Læknablaðið - 01.03.2018, Blaðsíða 13
LÆKNAblaðið 2018/104 129
bólgu A (Havrix og Vaqta) frá því þau komu á markað 1994 og
um 72.000 skammtar af samsettum bóluefnum gegn lifrarbólgu
A og B (Twinrix) frá því þau komu á markað 1999 (mynd 2). Ef
gert væri ráð fyrir að allir sem voru bólusettir hafi klárað bólu-
setningar sínar væru um 55.000 einstaklingar bólusettir á Íslandi,
miðað við tvo skammta af eingildu bóluefni og þrjá skammta af
samsettu bóluefni.
Umræða
Nýgengi bráðrar lifrarbólgu A hefur lækkað verulega á Íslandi frá
því um 1990 og er nú að meðaltali 0,34 tilfelli á 100.000 íbúa á ári.
Til samanburðar var árlegt nýgengi á Íslandi 4,9 á 100.000 íbúa á
Íslandi í lok níunda áratugar síðustu aldar3 og í Evrópu árið 2014
3,0 tilfelli á 100.000 íbúa.7 Nýgengi virðist einnig vera lækkandi í
Evrópu miðað við að á tímabilinu 1975-1989 voru 5 lönd með mjög
lágt algengi anti-HAV IgG samanborið við 24 lönd á tímabilinu
2000-2014.8 Nýlega hafa þó komið upp faraldrar í Evrópu, þar á
meðal á Norðurlöndunum.9 Til dæmis komu upp þrír faraldrar
í Evrópusambandslöndum árið 2013, einn þeirra var talinn upp-
runninn frá frosnum jarðarberjum frá Egyptalandi og Marokkó,
annar frá ferðamönnum sem komu heim frá Egyptalandi og sá
þriðji var rakinn til frosinnar berjablöndu frá Austur-Evrópu.9
Einnig hafa komið upp nokkrir faraldrar meðal karla sem stunda
kynlíf með körlum, til dæmis í Hollandi, Bretlandi og á Spáni.10-13
Athyglisvert er að árið 2017, árið eftir að rannsóknartímabili
þessarar greinar lauk, greindust óvenju mörg tilfelli af lifrarbólgu
A á Íslandi, eða 5 talsins samkvæmt fréttabréfi sóttvarnarlæknis.
Þar af voru fjórir karlar sem stunda kynlíf með körlum og tengd-
ust tilfellin faraldri í Evrópu einkum meðal karla sem stunda kyn-
líf með körlum.14
Mjög fá tilfelli greindust á rannsóknartímabilinu samanborið
við fjölda mótefnamælinga sem voru framkvæmdar á tímabilinu
sem bendir til þess að mælingarnar séu óþarflega algengar miðað
við sjaldgæfi sjúkdómsins hér á landi. Ef til vill ætti að nota sterk-
ari ábendingar til að leita að lifrarbólgu A, til dæmis höfðu flestir
(75%) sem greindust í þessari rannsókn verið erlendis nýlega og
allir höfðu að minnsta kosti tvö af eftirfarandi þremur einkennum
eða teiknum: gula, hiti eða ógleði og/eða uppköst.
Umdeilt hefur verið hvaða nálgun sé best við uppvinnslu sjúk-
linga með hækkuð lifrarpróf, víðtæk: það er að prófa fyrir öllum
sjúkdómum í einu, eða markviss: það er að byrja á þeim algengu.
Samkvæmt rannsókn þar sem líkt var eftir uppvinnslu á 10.000
einstaklingum með hækkun á ALAT með báðum aðferðum15
reyndist kostnaður við víðtæka nálgun lægri á hvern sjúkling og
tími sparaðist ef engar vísbendingar um greiningu lágu fyrir en
sú aðferð leiddi þó til fleiri falskt jákvæðra greininga. Hins vegar
ef til staðar voru sterkar vísbendingar um líkur á ákveðnum sjúk-
dómi þá sparaði markviss nálgun tíma og fjármuni auk þess að
fyrirbyggja falskt jákvæðar niðurstöður.15 Rannsóknin tók þó ekki
til lifrarbólgu A. Í mjög fáum tilfellum hefur læknirinn engar vís-
bendingar um greininguna og samkvæmt þessum niðurstöðum
ætti því oftast að velja markvissa nálgun við uppvinnslu hækk-
aðra lifrarprófa. Einnig hefur verið sýnt fram á að lifrarbólgu A
mótefnapróf eru ofnotuð í Bandaríkjunum þegar ekki eru merki
um klíníska bráða lifrarbólgu.16
Ekki er til sértæk meðferð við lifrarbólgu A heldur er stuðnings-
meðferð eina úrræðið svo snemmgreining hefur lítil áhrif á með-
ferð. Þar sem lifrarbólgu A IgM mótefni haldast yfirleitt jákvæð í
3-6 mánuði17 væri einnig töluvert svigrúm til að bíða með lifrar-
R A N N S Ó K N
Tafla II. Fjöldi mótefnamælinga fyrir lifrarbólgu A á veirufræðideild Landspítala
2006-2016 og niðurstöður þeirra. Jákvæð IgM mótefni staðfesta greiningu
bráðrar lifrarbólgu.
Ár Rannsókn Jákvæð Neikvæð Samtals
2006 (frá 28. mars) HAV heildarmótefni 226 514 740
HAV IgM - 219 219
2007 HAV heildarmótefni 322 734 1056
HAV IgM 1 307 308
2008 HAV heildarmótefni 285 661 946
HAV IgM 1 274 275
2009 HAV heildarmótefni 177 482 659
HAV IgM 3 178 181
2010 HAV heildarmótefni 184 367 551
HAV IgM 2 183 185
2011 HAV heildarmótefni 132 317 449
HAV IgM 1 127 128
2012 HAV heildarmótefni 134 296 430
HAV IgM 4 128 132
2013 HAV heildarmótefni 150 375 525
HAV IgM - 150 150
2014 HAV heildarmótefni 145 329 474
HAV IgM - 143 143
2015 HAV heildarmótefni 119 277 396
HAV IgM - 116 116
2016 HAV heildarmótefni 153 312 465
HAV IgM - 147 147
HAV: lifrarbólgu A veira (hepatitis A virus)
Mynd 2. Fjöldi seldra skammta af eingildum lifrarbólgu A bóluefnum (Havrix og
Vaqta) og samsettum lifrarbólgu A og lifrarbólgu B bóluefnum (Twinrix) á ári á Íslandi
frá því þau komu á markað. Tölur fengnar frá Lyfjastofnun.