Skagfirðingabók - 01.01.2015, Blaðsíða 115
AF GOÐDALAPRESTUM
115
Þverá í Blönduhlíð og bróðir séra Jóns
Steingrímssonar eldklerks. Þeir voru því
systrasynir Pálmi og Hjálmur barnsfaðir
Ragnhildar. Þar á Breið ól Ragnhildur
barn sitt sem var drengur og hlaut
nafnið Árni eftir fósturföður hennar
á Ábæ. Góðviljaðir aðilar reyndu að
tala á milli séra Jóns og dóttur hans og
miðla svo málum að hún og Hjálmur
mættu eigast. En presturinn var ekki
tilbúinn til að fyrirgefa dóttur sinni þessa
hrösun og á Hjálm á Giljum lagði hann
fullan fjandskap, svo að ekki var við
það komandi að þau gætu orðið hjón í
fyllingu tímans.
Eitthvað sefaðist reiði séra Jóns vegna
ávirðingar Ragnhildar, þegar frá leið,
enda tók hann þá mjög að eldast og
mæðast. Lítur helst út fyrir að hann hafi
tekið hana í sátt um síðir, því að árið
1794 gifti hann hana góðum manni,
Þorláki Gunnlaugssyni í Bakkakoti,
gildum bónda og hreppstjóra. Þau
Ragnhildur og Þorlákur eignuðust ekki
börn, en Þorlákur gekk Árna Hjálmssyni
í föðurstað og tók hann síðar við búi í
Bakkakoti. Af Hjálmi Steingrímssyni er
það að segja, að eftir allt þetta uppistand
í heimahögum fluttist hann burt og fór
austur yfir Héraðsvötn, þar sem hann var
frá 1798 bóndi á Vöglum í Blönduhlíð.
Var hann jafnan talinn dugandi maður
og í góðu áliti. Hann kvæntist ekki og
andaðist 1805, aðeins 46 ára að aldri.
Góður gestur í Goðdölum
SUMARIÐ 1792 heimsótti Sveinn Pálsson
frá Steinsstöðum, síðar læknir í Vík í
Mýrdal, föðurbróður sinn, Jón prest
í Goðdölum. Sveinn var þá þrítugur
að aldri og nýkominn heim með próf
í náttúruvísindum frá Hafnarháskóla.
Var hann hér í rannsóknarferð á vegum
danska náttúrufræðifélagsins og fór
víða um land. Séra Jón hefur glaðst yfir
heimsókn þessa lærða frænda síns og
trúlega hafa þeir skrafað margt saman.
Í Ferðabók Sveins Pálssonar sem Steindór
Steindórsson frá Hlöðum þýddi, stendur
eftirfarandi umsögn um séra Jón:
„Presturinn í Goðdölum sýndi mér,
hversu hann með sólskífu hafði leiðrétt
hinar svonefndu eyktir, eykta- eða
dagsmörk, eftir að hann hafði fundið rétta
suðurátt. Enn fremur sýndi hann mér
grásteinshellu um 3 álna langa og álnar
breiða, sem hann hafði gert af legstein yfir
sig og látna konu sína. Steinninn var að
vísu skrautlaus, en stafirnir eins vel gerðir
og eftir hinn besta steinhöggvara. Prestur
þessi er nú sjötugur að aldri. Hann
hefur verið starfsamur með afbrigðum,
en jafnframt því góður kennimaður og
frábær málfræðingur.“
Ævilok séra Jóns Sveinssonar
ÞAÐ ER ekki alveg rétt að séra Jón hafi verið
sjötugur, þegar Sveinn Pálsson heimsótti
hann. Það varð hann ekki fyrr en ári síðar.
Engu að síður var hann trúlega tekinn
að lýjast og margt hafði reynt á hann í
langri prestskapartíð. Móðuharðindin
gengu yfir frá 1783 og næstu ár voru
skelfingartímar með mannfelli um allt
land. Fór það neyðarástand ekki fram
hjá sóknarbörnum séra Jóns fremur en
öðrum. Árið 1785 var öll Ábæjarsókn í
Austurdal, samtals sjö bæir sem þjónað
var frá Goðdölum, fallin í eyði og margir
íbúanna ýmist uppflosnaðir eða dánir.
Í Svartárdal fóru í eyði bæirnir Fremri-
Svartárdalur, Ölduhryggur, Miðvellir og