Skírnir - 01.09.2016, Page 82
Þetta er ekki félagsleg eða pólitísk úttekt á vanda götufólks í
Andalúsíu, heldur einmitt frekar ferðasaga; sögumaður er nokkurs
konar túristi í heimi götunnar — og eins og túristi er hann kallaður
eftir landi sínu, Íslendingurinn. Ávallt er eitthvert fyrirheitna land
í augsýn, eins og Kanaríeyjar, sem hverfur svo sjónum þegar sveigt
er af leið — oft fyrir einhvern misskilning, fávísi eða óheppni hjá
okkar manni. Það er þó ekki fyrr en á síðustu síðunum þegar hann
lýsir því að hann hafi gert aðra tilraun að þessu líferni seinna á lífs-
leiðinni og þá hafi þrotið úthald: „Allar hugsanlegar útgáfur af
mannlegri eymd lögðust á mig eins og mara, þær drógu mig niður.
Lömuðu mig“ (Þórarinn Leifsson 2011: 274). Þroski og þekking
hefur leitt það af sér að hann getur ekki leikið túristann lengur og
því ekki stikkfrí frá eymdinni.
Mörg verkanna sem hér um ræðir tilheyra þeim flokki bók-
mennta sem reyna að svara spurningunni ‚hvernig varð/verð ég rit-
höfundur?‘ Þroskinn felst þá fyrst og fremst í þeim stiklum og
vendipunktum sem leiða til hins skrifandi sjálfs. Sigurður (2007: 17–
18) segist í Minnisbók hafa verið fimm ára þegar hann ákvað hvað
hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór: „… gull- og silfursmiður,
listmálari, rithöfundur […] svona var lífið bara, þetta voru mín
örlög“.12 Í Veraldarsögu Péturs lýsir hann fæðingu ljóðskáldsins,
frekar en skáldsagnahöfundarins sem síðar varð ofan á, birtir ljóð í
ákveðnum tengingum, og ræðir lestur og bókmenntir í sköpunar-
sögu höfundarins. Þannig eru höfundar búnir til úr bókum og búa
svo að lokum til bók úr sjálfum sér. Gegnumgangandi í Ósjálfrátt
er skáldsagan sem er í smíðum, en þar eru ekki endilega aðrir höf-
undar og aðrar bókmenntir sem eru helstu áhrifavaldar heldur þörf
fyrir skrif og þörf fyrir skilning sem skrifin geta mögulega fært
manni. Eyja rifjar upp viðtal sem tekið var við hana þegar hún gaf
út skáldsögu þar sem blaðamaðurinn spurði „hvort hún skrifaði út
af afa sínum“. Svarið sem hana langar allra helst gefa en gerir ekki
er lykill að öllu saman: „Ég er ekki rithöfundur af því afi minn fékk
bókmenntaverðlaun heldur af því að mamma mín er alkóhólisti“
(Auður Jónsdóttir 2012: 75).
318 gunnþórunn guðmundsdóttir skírnir
12 Einnig nefnt í Bernskubók (Sigurður Pálsson 2011: 103).