); sbr. The Etymologies of Isidore of Seville, e. þýð. Stephen
a. Barney (Cambridge: Cambridge university Press, 2006); Beda Venerabilis, Opera
didascalica, útg. C.W. Jones, C.B. Kendall, M.H. King, f. Lipp (turnhout: Brepols,
2003).
5 Hrabanus Maurus, De universo, Patrologia Latina 111 (París, 1852); einnig nefnt De rerum
naturis.
6 V. I. flint, „Honorius augustodunensis. Imago mundi,“ Archives d’histoire doctrinale et
littéraire du Moyen Âge XLIX (1982): 48–153; Lamberti S. Audomari canonici Liber floridus,
útg. albert Derolez (Gand: Story-Scientia, 1968).
7 Vincentius Bellovacensis, Speculum quadruplex sive Speculum maius (Graz: akademische
Druck- und Verlagsanstalt, 1964–1965). Speculum maius er settur saman úr þremur gríð-
arstórum bókum: Speculum doctrinale, Speculum naturale og Speculum historiale. Speculum
morale er síðari viðbót. Sjá einnig: Vincent of Beauvais and Alexander the Great: Studies on the
Speculum maius and its Translations into Medieval Vernaculars, útg. W.J. Aerts, E.R. Smits,
& J.B. Voorbij (Groningen: E. forsten, 1986).