Skagfirðingabók - 01.01.2015, Qupperneq 188
SKAGFIRÐINGABÓK
188
Endurfundir
MÉR HEFUR ávallt, frá því ég fyrst man
eftir mér, þótt vænt um allar skepnur, en
oftast tekið hestana fram yfir annað. Þess
vegna ætla ég að segja lítillega frá hesti,
sem mér þótti mjög vænt um þegar ég
var unglingur.
Í Skagafirði var siður víðast hvar,
þótt ekki sé hann góður, að láta flestöll
hross ganga úti, meðan þess var kostur.
Svo var með þennan hest, því þegar
hann var 6 vetra hafði hann aldrei
komið undir húsþak og ekkert fengið
hjá mannshöndinni nema moð og rekju
undir húsvegginn í verstu hríðunum. En
um vorið, þegar hann var 6 vetra, átti
að fara að temja hann. Stóðið var rekið
heim í rétt, en ekki tókst að leggja beisli
við hann, svo hann var rekinn inn í hús
með fleirum. Þá var hann beislaður. En
hvílík hræðsla, sem þá skein út úr fallegu
dökku augunum hans þar sem hann
stóð og skalf eftir átökin og hve hann
var fallegur, ljósgrár á skrokk, dökkt tagl
og fax og svo hnarrreistur, sem nokkur
hestur getur verið.
Um sumarið var hann lítið taminn.
Piltarnir sögðu að hann væri óþekkur og
alltaf var hann jafn styggur. Ég skipti mér
ekkert af honum nema strauk hann og
klappaði þegar hann var heima. En um
veturinn eftir fannst fóstra mínum óþarft
að taka hann með tömdu hestunum,
þótt hann væri með þeim, hélt að hann
gæti gengið með stóðinu eins og hann
hefði gjört. Auminginn stóð því undir
veggnum þegar búið var að láta hina
hestana inn, en þá fór ég að kenna í
brjósti um hann fyrir alvöru. Ég náði mér
í töðutuggu í svuntuna og fór með hana
til hans, en hann var svo hræddur að ég
komst ekki nálægt honum, svo ég skildi
töðuna eftir og rak hann þangað, en mér
sýndist hann líta þakklátlega til mín
þegar ég fór. Svona gekk þetta nokkur
kvöld, nema hann var farinn að éta úr
svuntu minni og koma á móti mér.
Svo gat ég loks fengið fóstra minn til
að lofa honum að vera inni með hinum
Sumarnótt í Skagafirði. Dalalæðan hylur Eylendið en Hegranesið byrgir sýn til hafsins.
Ljósm.: Hjalti Pálsson