Skírnir - 01.09.2016, Page 14
með ríkri áherslu á þjóðlegan menningararf, bókmenntir og sögu
sem óx ásmegin í þann mund sem Bókmenntafélagið var stofnað.
Það er athyglisvert að þegar á fyrsta starfsári sínu 1816 hóf
félagið útgáfu ársrits sem fræddi landsmenn um helstu viðburði
utan lands og innan. Ritið nefndist Íslenzk sagnablöð og kom út á
hverju ári fram til 1826, en þá tók Skírnir— tímarit félagsins — við.
Frá upphafi hefur það verið tilgangur Bókmenntafélagsins —
eins elsta forlags landsins sem enn starfar — „að ala önn fyrir að
skráðar verði bækur og prentaðar, er þarflegar virðast almenningi,
og enn fremur efla vísindi Íslendinga á allan hátt sem það best getur“
eins og segir í lögum þess. Enda þótt félaginu væri ekki sérstaklega
ætlað að gefa út fornrit fór þó svo að Sturlunga og Saga Árna bisk-
ups Þorlákssonar varð auk Sagnablaðanna það rit sem félagið gaf
fyrst út. Hófst sú útgáfa 1817 og lauk 1820. Þegar ári eftir að Sturl-
unguútgáfunni var lokið réðst félagið í það stórvirki að gefa út
Árbækur Espólíns, og var sú útgáfa stefnumarkandi fyrir framtíðina
því að félagið gaf síðar út ýmis mikilvæg safnrit um sögu Íslands og
sögulegar heimildir.
Bókmenntafélagið varð mikilvægur starfsvettvangur þeirra manna
sem hrundu af stað baráttunni fyrir auknu sjálfræði þjóðarinnar á
fyrri hluta 19. aldar. Grundvallarstefna þeirra var að reisa við inn-
lendar menntir og menningu undir forystu Íslendinga sjálfra þannig
að íslensk þjóðmenning yrði virkt afl í sókn þjóðarinnar til framfara
og sjálfsforræðis. Í forsetatíð Jóns Sigurðssonar í Hafnardeild Bók-
menntafélagsins frá 1851 til 1879, sem markaði djúp spor í sögu
þess, stóð það fyrir útgáfu stjórnartíðinda og landshags skýrslna
fyrir Ísland við hlið fjölbreyttrar bókaútgáfu á ýmsum sviðum
fræða og skáldskapar. Á þessum árum hófst einnig útgáfa annarra
stórra safnrita eins og Safns til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta
og Íslenzks fornbréfasafns sem enn eru við lýði.
Félagið hefur alla tíð lagt sérstaka rækt við sögu landsins, tungu
þess og bókmenntir, en um leið freistað þess að tengja Íslendinga við
hið besta í menntum og vísindum annarra þjóða. Glöggt dæmi um
þessa viðleitni er útgáfa Lærdómsrita Bókmenntafélagsins sem hófst
árið 1970 undir ritstjórn Þorsteins Gylfasonar, sem ásamt forseta
félagsins, Sigurði Líndal, var einn helsti hvatamaður að þeirri út-
250 jón sigurðsson skírnir