Skírnir - 01.09.2016, Page 4
Frá rit stjór a
Afmælisár Hins íslenska Bókmenntafélags setur að þessu sinni nokkurn svip á efni
Skírnis, eins og vera ber. Jón Sigurðsson forseti fer yfir sögu þessa tveggja alda gamla
félags og minnir jafnframt á brýnt erindi þess í samtímanum. Því mætti jafnvel halda
fram að aldrei í þessari 200 ára sögu hafi legið jafnmikið við að allir haldi vöku sinni
og leggist á eitt í baráttunni fyrir framhaldslífi íslenskrar tungu — sem verið hefur
kjarninn í starfsemi Bókmenntafélagsins frá upphafi. Framtíð tungunnar gæti oltið
á því hvort íslenskan verði góð og gild í þeirri stafrænu framtíð sem blasir við — að
öðrum kosti mun örugglega illa fara. Það mikilvæga verkefni, að gera íslenskuna
gjaldgenga á þeim vettvangi, „kann að ráða úrslitum um það hvort komandi
kynslóðir nota íslensku daglega í sínu nánasta umhverfi – sem er forsenda þess að hún
lifi af á nýrri öld,“ segir Jón forseti í grein sinni, og undir það skal heilshugar tekið.
Íslensk tunga er einnig umfjöllunarefni greinar Auðar Hauksdóttur, Björguðu
Danir íslenskunni? þar sem minnt er á mikilvægt framlag Dana til endurreisnar tung-
unni, sem er tímabært þar sem langt fram eftir tuttugustu öld var einungis minnst á
Dani og íslensku í tengslum við „dönskuslettur“ — sem amast var við.
Annað efni í heftinu er að vanda einkum bókmenntalegt og þjóðfélagslegt. Þar
má nefna að Svanur Kristjánsson lýkur hér sinni miklu úttekt á forsetaferli Ólafs
Ragnars Grímssonar, og er enginn vafi á því að hans ítarlega greining á orðum og at-
höfnum forsetans mun verða afar mikilvæg í frekari rannsóknum á þessum um-
brotatímum í íslensku þjóðlífi. Þá á Valur Ingimundarson hér afar upplýsandi grein
um eitt umdeildasta, og að margra mati ískyggilegasta, einkenni okkar tíma — upp-
gang popúlisma og fasisma í evrópskum stjórnmálum.
Síðustu ár hafa svokölluð sjálfsævisöguleg verk verið mjög í sviðsljósi hinnar
alþjóðlegu bókmenntaumræðu. Þessa hefur einnig séð stað í íslenskum bókmennt -
um, eins og Gunnþórunn Guðmundsdóttir fer yfir í grein sinni í heftinu. Álfatrú
kemur enn við sögu í okkar samtíma, eins og fram kemur í grein Bryndísar Björg-
vinsdóttur, þar sem víða er leitað fanga og nýju sjónarhorni beitt á gamalkunnugt
fyrirbæri. Ingi Björn Guðnason leitar svo á vit íslensku sveitasögunnar og ber þá hefð
saman við nýlega sveitasagnaþríleik Jóns Kalmans Stefánssonar.
Finnur Dellsén fjallar um sígilt heimspekilegt viðfangsefni; gagnrýna hugsun og
kallast á við skrif Páls heitins Skúlasonar um það efni sem hafði mikil áhrif á sínum
tíma. Þá nálgast Þórður Harðarson eitt atriði gamallar sögu, nánar tiltekið útlit Þor-
kels skinnvefju úr Bárðar sögu Snæfellsáss, frá læknisfræðilegu sjónar horni.
Í Myndlistarþættinum fjallar að þessu sinni Þórdís Elva Þorvaldsdóttir um
Hlaðgerði Íris Björnsdóttur, en skáld Skírnis er Hallgrímur Helgason með fjögur
ný ljóð.
Páll Valsson