Morgunblaðið - 24.11.2017, Side 80

Morgunblaðið - 24.11.2017, Side 80
80 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 24. NÓVEMBER 2017 Þegar Hólmfríður var átta ára, varð hún að fara frá Nesi. Þar hafði henni liðið vel. Þótt húsfreyja væri dálítið hörð, var hún góð og heiðarleg og hugsaði um að börnin væru hlýtt klædd og hefðu nóg að borða eftir því, sem gerðist í þá daga. Móðir hennar hafði gefið með henni að Nesi. En nú gat hún ekki gefið með henni lengur, og varð hún því þaðan að hverfa. Nauðug fór hún. Ekki var Ingibjörgu hús- freyju ljúft að láta hana fara, en fékk því ekki ráð- ið. Lét Ingibjörg svo um mælt síðan, að sig iðraði þess alltaf, að hafa látið Hólmfríði frá sér. Kona nátengd Hólmfríði bauðst til þess að taka hana meðgjafarlaust. Heimilið var bláfátækt, og brá Hólmfríði mjög við mat, atlæti og allan aðbúnað. Í öllum rúmum var torf og hey, en engar undirsængur. Rekkjuvoðir voru ekki til, en pokar og gæruskinn voru breidd undir í rúmin, og við þetta varð hún að liggja. Einhverjar tuskur hafði hún ofan á sér. Ekki bætti það úr, að auk fátæktarinnar var þarna mikill sóða- skapur. Baðstofan var köld og dimm og líktist mest inngröfnum hól. Stundum var baðstofan full af reykj- arsvælu, sem lagði inn úr eldhúsinu. Þarna var kalt og ömurlegt, og oft lítið sem ekkert til viðurværis, nema löggin úr kúnni og gamlir þorsk- hausar. Aldrei fékk Hólmfríður fylli sína og var hún þó enginn verulegur matmaður. Húsfreyja hafði það fyrir sið, að gefa henni froðuna ofan af vatnsgrautnum og allar skánir og skófir úr pottunum. Í Nesi voru hundunum gefnar skófirnar og þótti Hólmfríði þær ekki lystugar í fyrstu, en brátt gerði sulturinn þær sætar. Húsfreyja lét hundana sleikja ask- ana, og voru þeir því sjaldan þvegn- ir. Ekki var heldur verið að þvo þessar tuskur, sem legið var við. En einstaka sinnum var viðrað úr rúm- unum, og var það látið nægja. Hólm- fríður var höfð útundan. Auk hennar voru þrjú börn á heimilinu, sem hjónin áttu, og var gerður mikill munur á þeim og henni, bæði í mat og atlæti. Og varð hún því hart úti. Hún var lítil og framfaralaus en varð þó að vinna mikið. Var henni ætlaður allur vatnsburður, en það var erfitt verk, því upp alllanga brekku var að fara. Henni var líka ætlað að fara all- ar sendiferðir, sópa bæinn og mala kornið. Á vetrum var hún látin moka snjó frá bæ og fjárhúsum, hjálpa til að leysa hey og troða í meisa. Þar var siður að berja bein handa kún- um. Kom það í hlut hennar að berja beinin. Var hún látin berja þau úti á fiskasteininum, og þess ekkert gætt, þótt kalt væri. Þá kom það sér vel að hún var vel fötuð frá Nesi, því að ekki fékk hún nein föt þarna. Á sumrin varð hún oft að ganga ber- fætt. Þjáð af hungri og kulda Kotið var hjáleiga frá stórbýli og á þessu stórbýli var selveiði. Þegar selur veiddist, fengu húsbændur Hólmfríðar oft lifrina úr selnum. Var lifrin soðin og þótti góð. Einni kind var slátrað að hausti. Var það allur kjötforðinn handa sex manns, og hrökk það skamma hríð. Það, sem bjargaði, var, að á vorin og sumrin veiddist fiskur, og hafði fólkið þá fisk til matar. Allt var etið af fiskinum, allt roð, allir kútmagar, allar lifrar og allt, nema blá beinin. Ef hákarl veiddist, fengu húsbændur hennar stundum hákarlsugga og hákarls- maga. Hákarlinn var látinn ofan í sjóðheitt vatn. Síðan var skrápnum flett af, og hákarlinn látinn í súr. Þegar hann var orðinn vel súr, var hann etinn. Og svo mikið er víst, að þá þótti Hólmfríði þetta góður mat- ur. Sömuleiðis hafði fólkið oft bræð- ing úr hákarlslýsi. Lifrin var þá brædd, ásamt tólg, og höfð til við- bits, bæði með brauði og fiski. Oft var Hólmfríður svo hungruð að hana sveið innan. Má segja, að þarna liði hún bæði af hungri og kulda. Oft var hún barin, og aldrei var talað til hennar hlýtt orð og aldr- ei fannst þeim hjónum hún vinna nóg. Auk þeirra starfa, sem áður eru talin, var það hennar verk að bera heim allan móinn, en þar var mór notaður til eldsneytis. Þegar mórinn hafði verið stunginn upp, var hann borinn á börum og hann þurrkaður. Átti Hólmfríður að bera börurnar á móti húsfreyjunni. Var þetta allþung byrði fyrir níu ára telpu, framfara- litla og þróttlausa af þrælkun og ónógu viðurværi. Eitt sinn missti hún börurnar. Varð húsfreyju þá svo skapbrátt, að hún sló til hennar. Mó- gröf, full af vatni, var að baki henni, og steyptist Hólmfríður aftur fyrir sig ofan í mógröfina og varð holdvot. En ekki var hún látin fara heim til þess að skipta um föt, heldur var haldið áfram að bera móinn eins og ekkert hefði ískorizt. „Þér er skammar nær að halda áfram að vinna“ Hólmfríður undi illa hag sínum, og grét hún stundum daglega. En ekki var fyrir neinum að kæra. Hún varð ein að bera allar sínar áhyggjur. Móðir hennar var fátæk og gat ekki haft hana. Ingibjörg í Nesi vissi ekki, hvað henni leið. Langt var í milli og fáförult, en Ingibjörg sendi henni föt, hlý og vel unnin. Ekki fékk Hólmfríður að njóta fatanna. Þau tók húsfreyja og klæddi sín börn í þau, og sveið Hólmfríði það ekki minnst. Á sumrin var Hólmfríður aldrei látin vera í sokkum. En í skóm var hún stundum. Skórnir voru úr há- karlsskráp. Ekki var gott að ganga á þeim, þeir hörðnuðu svo mikið í þurrkum. Þessir skór voru ekki bryddaðir, heldur verptir. Fallegir voru þeir ekki, en ekki var völ á öðru skæðaskinni á þeim bæ. Á þessum tíma dó fólkið heldur úr hungri, en eta hrossakjöt. Það var algjörlega fordæmt og því ýmist fleygt eða haft í hákarlabeitu. Hjón nokkur bjuggu þarna í koti skammt frá. Þau átu hrossakjöt, og létu börn sín eta það. Á þessu fólki var mikil fyrirlitning. Menn sneiddu hjá kotinu og fjölskyldunni og vildu ekk- ert hafa saman við hana að sælda. Þegar þetta fólk kom til kirkju, sett- ist það alltaf fremst í kirkjuna, og sat á krókbekk. Ef það hefði setzt innar, mundi það hafa verið mjög illa séð, þótt í guðshúsi væri. Þarna var Hólmfríður í þrjú ár. Þá fór hún að Barðsgerði. Það var kirkjukot frá Barði. En þá tók litlu betra við. Heimilið var fátækt og skammturinn lítill, en atlætið var betra. Vinnu- harka var þarna mikil. Hólmfríður átti að smala ánum á morgnana. En aldrei fékk hún vott eða þurrt áður en hún fór. Bæri við, að einhverja ána vantaði, var hún send aftur hvernig sem veður var, og það þótt niðaþoka væri. Í slíkum leiðangri villtist hún einu sinni og lá úti eina nótt. Í Nesi lærði hún að lesa, og bjó hún að því sem fleiru þaðan. Langaði hana oft til að grípa bók og lesa, en bókalestur var á báðum þessum bæjum alveg fordæmdur. Lærði hún því ekkert þessi árin. Einu sinni stalst hún þó í bók. Þá kom húsfreyja þar að, tók bókina, smellti henni saman og gaf henni vænt högg með bókinni. „Þér er skammar nær að halda áfram að vinna,“ sagði hún. Aldrei södd, nema á jólum og stórhátíðum Eitt sinn, er Hólmfríður var að smala, sveið hana svo innan af hungri, að hún settist á stein og há- grét. Þegar hún hafði grátið um stund, datt henni allt í einu í hug: „Ég skal hlaupa heim og biðja hana Guðrúnu að gefa mér eitt- hvað.“ Guðrún þessi var móðir húsfreyju og var Hólmfríði jafnan góð. En hún mátti sín lítils á heimilinu. Þótt Hólmfríður væri máttfarin bæði af þreytu og hungri, hálfhljóp hún við fót. Vonin um mat bar hana hálfa leið. Þegar til bæjar kom, var Guðrún að moka flórinn. Hólmfríður fór til hennar og stóð andartak fyrir innan fjósdyrnar. Þegar á átti að herða, brast hana kjark til að bera upp erindið. Hún var að því komin að hverfa frá, er gamla konan leit upp og sagði: „Þú ert víst svöng núna, hróið mitt.“ „Já, ég er verulega svöng,“ svar- aði telpan. „Það er lítið í askinum mínum núna handa þér,“ sagði gamla kon- an. Hún hætti að moka, en gekk að einni jötunni, tók þar moð og þurrk- aði með moðinu mesta skítinn af höndum sér. Síðan gekk hún heim bæjarstéttina og inn í bæinn, og elti telpan hana. Þegar inn kom, tók hún askinn sinn, sem stóð á hillu yfir rúminu hennar. „Þetta er lítið í svanginn,“ sagði gamla konan; um leið fór hún með vísifingur hægri handar ofan í ask- inn og hrærði saman grautinn og mjólkina. Síðan rétti hún Hólmfríði askinn og sagði: „Súptu þetta, hróið mitt.“ Telpan tók þegjandi við askinum. Þegar hún hafði sopið til botns, rétti hún gömlu konunni askinn og sagði: „Guð launi fyrir mig.“ „Guð blessi þig,“ sagði gamla kon- an og hélt aftur út að moka flórinn. En Hólmfríður fór til smalamennsk- unnar, hressari en áður, en engan veginn södd. Það var hún eiginlega aldrei, aldrei nema á jólum og stórhátíðum, þegar vel var skammt- að. Vorið 1882 fluttust hjónin í Barðs- gerði búferlum að Móskógum á Bökkum. Þá voru mikil harðindi, og lá þá ís fyrir öllu Norðurlandi allt fram til höfuðdags. Frostin voru svo mikil, að ekki sást í auða vök frá far- dögum og fram undir höfuðdag. Þegar fjölskyldan í Barðsgerði flutti um fardaga, var snjókyngi og umbrotafærð, svo að illt var að kom- ast um jörðina. Ofan á öll harðindin bættust svo mislingarnir, og lögðust menn unnvörpum í rúmið. Á sumum bæjum lögðust allir í einu og lágu í kös í baðstofunum, og gátu enga björg sér veitt. Ekki var hjálpar að vænta af öðrum bæjum. Veikin var á hverjum bæ, og sérhvert heimili var báglega statt og þarfnaðist hjálpar. Mislingarnir lögðust þungt á marga, og margir dóu, en þeir, sem lifðu þá af, voru lengi að ná sér eftir veikina, og sumir báru aldrei sitt barr. Olli það mjög, að matur var af skornum skammti og sums staðar ekki til, þar eð ekki var farið á sjó. Kýrnar þorn- uðu upp. Kvíærnar týndust, því að víða var enginn til, sem sinnt gat skepnunum. Tvennir tímar Hólmfríðar Hjaltason Tvennir tímar heitir ævisaga Hólmfríðar Hjaltason sem Elínborg Lárusdóttir færði á bók og kom fyrst út haustið 1949. Í uppvextinum þurfti Hólmfríður að þola mikið harðræði og hungur og gekk svo langt að hún varð að eta töðu til að sefa hungur sitt. Úr einkasafni Harðræði Hólmfríður Hjaltason og Guðmundur eiginmaður hennar ásamt dætrum sínum, þeim Margréti og Sigurveigu. Jólatilboðsverð kr. 129.002,- Vitamix Pro 750 á sér engann jafningja. Nýtt útlit og nýir valmöguleikar. 5 prógrömm og hraðastillir sjá til þess að blandan verður ávallt fullkomin og fersk! Galdurinn við ferskt hráefni Rauðagerði 25 108 Rvk Sími 440-1800 www.kaelitaekni.is

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.