Lystræninginn - 01.06.1982, Blaðsíða 8

Lystræninginn - 01.06.1982, Blaðsíða 8
tala um ólögmætan gróður og hlutdeild hennar í einhverju athæfi. Vitnaði hann í lög nr. 999 frá 2.2. 1888, hin frægu Kyndilmessulög, um bann við ræktun og meðhöndlun Torkennilegra Jurta, kvað Litiu gulu Hænuna ótvírætt seka og krafðist þyngstu refsingar. Litlu Gulu Hænunni rann kalt vatn milli fiðurs og hör- unds. Kötturinn reis á fætur, kvað skjólstæðing sinn þjóð- kunnan fyrir brautryðjendastarf í þágu glataðra fræja, ævinlega hefði hún verið boðin og búin að hlú að þessum vesalingum, þekktum sem óþekktum, það væri glapræði að láta eitt vafatilfelli, þar sem gersamlega væri ósannað að Litla Gula Hænan hefði haft glæpsamlegan tilgang í huga, verða til þess að réttvísin færi að binda endi á þetta göfuga starf. Litlu Gulu Hænunni hlýnaði. Refurinn reis á fætur og sagði að víst væri Litla Gula Hænan þjóðkunn, en það mætti ekki slá ryki í augu réttvís- innar. Reyndar hefði umhyggja hennar fyrir glötuðum fræjum ævinlega verið henni sjálfri til framdráttar og jafn- an hefði hún sýnt þann ófélagslega hugsunarhátt að neita að láta samfélagið njóta góðs af þessu starfi sínu, það sýndi best dæmið um hveitifræið, sem hvert mannsbarn þekkti frá því það byrjaði að kveða að. Litlu Gulu Hænunni svimaði. Hún sá Svínið rísa á fætur, heyrði eins og í fjarska að dómur var kveðinn upp: Litla Gula Hænan væri sek um skýlaus brot á umræddum Kyndilmessulögum nr. 999 frá 2.2. 1888, dómurinn hljóð- aði upp á sekt sem næmi 30 pokum af hænsnabyggi eða jafnmarga daga í fangelsi upp á vatn og kanarífuglafræ. Þegar rétti var slitið kom Kötturinn til Litlu Gulu Hæn- unnar og sagði að hún hefði verið heppin að sleppa með svona léttvæga refsingu, það mætti hún þakka sér og þeirri snilldarvörn sem hann hefði flutt í tnálinu. Litlu Gulu Hænunni þótti vörnin alls ekki snjöll og þaðan af síður þakkarverð en ákvað þó að láta á engu bera. Og það gerði hún. Kötturinn impraði nú á sektinni, kvaðst vita að Litla Gula Hænan ætti ekki handbæra 30 poka af hænsnabyggi en ugglaust fengi hún þá Iánaða í bönkum staðarins, hún skyldi bara fara strax daginn eftir og ganga frá málinu. Þrátt fyrir sívaxandi vantrú Litlu Gulu Hænunnar á ráðsnilld Kattarins sá hún ekki önnur ráð betri en þau sem hann gaf henni, best myndi vera að hlíta þeim. Og það gerði hún. Bankastjórar staðarins tóku Litlu Gulu Hænunni allir með sömu ljúfmennskunni, en, því miður, hænsnabyggi hefðu þeir ekki ráð á, allra síst í svona miklum mæli, banka- bygg væri þeim jú útbært, en það var víst ekki akkúrat það sem Litla Gula Hænan þyrfti á að halda. Því miður, en komdu aftur ef þú heldur að við getum eitthvað aðstoð- að . . . Það var bersýnilegt að henni ætlaði ekki að auðnast að afla sektarfjárins fyrir gjalddaga, hún yrði víst að sitja af sér sektina. Og það gerði hún. Litlu Gulu Hænunni leiddist í fangelsinu. Hún horaðist, kamburinn krumpaðist og fiðrið missti gljáann. Hundur- inn bar henni skammtinn einu sinni á dag, annars sá hún engan. Að þrjátíu dögum liðnum gekk hún heim á leið döpur í sinni og svartsýn á tilveruna. Þá fann hún fræ. Af gömlum vana laut hún niður og ætlaði að taka það upp, en þá sá hún að hún þekkti það ekki. L.itla Gula Hænan hugsaði með sér að hér væri sagan öll, framvegis skyldi hún láta aðra þiggja angur og mein fyrir glötuð fræ. Og það gerði hún. 8

x

Lystræninginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lystræninginn
https://timarit.is/publication/1228

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.