Skírnir - 01.09.2016, Page 12
ingu á Íslandi og umfram allt að hefja íslenska tungu til vegs og
virðingar á ný.
Rasmus Kristján Rask
Helsti hvatamaður að stofnun Bókmenntafélagsins og fyrsti forseti
Kaupmannahafnardeildar þess, danski málfræðingurinn Rasmus
Kristján Rask, kom til Íslands í ágúst 1813. Hann hafði á unglings-
árum numið íslensku af bókum og tekið ástfóstri við málið, en
hugðist nú heyra hvernig það hljómaði af vörum þjóðarinnar.
Tveimur árum fyrir Íslandsförina, árið 1811, hafði fyrsta meiriháttar
fræðirit Rasks komið út á prenti í Kaupmannhöfn, Vejledning til
det Islandske eller gamle nordiske Sprog. Þetta rit var upphafið að
glæstum fræðaferli Rasks, með því gaf hann Íslendingum sína fyrstu
formlegu málfræði og skipulega heildarlýsingu á íslenskri tungu.
Vejledning Rasks varð fyrirmynd íslenskra málfræðibóka allt fram
á 20. öld. Meðan Rask dvaldist á Íslandi 1813–1815 lauk hann við rit-
gerð sem nefndist Undersøgelse om det gamle nordiske eller is-
landske Sprogs Oprindelse. Ritgerðin, sem kom ekki út á prenti fyrr
en 1818, fékk verðlaun Hins konunglega danska vísindafélags, en
það hafði efnt til ritgerðasamkeppni um þetta efni. Undersøgelse
Rasks var brautryðjandaverk og mikilvægt stofnframlag hans til
nýrrar fræðigreinar í málvísindum, samanburðarmálfræði, sem
færði honum heimsfrægð í fyllingu tímans.Kynni Rasks af íslenskri
tungu hófust þegar hann á menntaskólaárum braust í gegnum
Heimskringlu á íslensku af eigin rammleik og dró á þeim grunni
upp mynd af málfræði tungunnar af mikilli skarpskyggni án þess
að þvinga hana inn í fastmótað málfræðilegt líkan, fengið frá öðrum
tungumálum og málfræðingum. Segja má að þessi kynni hafi lokið
upp fyrir honum aðferð til þess að greina öll tungumál veraldar.
Íslenskan var sú tunga sem hann bar öll önnur heimsins tungumál
saman við.
Rask ferðaðist víða um land á árunum 1813–1815 og dvaldist
um tíma í Reykjavík. Á ferðum sínum um landið varð hann margs
vísari um ástand íslenskunnar. Honum virtist tungan í bráðri hættu,
einkum í Reykjavík. Í bréfi til vinar síns, Bjarna Þorsteinssonar sem
síðar varð amtmaður á Íslandi, spáði Rask því 1813 að íslenskan dæi
248 jón sigurðsson skírnir