Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.03.2006, Page 46

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.03.2006, Page 46
Greiningarfæribandið - takmörkuð þjónusta Þetta stef lýsir því hvernig stofnunin getur greint vandamál og meðhöndlað í einhverjum mæli en er ekki fær um að fylgja greiningarvinnunni eftir með því að sinna hinum fjölbreyttu þjónustuþörfum skjólstæðinganna. Þetta stef kom fram hjá öllum þáttakendum nema einum og orðið greiningarfæriband erfengið frá einum þeirra: „Þetta er bara afgreiðslustofnun. Þetta er færiband. Þetta er greiningarfæriband. Það eru engir resúrsar til að gera neitt við fólk.“ Þetta stef birtist líka í því að vandamálinu er gefið framandi heiti sem er síst til þess fallið að auka skilning foreldranna á því. Þessu er vel lýst af móður barns á barnadeild: „þegar hann útskrifaðist, þá var sagt, já hann er með mótstöðuþrjóskuröskun, þú veist, maður vildi ekki láta vita að maður vissi ekki hreinlega hvað þetta var...maður fer heim og á Netið en þar er ekkert að finna...maður fékk aldrei neina þjálfun í því hvernig maður á að meðhöndla þessa mótstöðuþrjóskuröskun." í hnotskurn má segja að þetta stef endurspegli þann veruleika að starfsemi barna- og unglingageðdeildar miðast fyrst og fremst við skilgreint verksvið stofnunarinnar en hefur ekki sveigjanleika til að sinna þörfum einstakra sjúklinga og fjölskyldna þeirra. Þátttakendur nefndu ýmis úrræði sem þeim þótti vanta til að sjúkrahúsdvölin bæri tilætlaðan árangur. Flestir foreldranna, eða níu, nefndu þörfina fyrir eftirfylgd. Faðir barns á unglingadeild lýsti þessu þannig: „...engin eftirfylgd... okkur var ekkert sagt að koma aftur...við sitjum bara uppi með þessa greiningu. Það vantaði að segja við okkur: Þú getur leitað til okkar ef eitthvað kemur upp á, ef hann versnar... Við höfðum það á tilfinningunni að þessi staður væri bara fyrir mjög veikt fólk, ekki fyrir okkur." Móðir barns á barnadeild hafði þessi orð: ..og þá kemur aftur að eftirfylgdinni, þó það sé búið að útskrifa þau þá eru þau samt veik...og það þarf lítið til að þau brotni aftur...það er bara almennt með þá sem eru veikir, sama hvort það er andlegt eða líkamlegt, já maður fer til læknis og lætur skoða örin eftir uppskurðinn." Átta þátttakendur sögðu að fjölskyldan hefði þurft aukinn stuðning og meðferð til að takast á við vandann enda hafi þessi reynsla áhrif á geðheilsu allra í fjölskyldunni. Það eru ekki síst systkini veika barnsins sem þurfa á hjálp að halda eins og kemur fram í orðum móður barns á unglingadeild. Ég held að það sé mjög algengt að fjölskyldan flosni upp í svona aðstæðum. Það er ekki gert ráð fyrir að aðrir í fjölskyldunni þurfi á hjálp að halda. Systkinin verða út undan. [NNj á systur sem líður enn fyrir það sem á undan er gengið þótt bróðir hennar sé í góðum bata. Næsta verkefni, sem ég sé fram á að næstu ár fari í, er að hjálpa henni. Það kom einnig fram hjá fjórum þátttakendum að þeim þótti ekki nægilegt tillit tekið til félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna forelda. Þetta kemur t.d. fram í orðum móður barns á barnadeild. „Svo finnst mér svolítið vanta upp á að skoðaðar séu aðstæður foreldra. Ég er t.d. ein og foreldrar mínir eru dánir. Þetta finnst mér að mætti skoða. Sumir eru með marga í kringum sig og fá stuðning af þeim.“ Hjá fjórum þátttakendum kom fram sú skoðun að of mikil áhersla hefði verið lögð á lyfjameðferð en of lítil á sálræna meðferð. Þessar niðurstöður undirstrika að til að sjúkrahúsdvöl á BUGL beri árangur verður stofnunin að geta boðið fjölbreytt meðferðarúrræði. BUGL er eina sjúkrastofnunin á íslandi fyrir börn og unglinga með geðræna sjúkdóma. Þar af leiðir að vandamálin, sem stofnunin fæst við, eru ákaflega fjölbreytt og til að leysa þau þarf margvísleg úrræði. Til að hægt sé að ná því markmiði þarf starfshópurinn, sem vinnur á BUGL, að búa yfir fjölbreyttri og víðtækri þekkingu á þeim meðferðarúrræðum sem rannsóknir hafa sýnt að borið geti árangur (sjá umræðu um gagnreyndar aðferðir (evidence based practice) í meðferð barna og unglinga hjá m.a. McClellan og Werry, 2003; Nock o.fl., 2004). Hér eiga geðhjúkrunarfræðingar mikið starf fyrir höndum því fáir þeirra hafa sérhæft sig í beitingu sérhæfðra meðferðarúræða fyrir börn og unglinga. Vonandi verður aukið framboð á framhaldsmenntun hjúkrunarfræðinga til þess að fleiri geðhjúkrunarfræðingar sæki sér slíka menntun. Lokaorð Ljóst er af niðurstöðum þessarar rannsóknar að þarfir foreldra, sem eiga börn með geðræn frávik, eru mjög mismunandi og reynsla foreldra af þjónustu BUGL er að sama skapi ólík. Fram kemur að foreldrar voru ánægðir með suma þætti í þjónustunni en óánægðir með aðra. Því gefa niðurstöður rannsóknarinnar gagnlegar vísbendingar um á hvaða sviðum BUGL gæti eflt og bætt þjónustu við fjölskyldur. Þegar þessar niðurstöður eru ígrundaðar er þó mikilvægt að hafa í huga að rannsóknin er afturvirk og nær til foreldra á árunum 1997 til 2000 og ýmsir þættir í þjónustu, s.s. fjölskyldumeðferð og eftirfylgd, hafa verið efldir á BUGL síðan rannsóknin var gerð (Linda Kristmundsdóttir og Vilborg Guðnadóttir, deildarstjórar á BUGL, munnleg heimild, 2005). í aukinni fjölskylduþjónustu felst meðal annars að nú er systkinum boðið upp á stuðningsmeðferð. Vel má því vera að við fengjum ekki sömu niðurstöður ef svipuð rannsókn yrði framkvæmd í dag. Þessar niðurstöður undirstrika hversu mikilvægt það er fyrir þjónustustofnun eins og BUGL að fylgjast stöðugt með því hvernig skjólstæðingar hennar meta þjónustuna. Því er það tillaga rannsakenda að lögð verði áhersla á að útbúa mælitæki sem unnt verði að nota til að meta sjúklingaánægju þeirra sem njóta þjónustu BUGL. Heimildaskrá: Barak, Y., Szor, H., Kimhi, R., Kam, E., Mester, R., og Elizur, A. (2001). Survey of patient satisfaction in adult psychiatrio outpatient clinios. European Psychiatry, 16, 131-133. Barker, D. A., Shergill, S. S., Higginson, I., og Orrell, M. W. (1996). Patients’ views towards care received from psychiatrics. British Journal of Psychiatry, 168, 641-646. Guðrún Kristjánsdóttir og Helga Bragadóttir (2001). Þarfir foreldra barna á sjúkrahúsum. Timarit hjúkrunarfræðinga, 2, 89-96. Henderson, C., Hales, H., og Ruggeri, M. (2003). Cross-cultural differences in the conceptualisation of patients' satisfaction with psychiatric services. Social Psychiatry and Psychiatry Epidemiology, 38, 142-148. Jellinek, M. S. (1999). Changes in the Practice of Child and Adolescent Psychiatry: Are Our Patients Better Served? Child & Adolescents Psychiatry, 38, 115-117. Kolb, S. J., Race, K. E., og Seibert, J. H. (2000). Psychometric evaluation of an inpatient psychiatric care consumer survey. Journai of Behavioral Health Service & Research, 27, 75-86. 44 Tímarit hjúkrunarfræðinga - 1. tbl. 82. árg. 2006

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.