Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.03.2006, Side 43
RITRYND GREIN
telja einkenna góða og/eða óvíðunandi þjónustu. í öðru lagi að
leggja nokkuð af mörkum til þróunar fræðilegrar þekkingar á
hugtakinu sjúklingaánægja í geðhjúkrun barna og unglinga.
Fræðileg umfjöllun
Gæði heilbrigðisþjónustu eru oftast metin út frá þremur
meginþáttum: uppbyggingu (structure) þjónustunnar, þeirri
þjónustu sem veitt er (process) og útkomu eða árangri
(outcome) þjónustunnar (Barak o.fl., 2001). Hægt er að meta
árangur þjónustunnar eftir mörgum leiðum og ein þeirra er
að meta ánægju þeirra sem þiggja hana. Á undanförnum
árum hefur þessi leið notið vaxandi vinsælda (Barak o.fl.,
2001), ekki síst vegna aukinna áhrifa notendasjónarmiða í
heilbrigðisþjónustu og hefur hugtakið sjúklingaánægja, patient
satisfaction) öðlast þar viðurkenndan sess sem mikilvægur
gæðavísir. Þrátt fyrir að skilgreining hugtaksins sé enn mjög
á reiki hafa sum þeirra mælitækja, sem þróuð hafa verið til
að mæla hugtakið, sannað gildi sitt því þau hafa reynst næm
á breytingar á hjúkrunarþjónustu (Merkouris o.fl., 1999). Enn
sem komið er hafa mælitæki til að mæla sjúklingaánægju í geð-
heilbrigðisþjónustunni ekki náð almennri útbreiðslu þrátt fyrir
að nokkrar rannsóknir sýni að sjúklingaánægja sé réttmætur
mælikvarði á gæði geðheilbrigðisþjónustu (Kolb o.fl., 2000;
Shipley o.fl., 2000).
Geðræn veikindi eru ekki jafnáþreifanleg og líkamleg veikindi
og því getur verið erfiðara en ella að mæla árangur þeirrar
meðferðar sem veitt er. Barak og samstarfsmenn (2001) hafa
bent á það að það er vandasamara að mæla sjúklingaánægju
meðal geðsjúklinga en annarra notenda heilbrigðisþjónustunnar
vegna þess hve tilfinningalega flókið og viðkvæmt samband
sjúklíngs og heilbrigðisstarfsfólks getur verið. Oft eru geð-
sjúkir lagðir inn gegn vilja sínum og þeir geta verið haldnir
ofsóknartilfinníngum og skort innsæi í ástand sitt (Barak o.fl.,
2001; Middelboe o.fl., 2001).
Ekki er langt síðan geðsjúklingar voru ekki taldir færir um að
leggja vitrænt mat á umhverfi sitt og framkomu annarra í sinn
garð (Noble o.fl., 2001; Wallace o.fl., 1999). Þessi skoðun
er nú mjög á undanhaldi og rannsóknum á viðhorfum og
reynsiu geðsjúklinga og fjölskyldna þeirra hefur fjölgað (Barker
o.fl., 1996; Lelliott o.fl., 2001; Wallace o.fl., 1999). í þessum
rannsóknum hafa þátttakendurnir tilgreint svipaða þætti sem
þeir telja einkenna góða þjónustu. Helstu atriðin snerta viðmót
og framkomu starfsfólks, fagleg vinnubrögð, traust og skilning
í samskiptum, aðbúnað og að starfsfólk gefi sjúklingnum eða
aðstandanda hans nægan tíma og taki tillit til sjónarmiða
hans. Einnig benda þessar rannsóknir til þess að nauðsynlegt
sé að spyrja sérstaklega út í einstaka þætti þjónustunnar þar
sem notendurnir geta verið mjög ánægðir með einn þátt en
óánægðir með annan. Rannsóknir benda einnig til að umhverfi
og aðbúnaður geðsjúklinga hafi mikil áhrif á sjúklingaánægju
þeirra og bata. Ónóg lýsing, skortur á hreinlæti og Iftið
persónulegt næði draga verulega úr sjúklingaánægju (Wallace
o.fl., 1999).
Síðustu áratugina hefur orðið vakning í þá átt að taka tillit til
þarfa foreldra þegar börn og unglingar leggjast inn á sjúkrahús.
Þessi vakning hefur einnig náð til barna sem leggjast inn á
geðdeild og lögð hefur verið áhersla á að fá fjölskyldur unglinga,
sem eiga við geðræn vandamál að stríða, inn í meðferðina til
þess að fækka endurinnlögnum (Valgerður Baldursdóttir og
Tómas Helgason, 1994). Einnig er lögð áhersla á að vinna
með allri fjölskyldunni strax frá upphafi til þess að tryggja sem
bestan árangur meðferðarinnar. Rannsóknir hafa sýnt nokkrar
grunnþarfír foreldra barna sem leggjast inn á sjúkrahús, m.a.
þörf fyrir upplýsingar, trúnað og samhæfða þjónustu (Guðrún
Kristjánsdóttir og Helga Bragadóttir, 2001). Áður fyrr var litið
á fjölskyldur barna, sem áttu við geðræn vandamál að stríða,
sem hluta af vandamálinu en ekki hluta af lausninni (Stuart
og Laraia, 2001). Orsakir geðsjúkdóma meðal barna voru oft
raktar til foreldra og því talið mikilvægt að rjúfa tengsl foreldra
og barna í stað þess að styrkja þau. Jafnframt var lítill áhugi
sýndur á árangri meðferðarinnar. Þetta breyttist mikið um 1990
þegar birtar voru rannsóknir er bentu á mikilvægi þess að taka
tillit til þarfa fjölskyldna geðsjúkra (Jellinek, 1999).
Rannsóknir á þjónustuþörfum foreldra barna, sem leggjast inn á
sjúkrahús, hafa einkum beinst að foreldrum barna með líkamlega
sjúkdóma, en búast má við að foreldrar geðsjúkra barna hafi
sérstakar þarfir sem nauðsyn sé að kanna til að hægt sé að koma
til móts við þær. Þegar þjónusta við foreldra barna og unglinga,
sem eiga við geðræn vandamál að stn'ða, er skipulögð verður að
hafa í huga að mörg þeirra koma úr fjölskyldum sem glíma við
ýmsa erfiðleika. í rannsókn, sem gerð var meðal hundrað fyrstu
unglinganna sem lögðust inn á unglingageðdeild Landspítala-
háskólasjúkrahúss (LSH), kom í Ijós að 30% unglinganna áttu
foreldra í vímuefnavanda og svipaður fjöldi átti foreldra með
geðrænar truflanir (Valgerður Baldursdóttir og Tómas Helgason,
1994). Fleiri rannsóknir hafa gefið svipaðar niðurstöður en hafa
ber í huga að oft er um flókið orsakasamhengi að ræða. Því
verður geðheilbrigðisþjónusta að miða að sérhæfðum þörfum
fjölskyldnanna hverju sinni (Tsang o.fl., 2003).
Framkvæmd
Aðferðafræði
Aðferðafræði rannsóknarinnar er túlkunarfræðileg fyrirbæra-
fræði (hermeneutical phenomenology) í anda Max van
Manen (1990). Þessi aðferðafræði byggist á þekkingarfræði
heimspekinganna Edmunds Husserls (1859-1938) og Martins
Heideggers (1889-1976) sem líta á manninn sem sjálftúlkandi
veru (self interpreting being) en í því felst meðal annars að
fyrirbærin, sem verka á einstaklinginn, verða ekki skilin frá
skilningi og túlkun einstaklingsins. Reynsla foreldra af því að
eiga barn á geðsjúkrahúsi - fyrirbærið sem hér er verið að
rannsaka - verður eingöngu skilið út frá skilningi og túlkun
foreldranna sjálfra á þeirri reynslu. í samræmi við þennan
þekkingarfræðilega skilníng var rannsóknargagna aflað með
opnum viðtölum við foreldrana þar sem þeir voru beðnir um að
lýsa reynslu sinni.
Tímarit hjúkrunarfræðinga - 1. tbl. 82. árg. 2006
41