Morgunblaðið - 10.01.2018, Blaðsíða 19
19
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 10. JANÚAR 2018
Akranes Sementsverksmiðjan sem setti mikinn svip á bæinn um fjölda ára er nú óðum að hverfa. Sterkbyggðir veggirnir eru molaðir niður með kraftmiklum vinnuvélum eða sprengdir í sundur.
RAX
Fyrir tæpum fjórum
árum nýtti Sjálfstæð-
isflokkurinn ekki tæki-
færin í Reykjavík.
Þvert á móti. Niður-
staða borgarstjórn-
arkosninganna 2014
var áfall – verstu kosn-
ingaúrslit í sögu
flokksins. Það er
ástæða til að hafa
áhyggjur af því að
sjálfstæðismenn í Reykjavík láti
tækifærin renna sér úr greipum enn
einu sinni í kosningunum í vor. Og
hvernig má annað vera þegar borg-
arbúar eiga erfitt með að átta sig á
fyrir hvað Sjálfstæðisflokkurinn
stendur fyrir í Reykjavík.
Kannski er það óvægið að halda
því fram að Sjálfstæðisflokkurinn
hafi misst talsamband við mikinn
meirihluta borgarbúa. En að
óbreyttu verður Sjálfstæðisflokkur-
inn aðeins einn margra stjórnmála-
flokka í kraðaki flokka sem sækjast
eftir stuðningi í komandi kosning-
um. Þetta er hreint ótrúleg staða
eftir tæplega átta ára stjórn vinstri-
flokkanna í Reykjavík. Ekki er af-
rekaskrá vinstrimeirihlutans þannig
að borgarbúar hafi ástæðu til að
gleðjast. Langt í frá.
Skuldasöfnun í góðæri
Rekstur borgarinnar síðustu ár
verður aldrei skólabókardæmi um
hvernig standa skuli að rekstri sveit-
arfélags. Ákveði borgarbúar að end-
urnýja umboð meirihluta borgar-
stjórnar í kosningunum í vor, taka
þeir ákvörðun um að halda óbreyttri
stefnu við rekstur borgarinnar. Þeir
samþykkja þá hugmyndafræði sem
liggur að baki fjárhags-
áætlun borgarinnar
fram til ársins 2022.
Rekstrarkostnaður A-
hluta verður 37% hærri
árið 2022 en 2016.
Þetta er hækkun um 35
milljarða króna sem er
rúmlega 13 milljörðum
króna hærri fjárhæð en
Reykjavíkurborg lagði
til velferðarmála á síð-
asta ári.
Samkvæmt stefnu
núverandi meirihluta
borgarstjórnar verður rekstrar-
kostnaður samstæðunnar í heild 162
milljarðar króna árið 2022 sem er
tæpum 44 milljörðum króna hærri
fjárhæð en 2016. Hækkunin er meiri
en kostnaður við skóla- og frí-
stundasvið árið 2016 og litlu hærri
en áætlaður kostnaður á síðasta ári.
Albert Þór Jónsson, viðskipta-
fræðingur og MCF í fjármálum fyr-
irtækja, lýsti stöðunni ágætlega í
grein 23. nóvember síðastliðinn hér í
Morgunblaðinu:
„Á toppi hagsveiflunnar á Íslandi
eru allir skattstofnar Reykjavíkur-
borgar fullnýttir en þrátt fyrir það
hafa skuldir Reykjavíkurborgar
aukist mikið þegar skynsamlegra
hefði verið að greiða niður skuldir til
þess að takast á við samdráttartíma.
Ef skuldsetningar Reykjavíkur-
borgar halda áfram að aukast með
slíkum hraða með alla skattstofna
fullnýtta á toppi hagsveiflunnar mun
Reykjavíkurborg stefna í greiðslu-
þrot innan fárra ára.“
„Tekjuvandi“
Þrátt fyrir auknar skuldir og sí-
fellt hækkandi rekstrarkostnað og
útþenslu stjórnkerfis, er borgar-
stjóri sannfærður um að „útsjón-
arsemi“ einkenni reksturinn. Borgin
glími ekki við óhagkvæman rekstur
heldur skort á tekjustofnum.
„Tekjur hafa hækkað hægar en
gjöldin,“ sagði Dagur B. Eggertsson
í viðtali við DV um miðjan október
2015. Hann ásamt öðrum í meiri-
hluta borgarstjórnar er sannfærður
um að opinber rekstur snúist fyrst
og síðast um að auka tekjurnar,
finna nýja skatt- og gjaldstofna.
Tekjur borgarsjóðs voru um 80%
hærri á síðasta ári en 2010 – árið
sem Dagur B. Eggertsson og Jón
Gnarr tóku við lyklum að ráðhúsinu
við Tjörnina. Gríðarleg hækkun
tekna er sögð merki um „tekju-
vanda“.
Í örvæntingarfullri leit að tekjum
var ákveðið að leggja á sérstaka við-
bótargreiðslu og gatnagerðargjald
fyrir stækkun og nýbyggingar. Ekki
má gleyma skrefagjöldum fyrir
sorptunnur. Þegar íbúarnir kvört-
uðu yfir versnandi sorphirðu, þrátt
fyrir hækkun gjalda, bentu fulltrúar
meirihlutans á að það væri bæði
hollt og gott að fá sér göngutúr að
næsta grenndargámi með ruslið!
Þrátt fyrir að rekstrarkostnaður
A-hluta borgarsjóðs hafi aukist um
nær 47 milljarða króna (2010-2017)
eða rúmlega 80% hefur þjónustu við
borgarbúa, meðal annars við eldri
borgara, verið skert. Borgin er illa
þrifin og götur helst ekki. Afleið-
ingin er minni lífsgæði og meiri
mengun.
Gatnakerfi borgarinnar er að
hrynja. Skipulagsmál eru í ólestri og
lóðaskortur hefur keyrt upp fast-
eignaverð – ekki aðeins í höfuðborg-
inni heldur einnig í nágrannasveitar-
félögunum. Lífskjör almennings
hafa verið skert með skortstefnu
meirihluta borgarstjórnar. Ekki að-
eins með því að verð íbúða er hærra
en það þyrfti að vera, ef lóðaframboð
væri eðlilegt, heldur einnig vegna
þess að hærra fasteignaverð hefur
leitt til þess að skuldir launafólks
hafa hækkað.
En til að gæta sanngirni er vert að
benda á að hugmyndir um hagræð-
ingu skjóta stundum upp kollinum
hjá meirihlutanum. Auðvitað er það
ákveðin tegund af „útsjónarsemi“
hjá borgarfulltrúa og flokkssystur
borgarstjóra, að leggja til að knatt-
spyrnulið í efstu deild yrðu sam-
einuð í sparnaðarskyni.
Skýr framtíðarsýn með ábyrgð
Frambjóðendur Sjálfstæðis-
flokksins þurfa að draga fram það
sem miður hefur farið við stjórn
borgarinnar, en það eitt dugar ekki.
Skýr framtíðarsýn og stefnufesta er
forsenda árangurs. Þeir þurfa einnig
að leggja áherslu á að ekki verði
hlaupið undan ábyrgð ef eitthvað fer
úrskeiðis. Það virðist vera sérstök
stefna meirihluta borgarstjórnar að
firra sig ábyrgð á stóru og smáu.
Jafnvel þegar málað var yfir vegg-
mynd af sjómanni á gafli Sjávar-
útvegshússins, að kröfu borgar-
innar, var reynt að hlaupast undan.
Þegar hundruð þúsunda lítra af
óhreinsuðu skólpi runnu út í sjó var
borgarstjóri ábyrgðarlaus með sama
hætti og hann ber litla ábyrgð á
ástandi gatnakerfisins. „Ég setti
mig í samband við vegamálastjóra
og bæjarstjórana á höfuðborgar-
svæðinu og allir segja sömu söguna.
Það eru miklar áhyggjur af stöðu
gatnakerfisins,“ svaraði borgarstjóri
þegar visir.is vildi í mars 2016 vita
hvað ætti að gera til að lagfæra göt-
ur borgarinnar.
Í aðdraganda kosninganna 2014
hélt ég því fram að sjálfstæðis-
mönnum hefði ekki tekist að ná eyr-
um borgarbúa í mörg ár – þeir ættu
erfitt með að átta sig á því fyrir hvað
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík
stæði. Kjósendur fengju misvísandi
skilaboð frá borgarfulltrúum flokks-
ins sem kæmi ekki fram sem ein
heild – samhentur hópur með sömu
sýn á framtíðina.
Þetta virðist eiga við enn í dag.
Ætli sjálfstæðismenn að ná árangri í
komandi kosningunum verður stefn-
an að vera skýr. Einkunnarorð
þeirra í vor eiga að vera valfrelsi,
lægri álögur og betri þjónusta.
Frambjóðendur Sjálfstæðisflokks-
ins öðlast ekki tiltrú borgarbúa
nema þeir setji fram skýra framtíð-
arsýn um þróun borgarinnar, öflugri
þjónustu samhliða hófsömum álög-
um.
Þeir verða að sannfæra kjósendur
um að óskir þeirra í skipulagsmálum
verði virtar og unnið verði að því að
auka valfrelsi íbúanna á öllum svið-
um, ekki síst í samgöngum, í búsetu
og skólum.
Spurningin er einföld: Ætlar
Sjálfstæðisflokkurinn að nýta tæki-
færin í Reykjavík?
Vonandi er svarið jákvætt.
Eftir Óla Björn
Kárason »Ætli sjálfstæðis-
menn að ná árangri
í kosningunum verður
stefnan að vera skýr.
Einkunnarorðin eiga
að vera valfrelsi, lægri
álögur og betri
þjónusta.
Óli Björn Kárason
Höfundur er þingmaður
Sjálfstæðisflokksins.
Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að nýta tækifærin?