Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.02.2018, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.02.2018, Blaðsíða 19
18.2. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19 til að ganga í augun á fræðimanninum. Því næst rann spekin upp úr Pétri og þegar þeir höfðu haft stólaskipti tjáði Sigurður Páli rakara að þessi maður kynni svo sannarlega Íslend- ingasögurnar sínar. Sigurður var ekki fyrr horfinn á braut en Pétur kom aftur í loftköst- um: „Hvað sagð’ann?!“ Úr því minnst er á Sigurð þá vekur Þorberg athygli á því að hann hafi um dagana náð að klippa fjóra ættliði Nordæla. Fleiri hafa sömu sögu að segja, algengt sé að maður komi fram af manni. Enn einn kynlegur kvistur, sem setti svip sinn á bæinn, var Óli Maggadon en hann var einn af fyrstu viðskiptavinum Ágústs, sem minnist hans með hlýju. Þorberg rifjar upp að séra Bjarni Jónsson dómkirkjuprestur hafi allt- af gefið Óla Maggadon jólagjöf. Ein jólin, þegar Óli kom að sækja gjöfina sína, var séra Bjarni að heiman en frúin lét hann hafa gjöfina í stað- inn. Hvarf Óli svo á braut. Seinna sama dag kom hann aftur og rukkaði séra Bjarna um gjöfina. Minnti klerkur vin sinn þá á að hann hefði þegar fengið gjöf frá eiginkonu sinni. Þá gall í Óla Maggadon: „Já, en hún var frá hún en ekki þig!“ Stærra en brennivínsnef Ennfremur er þeim elstu í hópnum eftir- minnilegur séra Jónmundur Halldórsson á Stað í Grunnavík, tröllvaxinn og allsérstakur persónuleiki með gríðarstórt nef. „Það var stærra en myndarlegt brennivínsnef,“ rifjar Hörður upp. Og þeir voru fleiri stórir og stæðilegir, eng- inn þó eins og sjálfur Jóhann Pétursson Svarf- dælingur. „Jói risi kom stundum á stofuna og ég man ekki betur en að ég hafi náð að klippa hann, alla vega einu sinni,“ segir Hörður. Þegar litið er um öxl stendur trygglyndi við- skiptavinanna upp úr, að mati hópsins, enda sé fólk alla jafna fastheldið á þjónustu af þessu tagi. „Við höfum eignast marga vini og kunn- ingja gegnum starf okkar,“ segja þeir einum rómi. „Sem dæmi má nefna að þessi stofa dugði gegnum hippatímann þegar afar lítið var að gera hjá rökurum almennt. Það segir sína sögu,“ segir Þorberg. Það voru ekki bara kúnnarnir sem voru vanafastir, heldur líka Páll sjálfur. Þannig fengu allir nemarnir hans það hlutverk að sækja fyrir hann tebollu með rúsínu út í Björnsbakarí milli klukkan þrjú og fjögur á daginn. Það mátti ekki fyrir nokkurn mun klikka. Með tebollunni hafði hann mjólk. Og fleiri komust upp á lagið. „Minnstu ekki á það,“ segir Trausti. „Ég er ennþá að borða tebollur!“ Þeir rifja upp að Páll hafi alla tíð fylgst mjög vel með í faginu og verið duglegur að hafa sam- band við önnur lönd og fá hingað heim erlenda rakara til að halda námskeið. Rakarastofu Sigurðar Ólafssonar var lokað árið 1987 þegar Páll settist í helgan stein. Leiddist ekki starfið Þorberg segir stofuna að öllu leyti hafa verið góðan skóla, bæði uppeldislega og faglega, og mönnum sem þar unnu almennt farnast vel. „Allir í þessum hópi hafa skilað góðu starfi og niðurstöðu,“ segir Þorberg sem sjálfur er enn starfandi. Og ekki leiddist þeim starfið því Hörður starfaði í yfir 60 ár samfellt og bæði Þorberg og Ágúst hafa náð 50 árum í faginu. Garðar lét staðar numið eftir 48 ár. Kolbeinn lét sér duga sex ár, frá 1965 til 1971. „Ég ákvað þriggja ára að verða rakari eins og pabbi og afi en pabbi hvatti mig hins vegar eindregið til að fara í Verzló og örlögin höguðu því svo þannig að ég sneri mér að öðru þegar ég átti mánuð eftir í meistararéttindin,“ segir Kolbeinn sem þá var ráðinn forstöðu- maður Tónabæjar. Hann kom svo víða við í at- vinnulífinu og borgarpólitíkinni, auk þess að vera auðvitað einn fremsti körfuboltamaður Ís- landssögunnar og íþróttmaður ársins 1966. „Ég kom ekki nálægt rakstri og hárskurði þangað til fyrir tíu árum að börnin mín gáfu mér sett, þar á meðal Oster-rakvél, og ég dunda mér stundum við að klippa og raka núna. Mér til ánægju og yndisauka.“ Ekkert af börnum Kolbeins lagði hárskurð fyrir sig en það gerði á hinn bóginn tengdadótt- ir hans, Lovísa Sigurðardóttir. Og núna er son- ardóttir Kolbeins, Kristbjörg Pálsdóttir, búin að læra og farin að starfa við fagið. Já, eplið fellur sjaldnast langt frá eikinni. Ætli hún hafi tebollur með miðdegiskaffinu? Hundrað ára fæðingarafmælis Páls Sigurðssonar rakara minnst. F.v.: Trausti Thorberg Óskarsson, Garðar Schev- ing, Hörður Þórarinsson, Ágúst Friðriksson, Ólafur Ægisson, Kolbeinn Hermann Pálsson og Þorberg Ólafsson. Morgunblaðið/Eggert Gamlir samstarfsmenn á góðri stund: Þorberg Ólafsson, Leifur Jóhannesson, Trausti Thorberg, Páll Sigurðsson, Kári Elíasson og Pétur Guðjónsson. Páll og starfslið hans á sjötta áratugnum: Pétur Melsted, Ingjaldur Kjartansson, Páll Sigurðsson, Jóhann Gestsson, Trausti Thorberg og Hörður Þórarinsson. ’Nemendur fengu víðtæka oggóða kennslu og okkur vartaminn agi, stundvísi, snyrti-mennska og kurteisi í hvívetna.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.