Hjúkrun: tímarit Hjúkrunarfélags Íslands - 01.03.1992, Blaðsíða 30

Hjúkrun: tímarit Hjúkrunarfélags Íslands - 01.03.1992, Blaðsíða 30
Minningar um merkar konur í hjúkrunarstétt helgaðar Bjarneyju Samúelsdóttur hjúkrunarkonu Bjarney Samúelsdóttir var sjötta eða sjöunda*) ís- lenska hjúkrunarkonan sem tók próf í hjúkrunarfrœði. Hún lést í hárri elli á Þorláks- messu umliðinni, kvaddi gamla árið með reisn og hafði þá sjálf lifað í nœstum 99 ár, f 11. febrúar 1893, d. 23. des- ember 1991. Það er svo fljótt að fenna í sporin. Tíminn lætur aldrei á sér standa og áður en varir hefur svo margt breyst að raunveruleikinn verður næsta ótrúlegur eins og hann var áður en mjöll gleymskunnar tók að falla í fyrstu sporin sem gengin voru til gæfu í baráttu við að bæta heilsu heillar þjóðar. Því þykir mér vænt um að fá að rifja upp minningar tengdar Bjarneyju Samúelsdóttur hjúkrunarkonu sem var meðal brautryðjenda í hjúkrunarstétt á ís- landi og hvernig hún og aðrar ævi- vinkonur mínar í þeirri merku heil- brigðisstétt komu mér fyrir sjónir þegar þær voru af mikilli einurð og hugsjón að ryðja braut þeirri heilsu- vernd sem okkur finnst öllum nú vera svo sjálfsögð þjónusta. Af sömu einurð lögðu þær grundvöll að stétt- arfélagi sínu, Hjúkrunarfélagi íslands. Bernskuminningar mínar eru mjög samfléttaðar störfum þessara *) Bjarney lauk prófi haustið 1919 í Kaupmannahöfn, en það sama haust lauk einnig Ólafía Jónsdóttir prófi í Osló. Áður höfðu lokið hjúkrunarprófi: Þóra Einarsdóttir 1903, Steinunn Ólafsdóttir Jónsson 1903, Oddný Guðmundsdóttir 1914, Kristín Thoroddsen 1918 og Aldís Helgadóttir 1918. t kvenna. Ég heyrði snemma frá því sagt hvaða viðfangsefni biðu þeirra sem komu heim frá hjúkrunarnámi í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og upp úr 1920. Starfsvettvangur þeirra flestra var fyrst um sinn heima- hjúkrun í Reykjavík á vegum Hjúkr- unarfélagsins Líknar, sem stofnað var 1915 og hafði það að markmiði að efla heilsuvernd í höfuðstaðnum og veita efnalitlum bæjarbúum ókeypis hjúkrun. Umdæmi þessara hjúkrunarkvenna var býsna víð- feðmt, því enda þótt bæjarkjarninn væri ekki stór teygði byggðin sig inn í Sogamýri og vestur á Grímstaðaholt og þar bjó fólkið sem ekki síst þurfti á hjálp þeirra að halda. Þær fóru allra sinna ferða á reiðhjólum eftir hrjúfum malargötum í bænum eða vegleysum út fyrir bæinn. Bjarney hélt áfram að hjóla á sínum gamla fararskjóta á nútímagötum Reykja- víkur allt fram undir 1980 og yljaði öllum gömlum vinum um hjartarætur sem til hennar sáu. Bæjarhjúkrun Líknar var erfitt starf og krefjandi á löngum vöktum í öllum veðrum og oft varð auðvitað að fara gangandi. Iðulega var farið milli bæjarhluta mörgum sinnum á dag til að gefa lungnabólgusjúkl- ingum heita bakstra. Ungbarnavernd Líknar og berkla- varnarstöð eignuðust síðan fastan samastað og urðu á endanum að Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, þegar hugsjónirnar rættust sem svo mikið hafði verið barist fyrir. Bjarney vann við ungbarnavernd- ina, síðan á berklavarnastöðinni og naut þess að fá að fylgja henni á Heilsuverndarstöðina. Mikilvægt framlag hennar til félagsmálanna, ásamt öðrum hjúkrunarkonum sem allir bæjarbúar þekktu með nafni fyrir ötulleika, var svo unnið í frí- stundum. Og þannig þekkti ég þessar stórmerkilegu konur best. Aðall þeirra var að þær voru svo skemmtilegar. Einhvern veginn ætíð með spaugsyrði á vör áður en sest var niður til að ræða alvarleg málefni og koma sér saman um skynsamlegar leiðir. Seinna lærði ég að þetta er drýgsta aðferðin til að komast að lýð- ræðislegum niðurstöðum. Þeim var það eðlislægt þessum konum sem voru brautryðjendur heilbrigðismála á íslandi. í bernsku- og æsku- minningum mínum standa þær ætíð sem hópur kvenna, sem hvergi drógu af sér við að vinna hugðarefnum sínum brautargengi. Auðvitað áttu þær mikla samvinnu við karla sem sátu við stjórnvöl í landinu, en þær áttu oftar en ella frumkvæði að ýmsum framförum og létu aldrei deigan síga við að þoka málum áleið- is. Þær voru gagnmenntaðar, ekki 26 HJÚKRUN '/92 - 68. árgangur

x

Hjúkrun: tímarit Hjúkrunarfélags Íslands

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hjúkrun: tímarit Hjúkrunarfélags Íslands
https://timarit.is/publication/1250

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.