Skírnir - 01.09.2016, Side 71
307vitnisburður um veruleikann
færa á Ósjálfrátt (2012) eftir Auði Jónsdóttur þar sem fyrir koma
ýmis sömu þemu og svipaðar persónur og í bók hennar Fólkið í
kjallaranum (2004). Pétur Gunnarsson lýsir í Veraldarsaga mín:
Ævisaga hugmynda (2014) þó nokkrum atvikum og fyrirbærum
sem við þekkjum í öðru formi í Andrabókunum, einkum úr Per-
sónum og leikendum (1982) og Sögunni allri (1985). Í þessum til-
vikum er þá verið að skoða dæmið upp á nýtt, en nú á einhvern hátt
utan skáldsagnaformsins, með sterkari vísunum til eigin upplifunar
og sýnar á atburðina, svo úr verður samtal milli þessara tveggja
forma — sjálfsævisögu og skáldsögu.
Í mörgum sjálfsævisögulegum textum er vakin athygli á skrif-
unum sjálfum eða spurningunni eilífu um það hvernig maður fari nú
að því að koma lífinu, sjálfinu, veruleikanum á bók? Sigurður Páls-
son lýsir í öðru bindi í minningarbókaþríleik sínum, Bernskubók
(2011), að hann hafi ungur uppgötvað að hlutskipti skrásetjarans sé
algjörlega óviðráðanlegt:
En með því að skrásetja er alltaf að einhverju leyti verið að frysta rás tím-
ans, það er álíka vonlaust og stífla rennandi vatn. Það heldur áfram að renna,
safnast upp og ryður stíflunni úr vegi. Þessi piltur sem ég var, hann gat ekki
lengur lifað lífinu vegna þess að hann var að skrifa lífið, reyna að ná utan um
framvindu atburða, lítilla og stórra atvika. (Sigurður Pálsson 2011: 208)
Sögumaðurinn í 1983 eftir Eirík Guðmundsson (2013) lendir í svip -
uðum vanda þegar hann ákveður að gerast ‚ritari‘ vinar síns, Tvists,
til þess að aðstoða hann í baráttunni við gleymskuna (Eiríkur
Guðmundsson 2013: 85).7 Skrásetjari og kortleggjari (því hann
vinnur líka að miklu korti af bænum) hefur vald yfir heiminum,
hann getur strokað út það sem honum ekki líkar, látið snjókorn
falla, fjarlægt fjöll og fólk. Það þarf einhvern veginn að festa lífið
niður áður en það svífur burt með loftbelg og sögumaður hefur
fundið leið til þess í skrifunum: „Ég hef áttað mig á því að það að
lifa er að færa lífið til bókar“ (96), en sér þó fyrir sér sömu vandræði
skírnir
7 Hér er ég ekki að flokka verk Eiríks sem sjálfsævisögu; hins vegar hafa verk hans
allt frá 39 þrep á leið til glötunar frá 2004 haft mjög sterkar vísanir í heim utan
texta, sögumaðurinn gjarnan einhvers konar alter ego höfundar og atburðir og
fólk eiga sér iðulega speglanir í samtímanum.