Skagfirðingabók - 01.01.2015, Blaðsíða 112
SKAGFIRÐINGABÓK
112
stúdentsprófi fimm árum síðar eða 1777
með heldur góðum vitnisburði. Séra Jón
hefur trúlega stefnt að því að Þorsteinn
tæki vígslu og gerðist prestur, en af því
varð aldrei. Eftir stúdentspróf dvaldist
hann ekki mikið heima og var fyrst, að
sögn, lausamaður á Breið.
Þorsteinn kvæntist árið 1780 Margréti
Magnúsdóttur gullsmiðs í Gilhaga,
Björnssonar, og var síðan bóndi í
Gilhaga til 1818 og eftir það í Húsey til
æviloka 1827. Hann var alla tíð talinn
dugnaðarmaður og í miklum metum.
Eitthvað hefur verið þrýst á hann um
að gerast prestur, því árið 1785 tilkynnti
hann biskupi að hann gæti ekki vegna
veikinda talið sig með andlegrar stéttar
mönnum, hvað sem valdið hefur. Börn
Þorsteins og Margrétar voru: Magnús
bóndi á Álfgeirsvöllum, Halldóra fyrri
kona séra Jóns Jónssonar á Miklabæ,
Steinunn seinni kona séra Jóns
Konráðssonar á Mælifelli og Margrét
kona Björns Þorlákssonar í Fornhaga
í Hörgárdal. Eru fjölmennar ættir frá
Þorsteini stúdent.
Séra Oddur fær Guðrúnar
VORIÐ 1777 var sá viðburður í Goð-
dölum að utan grundirnar sást koma
allstór flokkur ríðandi manna og brátt
var þeyst í garð á prestssetrinu. Var þarna
kominn Hálfdan Einarsson skólameistari
á Hólum og tengdasonur Gísla biskups
Magnússonar, með fríðu föruneyti.
Skólameistari bar séra Jóni kveðju guðs
og biskupsins og þar með að biskup
bæði um hönd Guðrúnar dóttur hans,
til handa séra Oddi á Miklabæ, syni
sinum. Var málið auðsótt og trúlofun
þeirra brátt fastmælum bundin og síðar
um sumarið voru þau gefin saman með
viðhöfn í Hóladómkirkju. Fór Guðrún
þaðan með manni sínum að Miklabæ.
Séra Oddur hafði tekið við Miklabæ
1768. Var hann þá einhleypur og bjó
um árabil með ráðskonu er Solveig hét.
Fátt er um hana kunnugt, en talið var að
hún legði hug á prestinn. Staða hennar
á heimilinu breyttist eftir að Guðrún
kom og tók við búsforráðum, en áfram
var stúlka þessi á Miklabæ. Fljótlega eftir
þetta sótti á Solveigu fásinni og óttaðist
fólk að hún sækti í að stytta sér aldur,
svo að tekið var að hafa gætur á henni.
Um vorið 1780 slapp hún stutta stund
undan eftirliti, hljóp út úr bænum og
hafði skorið sig á háls til ólífis, áður en
að var komið. Hafði þessi hörmulegi
atburður mikil áhrif á fólk og þá ekki
síst á séra Odd sem gerðist einrænni
og þunglyndari en áður. En tíminn
leið, móðuharðindin gengu yfir með
öllum sínum hörmungum, hungri og
mannfelli. Ekki hefur andlegt heilsufar
séra Odds batnað við þau bágindi.
Fljótlega eftir að Solveig fyrirfór sér
þótti fólki sem hún gengi aftur og eru
til af því ófáar þjóðsögur. Margir þóttust
sjá svip hennar og var hún þá gjarna með
höfuðið kert aftur á bak og stóð blóðbogi
úr hálsinum. Ein af þessum þjóðsögum,
og þó raunar af meinlausara taginu,
snertir Vesturdal, því að Solveig var sögð
vistráðin í Litluhlíð vorið sem hún stytti
sér aldur. Eftir dauðann varð þess vart að
hún sótti mjög að komast þangað sem
hún hafði ráðið sig. Í Litluhlíð var gamall
maður, Bergþór að nafni, og bjó hann
í kofa einum skammt frá bænum. Karl
þessi kunni talsvert fyrir sér og varnaði
afturgöngunni að komast í bæinn í
Litluhlíð og fékk alltaf stöðvað hana á hól