Skagfirðingabók - 01.01.2015, Page 83
DULRÆNAR SAGNIR
83
hægt að ætlast til að menn trúi slíku. En
Siggi strompur átti eftir að minna á sig
oftar þennan vetur og verst fannst mér
hvað hrossin sem ég var með urðu oft
hrædd. Erlingur bróðir minn sagði mér
að hestur sem hann hafði með sér hefði
nötrað allur þegar hann var búinn að
setja hann inn í hús. Ég hafði þennan
sama hest líka en hætti með hann seinni
part vetrarins og fannst ekki hægt að
leggja það á hann. Í hans stað notaði ég
rauða hryssu sem ég átti en það var eins,
hún sleit sig oft upp og þaut fram að
dyrum og hafðist aldrei inn króna aftur
þann daginn, en svo gekk hún þæg inn
morguninn eftir.
Álfhóll
VORIÐ 1937 fluttu foreldrar mínir í
Viðvík. Einnig við hjónin og hófum þar
búskap. Ólafur Jónsson bóndi á Læk
var mörg sumur smali í Viðvík en hann
sagði mér að prófastsfrúin, Jóhanna
[Sophia Jónsdóttir (1855–1931, kona
Zóphoníasar Halldórssonar], hefði haft
þann sið þegar gott var veður á sumrin
að fara upp að Álfhól og sitja sunnan
undir hólnum. Synir hennar fóru oft
með henni þegar þeir voru litlir og voru
í leikjum eins og börnum er títt. Einn
dag höfðu þeir þann sið að velta steinum
niður hólinn. Um nóttina dreymir
Jóhönnu að til hennar kemur kona og
biður hana að sjá til þess að drengirnir séu
ekki að velta grjóti eða hamast á hólnum
því að þeir hafi brotið glugga fyrir sér í
gær. Frúin passaði að þetta endurtæki sig
ekki og varaði við að ekki væri verið með
óþarfa umgang á Álfhólnum.
Þegar séra Guðbrandur [Björnsson]
var í Viðvík gerðist það einhvern tíma
rétt fyrir 1930, en þá var óvenjumikill
snjór og var ein samfelld brekka ofan
af Álfhól og niður á tún. Þetta notuðu
krakkarnir og renndu sér á sleðum dag
eftir dag og voru með hávaða og læti. Þá
dreymir frúna [Önnu Sigurðardóttur]
að kona kemur til hennar og biður hana
að láta börnin hætta þessum leik, það sé
enginn friður fyrir þeim.
Frúin sagði drauminn og var minnst
á við börnin að hætta en þau héldu
uppteknum hætti. Þá dreymir frúna
aftur konuna sem leggur hart að henni
að börnin hætti. Börnunum var bent á
að illa gæti farið ef þau hættu ekki, en
eitt barnanna espaði hin börnin til að
halda áfram. Hrossin voru heima við bæ
einn daginn, og rauð hryssa, sem var í
eigu þessa barns, var á bæjarhólnum rétt
framan við skemmudyrnar, dettur allt í
einu og kemur svo furðulega niður að
snoppan lendir undir henni og ennið
Álfhóll 20. október 2009. Fjöll Kolbeinsdals
í baksýn. Innsti hluti hnjúkanna til vinstri
en Heljarfjall til hægri. Skarðið milli þeirra
er Heljardalur. Nær í baksviði er Ásinn en
bungan á honum lengst til vinstri heitir
Syðri-Fálkahæð.
Ljósm.: Hjalti Pálsson