Morgunblaðið - 30.06.2017, Page 80

Morgunblaðið - 30.06.2017, Page 80
80 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 30. JÚNÍ 2017 Það var fyrsta æfing á Harm- söng um fórnarlömb Hiroshima eftir Krzysztof Penderecki. Stjórnandinn kom inn, alvar- legur, fölur, en samt dökkur yfirlitum. Sprotinn á loft, ein- beitingin alger og við, kornungt norrænt tónlistarfólk, lékum fyrstu taktana í þessu magnaða verki. Strax fannst að stjórnand- inn var maður sem hafði full- komið vald á viðfangsefninu. Þetta voru fyrstu kynni mín af Paul Zukofsky, sumarið 1977. Ég var hálfsmeykur við Zuk- ofsky til að byrja með, þar sem ég sat með fiðl- una í hljómsveitinni og var óöruggur um hvern- ig ætti að leika tónlist Pendereckis, sem var algerlega ný fyrir mér. Í hléi flautaði ég eitt- hvert stef fyrir munni mér þar sem ég stóð í kaffiröðinni, var líklega svolítið létt, og þá heyrði ég í Paul fyrir aftan mig gera góðlátlega athugasemd við stefið. Mér hálfbrá, bar enn óttablandna virðingu fyrir manninum, en við tókum tal saman. Og „snillingurinn“ – Paul fannst þetta orð alltaf dálítið fyndið, en hann var snillingur, virtúós – reyndist hinn ljúfasti og sýndi mér, tvítugum íslenskum tónlistarnema, áhuga og vinsemd. Þannig hófst vinskapur okk- ar Pauls. Við kynntumst síðan betur næstu ár á Zukofsky-námskeiðunum í kammermúsík sem haldin voru í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Að loknu einleikaraprófi frá Tónlistarskól- anum í Reykjavík árið 1981 stóð ég á kross- götum: Kristín, konan mín, var komin í líf mitt og dóttir okkar Jóhanna nýlega fædd. Svo átti ég óloknum námskeiðum í stærðfræði til að ljúka grunnnámi í þeirri grein, grein sem togaði í mig, ekki síður en tónlistin. Ég tók mér eitt ár til að hugsa minn gang en fór jafnframt nokkrar ferðir til New York til að fara í tíma í fiðluleik hjá Paul. Hann var kröfuharður kennari en þolinmóður og hlýr. Aldrei var tekið nýtt skref nema því næsta á undan væri lokið. Paul lagði megináherslu á að ég næði að mynda hreinan og tæran tón, nokkuð sem hann hafði fullkomið vald á sjálfur. Eftir þetta ár ákvað ég að hefja framhalds- nám í stærðfræði í New York en sækja jafn- framt tíma í fiðluleik hjá Paul. Stærðfræðin fékk smám saman forgang og náði um síðir yfir- höndinni. En það efldist vinátta með okkur, litlu íslensku fjölskyldunni og Paul, þrátt fyrir stop- ula ástundun mína í fiðluleiknum þegar fram í sótti. Það var gott að eiga Paul að þegar við Kristín vorum að stofna heimili í stór- borginni. Það mátti leita til hans með margt fleira en fiðluleik og nútímatónlist! Nú, 35 árum síðar, notum við enn potta, franska gæðagripi frá Zabar’s á Broad- way, sem hann gaf okkur í brúð- kaupsgjöf. Og það eru ljóðabæk- ur í bókaskápnum eftir höfunda sem honum var umhugað um að við læsum, höfunda á borð við E.E. Cummings og T.S. Eliot. Við buðum Paul oft í mat og hann kom upp eftir til okkar í litlu stúdentaíbúðina á 121. götu, rétt fyrir ofan Columbia-háskólasvæðið. Hann bauð okkur líka stundum heim, en oftar út að borða. Ég held að hann hafi viljað mennta okkur í góðum matarsmekk. Við fórum yfirleitt í lest, Broadway Local, niður á Lincoln Center – hann bjó þar í grennd – og svo var oftast haldið niður í Chinatown í stórri Lincoln Continental-bifreið sem Paul geymdi í kjallaranum – hann taldi slíka dreka veita vörn í umferðinni. Svo var bor- inn fram framandi en lostætur matur. Og það var vel veitt í mat og drykk. Paul var mikill húmoristi af skóla New York-gáfumanna, feiki- lega vel lesinn og góður samræðu- og sögu- maður. Hann hafði ekki aðeins áhuga á tónlist heldur ekki síður bókmenntum og öðrum listum og einnig vísindum. Þetta voru skemmtilegar og góðar stundir, sem léttu og auðguðu líf okkar námsmannanna í erlendri stórborg. Við fluttum heim til Íslands árið 1988. Paul kom reglulega til Íslands árin á eftir og við héld- um góðu sambandi. En þessar heimsóknir urðu æ stopulli eftir því sem árin liðu. Hann flutti síð- ar til Austurlanda fjær og tengslin minnkuðu enn. Við heyrðumst öðru hverju í gegnum tölvu- póst, en allt of sjaldan. Svo kom nýverið sorgar- fregnin um andlát Pauls. Hann lést langt um aldur fram, aðeins 73 ára. Paul Zukofsky var einn af bestu og mikilvæg- ustu kennurum mínum og ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að læra af honum. Það fannst svo glöggt hvílíkur afburðamaður hann var og hversu umhugað honum var að miðla af djúpri þekkingu sinni á tónlist, sér í lagi tónlist tuttugustu aldar. Ég mun ávallt búa að því sem ég lærði af Paul. En vináttan var ekki síður mikilvæg. Ég veit vel að Paul átti sér harða hlið, gat verið mjög einþykkur og einstrengingslegur ef því var að skipta. En þessa hlið sá ég ekki – mínar minningar eru um hlýjan og örlátan mann sem gaf óspart af sér hvort heldur var í tónlist eða vináttu. Snillingur á sínu sviði Einstakur Paul Zukofsky fæddist 22. október 1943 í New York og nam fiðluleik hjá Ivan Galamian við Juilliard-tónlistarskólann. Hann þreytti frumraun sína í Carnegie Hall aðeins níu ára. Hann starfaði náið með John Cage, Elliott Carter og öðrum mínímalistum. Eftir hann liggja yfir sextíu hljóðritanir, flestar á nútímatónlist. Á tíunda áratug síðustu aldar var hann yfir- maður Arnold Schönberg-stofnunarinnar í Los Angeles um fimm ára skeið. Paul Zukofsky lagði ómetanlegan skerf til íslensks tónlistarlífs um árabil og setti varanlegt mark sitt á þá hljóðfæra- leikara sem unnu undir stjórn hans, þá ungir að aldri og enn í námi. Hann kom fyrst hingað til lands 1977 til þess að halda námskeið sem enduðu með tónleikum og síðar til þess að stjórna Sinfóníuhljómsveit æskunnar, en hann var aðalstjórnandi hennar frá stofnun 1985 til 1993. Fiðluleikarinn og hljómsveitarstjórinn Paul Zukofsky lést fyrr í þessum mánuði, aðeins 73 ára að aldri. Óumdeilt er að hann hafði mikil og djúpstæð áhrif á íslenskt tónlistarlíf. Um árabil var hann aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar æskunnar og stjórnaði reglulega Kammersveit Reykjavíkur. Samstarfsfólk Zukofsky minnist hans hér í átta greinum. Morgunblaðið/Ómar Kröfuharður kennari en þolinmóður og hlýr Friðrik Már Baldursson prófessor „You can do it!“ Paul Zukofsky sannfærði hikandi píanista, fullan efasemda, um að kasta sér út í verkefni sem við fyrstu sýn virtist ókleifur múr. Svo horfði hann í gegn- um þykku gleraugun með svörtu umgerðinni á hinn sama efagjarna músíkant, lyfti augabrúnunum og brosti út í annað. Þar með var það ákveðið. Og með það lagði maður út í glímu sem kenndi svo ótal- margt – jók þekkingu og sjálfstraust þannig að maður var ekki samur eftir. Og eitt leiddi af öðru; án Gljúfranna til stjarnanna eftir Olivier Messiaen, þar sem hann stýrði Kammersveit Reykja- víkur og undirrituð lék einleiks- hlutverkið, árið 1989, hefðu önnur meistaraverk ekki fylgt í kjölfarið, nýjar áskoranir og nýir sigrar. Paul var ekki allra og hann átti til að bíta frá sér. En yfirburða- gáfur hans og þekking gáfu okk- ur, íslensku tónlistarfólki, einstök tækifæri og þegar traustið var gagnkvæmt stóð hann með sínu fólki og leiddi það í gegnum brims- kaflana, óhagganlegur með tón- sprota í hönd. Og allir komu heilir heim – eða nokkurn veginn. Líklega væri rétt að segja: heilir en ekki samir. Takk fyrir ævintýrin, takk fyrir allt, Paul. Morgunblaðið/Eva Björk Stóð með sínu fólki og leiddi það í gegnum brimskaflana Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari Það er ótalmargt sem flýgur í gegnum hugann þegar hugsað er til Pauls. Það er persónan Paul, eins og hann var með öll- um sínum gáfum, húmor, við- kvæmni og sérvisku, og svo músíkantinn Paul, súpertalent, sjálfstæður, röntgen-heyrandi, og stórhugsandi. Ég held reyndar að það hafi aldrei verið auðvelt fyrir Paul að vera sá sem hann var, það voru svo ólík öfl sem tókust á í hon- um, og hann var heldur ekki allt- af auðveldur vinum sínum og samstarfsfólki eins og við vitum öll. Hann hafði þó alltaf þennan sjarma og útgeislun sem heill- aði okkur sem unnum með honum. Ég man þó eftir stundum þegar hann var gjörsamlega að gera mann brjálaðan, óbilgjarn, frekur, og stundum andstyggilegur. Þetta fyrirgafst samt allt í músíkinni, þar talaði hann þvert yfir öll mörk og hindranir, hann sjálfur eins og barnið sem hann var, glimrandi af gáfum og með strengi snillingsins. Ég hef ekki verið i sambandi við Paul í fjölda ára, hef þó hugsað til þess hvernig lífi hann hef- ur lifað, hvort hann hafi verið einn, átt vini og og aðstandendur sem hugsa um hann. Ég veit það bara ekki, held þó hann hafi verið frekar einmana, og ekki notið þeirrar umhyggju og væntumþykju sem hann upplifði hér. Hér átti hann marga vini, þótt kannski engir hafi verið nánari honum en þau Rut Ingólfs og Björn, Þorgerður, og Rut okkar Magn- ússon á meðan hún lifði. Ég kynntist Paul í ýmsum verkefnum, bæði í gegnum Kammersveitina og svo ekki síð- ur í gegnum Sinfóníuna, Sinfón- íuhljómsveit æskunnar og Tón- verkamiðstöðina þegar við unnum að endurreisn tónlistar Jóns Leifs. Það eru engin smá afrek sem við erum hér að tala um, og get ég þar nefnt bæði frumflutninginn á Baldri 1991 með Sinfóníu- hljómsveit æskunnar og ekki síður tónleika Sinfóníunnar 1989 með hljómsveitarverkum Jóns Leifs, þ.m.t. flutningur á bæði Geysi og Heklu. Þvílík stund! Á öðrum nótum er mér þó minnisstæðastur flutningurinn á Pierrot Lunaire með Kammersveitinni, sem ég vil marka sem stundina þegar Ísland loksins stóð jafnfætis menningarþjóðunum í Evrópu í flutn- ingi tónlistar okkar tíma. Það er skrýtið að kveðja Paul þegar maður hefur ekki séð hann í öll þessi ár. Hann stendur mér þó ljóslifandi fyrir sjónum í stjórnenda- púltinu í Háskólabíói, veifandi tónsprotanum í öllum hamaganginum, tindrandi brúnu augun, og létt glottandi á svip. Hekla í öllu sínu valdi! „This is music, Hjálmar.“ Morgunblaðið/Golli Svo ólík öfl sem tókust á Hjálmar H. Ragnarsson tónskáld

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.