Morgunblaðið - 23.06.2018, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 23.06.2018, Blaðsíða 24
24 UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 23. JÚNÍ 2018 Gersk ævintýri gerast víðar en í fótboltanum. Í lok maí hélthópur málfræðinga í austurveg á tveggja daga ráðstefnu íSankti-Pétursborg. Auk íslenskra og rússneskra fræði-manna voru þátttakendur m.a. frá Noregi, Svíþjóð og Bandaríkjunum. Gestgjafar voru þau Júrí Kleiner og Jelena Krasnova, prófessorar í norrænum málum við Sankti-Pétursborgarháskóla, en við Ingunn Hreinberg Indr- iðadóttir, doktorsnemi í íslenskri málfræði, sáum um skipulagið af hálfu Háskóla Íslands. Flestir fyrirlesarar mæltu á ensku en nokkrir á dönsku, t.d. Ís- landsvinurinn Boris Zharov, sem sagði frá Mikhajl Steblín- Kamenskí, brautryðjanda í nor- rænum fræðum í Sankti-Péturs- borg. Liðin eru 115 ár frá fæðingu þessa merka fræðimanns, sem er án efa þekktastur fyrir bók sína Heimur Íslendingasagna sem Helgi Haraldsson, prófessor í Ósló, þýddi. Sum erindanna lutu að tengslum norrænna manna við framandi þjóðir. Þannig greindi Michael Schulte, íslenskumælandi Þjóðverji og prófessor í Kristjánssandi, frá persneskum áhrifum á norrænan orða- forða um manntafl. Miðausturlandafræðingurinn Þórir Jónsson Hraundal talaði um tökuorð í forníslensku úr málum sem skyld eru tyrknesku. Rúss- neski prófessorinn Júrí Kús- menko var hins vegar á norðurslóðum og fjallaði um Sama og Finna í forn- íslenskum bókmenntum, m.a. út frá sjónarhóli erfðafræði. Málbreytingar voru öðrum fyrirlesurum hugleiknar. Kristján Árna- son talaði um „upplausn“ norrænunnar og lagði út af þeirri staðreynd að önnur Norðurlandamál hafa breyst miklu meira en íslenska. Mar- grét Jónsdóttir gerði að umtalsefni breytileika í tilteknum orða- samböndum í íslensku. Auður Hauksdóttir ræddi um samband dönsku og íslensku, sem er margslungnara en oft er talið. Halldór Ármann Sig- urðsson, prófessor í Lundi, sagði frá óvæntum breytingum á sænsku fallakerfi. Þá töluðu Sigríður Sigurjónsdóttir og bandaríska málvís- indakonan Joan Maling í sínum erindum um orðalag á borð við „það var barið mig“. Það er aðallega þekkt í máli barna og unglinga en heyrist æ oftar hjá fullorðnum líka og hefur hlotið mikla athygli málfræðinga inn- an lands sem utan. Loks fjallaði höfundur þessa pistils um atriði í ís- lenskri setningagerð sem talin hafa verið einstök fyrir íslensku en eru það þó sennilega ekki. Sérstaklega ánægjulegt er að geta þess að allmargir ungir og upp- rennandi fræðimenn fluttu erindi á ráðstefnunni, þ. á m. doktorsnemar við Háskóla Íslands. Rússneskur doktorsnemi viðraði einnig hug- myndir sínar um forníslenska setningafræði, sem áheyrendum þóttu afar nýstárlegar. Þannig sýndi ráðstefnan í Sankti-Pétursborg hve hollt er að stefna saman fræðimönnum frá ólíkum löndum sem oft vinna innan mismun- andi fræðahefða. Þessi nýjasta útrás – eða öllu heldur innrás – ís- lenskrar málfræði er enn ein staðfestingin á alþjóðlegri skírskotun þessarar fræðigreinar. Bjarmalandsför íslenskra málfræðinga Tungutak Þórhallur Eyþórsson tolli@hi.is Pétur mikli Rússakeisari stofnaði Sankti- Pétursborg og háskólann þar líka. Fyrir rúmri viku efndi Félag stjórnmála-fræðinga í samstarfi við Stofnun stjórn-sýslufræða og stjórnmála við Háskóla Ís-lands til ráðstefnu um afleiðingar og eftirköst efnahagshrunsins fyrir 10 árum. Fleiri að- ilar eru á ferð með fundarhöld af þessu tilefni og má þar ekki sízt nefna Samtök sparifjáreigenda. Slíkar umræður eru bæði fróðlegar og gagnlegar. Það skiptir máli að nota þessi tímamót til að rifja upp það sem gerðist og leggja mat á hvernig til hefur tekizt um endurreisn Íslands. Í stórum drátt- um verður ekki annað sagt en að það hafi tekizt vel, alla vega í efnahagslegum skilningi. Á þessari ráðstefnu fluttu fjórir fyrirlesarar er- indi um ýmiss konar rannsóknir sem þeir hafa gert á þessum atburðum og þar kom að sjálfsögðu margt athyglisvert fram eins og vænta mátti. Þó var það svo að það voru fyrirspurnir og at- hugasemdir tveggja ráðstefnugesta, sem vöktu mesta athygli þess sem hér skrifar. Einn fyrirlesari brá upp glæru, þar sem fram kom hvaða rannsóknarnefndir hefðu verið settar á fót og um hvað. Sú glæra varð tilefni at- hugasemdar frá einum fundar- manna, sem benti á að engin slík rannsóknarnefnd hefði verið skipuð til að semja skýrslu um áhrif hrunsins á heimili landsins. Þetta er auðvitað rétt eins og allir sjá um leið og það hefur verið sagt. Þessi athugasemd varð svo til þess að annar ráð- stefnugestur tók til máls og benti á að um tíu þús- und heimili hefðu glatast í hruninu og að hrunið hefði verið persónugert í heimilum landsins, sem hefðu það eitt til saka unnið að hafa tekið húsnæð- islán. Þessar tvær athugasemdir verkuðu á mig sem það merkasta sem fram kom á ráðstefnunni með fullri virðingu þó fyrir því háskólafólki sem þar tal- aði. Og um leið vöknuðu spurningar um, hvers vegna Alþingi hefði ekki látið rannsaka áhrif hrunsins á þennan þátt samfélagsins. Kannski má að einhverju leyti spyrja sömu spurningar varðandi rannsóknir háskólamanna. Og áreiðanlega sitthvað til í því sem einn fyrir- lesari hafði orð á að kannski hefði almenningur lært meira af hruninu heldur en stjórnmálamenn- irnir. Þegar rætt er við þá sem stóðu nálægt land- stjórninni á árunum 2009-2013, þegar fyrsta ómengaða vinstri stjórnin sat að völdum, verður ljóst að í þeim hópum standa eftir vonbrigði vegna eins þáttar þessara mála umfram aðra, þ.e. að rík- isstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi mistekizt að slá skjaldborg um heimilin í landinu eins og ljóst má vera af þeim fjölda fjölskyldna sem misstu heimili sín og nefnt var hér að framan. Nú er ekki tilefni til að hafa uppi ásakanir á einn umfram annan af því tilefni. Sú ríkisstjórn tókst á við eitt erfiðasta verkefni sem nokkur ríkisstjórn hefur fengið í fangið á lýðveldistímanum. Það breyt- ir hins vegar ekki veruleika málsins. Og þar er áreiðanlega að hluta til komin skýring á þeirri djúpstæðu reiði sem enn má finna í sam- félaginu vegna þessara atburða. Endurreisninni verður ekki að fullu lokið fyrr en það sálræna og tilfinningalega tjón hefur verið bætt. Framundan er meiri háttar uppgjör í samfélagi okkar vegna kjaramála, þar sem „sjálftaka“ sumra þjóðfélagshópa eftir hrun mun koma við sögu. Aug- ljóst er að húsnæðismálin munu verða þar í brenni- depli. Staðan á þeim vettvangi hefur ekki verið jafn slæm og nú í um 60 ár. Fólk getur hvorki keypt né leigt. Að auki eru vísbendingar um, að það séu ekki bara bygging- arverktakar og leigufélög í eigu fjármálafyrirtækja, sem þar eigi hlut að máli heldur séu stærri sveitarfélög, jafnvel undir stjórn vinstri manna(!), að hagnast óhóf- lega á þessari stöðu. Húsnæðismálin verða áreiðan- lega lykilþáttur í lausn kjaramála á næstu mánuðum og misserum og þar má ýmislegt læra af fyrri tíð, svo sem kjarasamningunum sumarið 1965, þegar samið var um byggingu Breiðholtsíbúðanna. En það er umhugsunarefni fyrir ríkisstjórnina, hvort hún eigi kannski að íhuga ábendingar þeirra tveggja ráðstefnugesta sem hér hefur verið vitnað til og setja af stað vinnu, strax í sumar, til þess að taka saman ítarlega skýrslu um afleiðingar hrunsins fyrir heimilin í landinu og hvort síðbúnar aðgerðir til að mæta þeim afleiðingum geti komið hér við sögu. Auðvitað var ýmislegt gert á þeim tíma eins og menn muna en það var bersýnilega ekki nóg. Frá hruni hafa verið starfandi hér samtök sem hafa ekki átt auðvelt með að ná athygli stjórnvalda, þ.e. Hagsmunasamtök heimilanna. Það gæti verið skynsamlegt fyrir ráðherra að tala við það fólk sem þar starfar, hlusta á það og bregðast við. Í grunninn snúast þær athugasemdir sem hér hefur verið vitnað til um þetta: Af hverju er sjálfsagt að rannsaka hrun banka? Af hverju er sjálfsagt að rannsaka hrun sparisjóða? Af hverju er sjálfsagt að rannsaka Íbúðalánasjóð? En af hverju er ekki sjálfsagt að rannsaka hrun heimilanna? Þessar athugasemdir eru réttmætar. Þær hafa að sjálfsögðu komið fram áður með ýmsum hætti. En á þær hefur ekki verið hlustað. Ef ráðamenn þjóðarinnar hafa vit á að hlusta nú getur það greitt leið þeirra út úr öngstræti, sem þeir eiga sjálfir mestan þátt í að hafa komið sér í. Tími kominn til að hlusta Málflutningur Hagsmunasamtaka heimilanna verðskuldar athygli Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is Þótt enskan sé auðug að orðum,enda samruni tveggja mála, engilsaxnesku og frönsku, á hún að- eins eitt og sama orðið, „pride“, um tvö hugtök, sem íslenskan hefur eins og vera ber um tvö orð, stolt og hroka. Þess vegna er sagt á ensku, að „pride“ sé ein af höfuðsyndunum sjö. Íslendingar myndu ekki segja það um stolt, sem hefur jákvæðan blæ, þótt þeir myndu vissulega telja hroka vera synd. Ég minnist á þetta vegna þess, að íslenska þjóðin fylltist stolti vegna frábærs árangurs landsliðsins í knattspyrnu síðustu tvö árin. Íslend- ingar eru fámennasta þjóð, sem keppt hefur til úrslita í heimsmótinu í knattspyrnu. En hvers vegna fyllt- umst „við“ stolti? Vegna þess, að okkur finnst við eiga eitthvað örlítið í sigurgöngu íslenska landsliðsins. Þótt liðsmennirnir, þjálfararnir og aðrir hlutaðeigendur hafi vissulega unnið sigrana, en ekki við hin, deilum við öll með þeim einhverju sérstöku, kunnuglegu og dýrmætu, þótt það sé ekki beinlínis áþreifanlegt: Þjóðerni. Spekingar fræða okkur á því, að þjóðernisvitund sé mannasetning frá nítjándu öld. Hvað sem öðrum líður, á það ekki við um Íslendinga. Við höfum frá öndverðu verið sérstök þjóð. Snemma á elleftu öld var Sig- hvatur Þórðarson skáld staddur í Svíþjóð, og hafði kona ein orð á því, að hann væri svarteygur ólíkt mörg- um Svíum. Orti þá Sighvatur, að hin íslensku augu sín hefðu vísað sér langt um „brattan stíg“. Enn kvað hann, að hann hefði gengið „á fornar brautir“, sem ókunnar væru viðmæl- andanum. Um svipað leyti, árið 1033, gerðu Íslendingar fyrsta alþjóða- samning sinn, og var hann við Nor- egskonung. Spekingar vara okkur líka við hroka. En stolt er ekki hroki og þjóð- rækni ekki þjóðremba. Um eitt minnir lífið á knattspyrnuleik: Stundum hittum við í mark og stund- um fram hjá, öðru hvorum megin. Fyrir bankahrunið 2008 gætti nokk- urs hroka með sumum Íslendingum, en eftir það virtust sumir vilja miða fram hjá markinu hinum megin og gera minna úr þjóðinni en efni standa til. Við hittum í mark með því að vera þjóðræknir heimsborgarar, stolt af þjóð okkar án lítilsvirðingar við aðra, hvorki hrokagikkir né und- irlægjur. Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar Hannes H. Gissurarson hannesgi@hi.is Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð Stolt þarf ekki að vera hroki SUMARBLÓMA ÚTSALA 20-50% afsláttur

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.