Skírnir - 01.09.2016, Síða 25
261varðmaður gamla íslands
Útrásarforsetinn hafði fengið annað tækifæri. Ýmis ljón voru
samt fram undan í upphafi nýs kjörtímabilis. Stærsti þröskuldur-
inn var ríkisstjórnin í landinu — sem reyndar stóð höllum fæti.
Aðildarumsóknin að Evrópusambandinu og Icesave-málið leiddu til
klofnings innan VG.5 Landsdómsmálið skildi eftir sig djúp sár í
þingflokki Samfylkingar. Í apríl 2011 var vantraust á ríkisstjórnina
naumlega fellt: 30 þingmenn greiddu atkvæði með vantrausti en
knappur meirihluti, 32 þingmenn, studdu ríkisstjórnina. Einn þing -
maður stjórnarandstöðunnar, Guðmundur Steingrímsson Fram-
sóknarflokki, sat hjá. Haustið 2012 var ríkisstjórnin orðin minni -
hlutastjórn sem gat ekki treyst á meirihluta á Alþingi til að fram-
fylgja stefnumálum sínum. Haustið 2012 stóð ríkisstjórn Samfylk-
ingar og VG því veikburða frammi fyrir óformlegu bandalagi
stjórnar andstöðuflokkanna og forseta Íslands.
Ástandið í stjórnmálum landsins var nánast orðið hið sama og
rétt eftir hrunið. Traustið á ríkisstjórninni, Alþingi og stjórnmála-
flokkum almennt var í algjöru lágmarki. Nær tveir þriðju kjósenda
töldu að ríkisstjórnin legði meiri áherslu á afkomu banka en heimil -
anna í landinu. Alþingi naut einungis trausts um 8% kjósenda og um
16% treystu ríkisstjórninni. En vantraustið náði einnig til stjórnar-
andstöðunnar; enn færri (15%) treystu henni en ríkisstjórn inni, ein-
ungis um þriðjungur fólks taldi að stjórnarandstaðan myndi stjórna
landinu betur en ríkisstjórnin, en yfir 40% voru á öndverðum meiði
(„Rétt um 13% sammála …“ 2012; „Fylgi flokka ef kosið yrði …“
2012).
Alþingi var sett 11. september 2012 og forseti Íslands flutti að
venju ræðu. Málflutningur forsetans bar þess glöggt vitni að hann
gerði sér fulla grein fyrir hinu alvarlega ástandi í landinu, enda hafði
Alþingi verið kallað saman fyrr en vanalega vegna ótryggs ástands
skírnir
5 Sjá m.a. Björn Þór Sigurbjörnsson 2013: 197–209. Vinstri hreyfingin – Grænt
framboð fékk 14 þingmenn kjörna í alþingiskosningum 2009. Á kjörtímabilinu
sögðu fjórir þingmenn síg úr þingflokknum: Atli Gíslason (úrsögn 21. mars 2011),
Lilja Mósesdóttir (úrsögn 21. mars 2011), Ásmundur Einar Daðason (úrsögn 13.
apríl 2011), Jón Bjarnason (úrsögn 8. janúar 2013). Einn þingmaður flokksins,
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, afsalaði sér þingmennsku (15. janúar 2013) en Þrá-
inn Bertelsson, þingmaður Hreyfingarinnar, gekk í þingflokk VG 8. september
2010.