Skírnir - 01.09.2016, Page 76
yfirborðinu. Það er alveg ljóst að atvikið mótaði ekki einungis per-
sónuleika hennar og sálarlíf, heldur einnig skrifin. Engin skáld
höfðu jafnmikil áhrif á skáldskap hennar og „tveir vondir menn
höfðu fyrir fimmtíu árum þegar þeim tókst með illsku sinni og
græðgi að tæma gleðina og traustið úr barnslegu brjósti mínu“
(131).
Hallgrímur Helgason skrifar einnig um misnotkun í Sjóveikur í
München (2015) sem hann hefur þagað lengi um eða í þau rúm 30
ár sem liðin eru frá atburðinum. Rammi bókarinnar er einn vetur í
lífi hans, þegar hann er ungur maður að leggja af stað út í lífið, lykil-
tími sem varð þó að einhverju allt öðru en lagt var upp með og lýsir
textinn þessu samstuði væntinga aðalsöguhetjunnar og veruleikans
— og jafnframt mætti lýsa lestrarreynslunni þannig líka, hefð -
bundn um væntingum til sögunnar um unga manninn sem heldur
út í heim er ekki mætt — veruleikinn er annar. Sögur af áföllum og
erfiðri reynslu eru algeng fyrirbæri í menningu okkar og snar þáttur
í minningabókasprengjunni eins og nefnt var hér að ofan. Slíkar
bókmenntir eru hins vegar ekki endilega hátt skrifaðar og slík
viðhorf til reynslusagna eða játningabókmennta komu óneitanlega
upp í hugann í umræðunni sem átti sér stað hér á landi fyrir jólin
2015 þegar bækur Hallgríms Helgasonar, Jóns Gnarr (Útlaginn) og
Mikaels Torfasonar (Týnd í paradís) voru spyrtar saman í hóp til-
finningasölukláms.9 Þær umræður voru ekkert sérlega upplýsandi
um verkin sem um ræðir, en sögðu manni þó nokkuð um hvar
sjálfsævisagan er metin í stigveldi bókmenntanna. Ekki síður var at-
hyglisvert að sjá hvernig það virðist horfa öðruvísi við í umræðunni,
þegar karlmenn segja reynslusögur, en sögur kvenna af svipaðri
reynslu.
Í verkum sem lýsa áföllum og tráma er oft vakin athygli á þeirri
sjálfsmyndarkreppu sem slíkt skapar. Vigdís lýsir því sem svo að
hún hafi klofnað í tvennt, Jón Gnarr lýsir því sem svo að hann hafi
misst þá litlu sjálfsmynd sem mótuð hafði verið í kjölfar aðgerðar á
312 gunnþórunn guðmundsdóttir skírnir
9 Miklar umræður sköpuðust í athugasemdakerfum og á samfélagsmiðlum, einkum
í kjölfar tveggja greina; önnur var eftir Óttar Guðmundsson (2015) og hin eftir
Guðberg Bergsson, DV 27. október 2015. Sú grein er ekki lengur aðgengileg á vef
DV.