Skírnir - 01.09.2016, Page 88
Charles Sanders Peirce, „The Fixation of Belief“. Í þessari grein
ræðir Peirce (1955 [1877]) fjórar ólíkar aðferðir við að mynda sér
skoðun. Í útleggingu Páls nefnast þessar fjórar leiðir þrjóskuleiðin
(e. method of tenacity), kennivaldsleiðin (e. method of authority),
fordómaleiðin (e. a priori method) og leið vísindalegrar aðferðar
(e. method of science).5 Páll leggur síðastnefndu leiðina strax að
jöfnu við gagnrýna hugsun, en það er nokkuð sem við Róbert erum
sammála um að sé ekki alls kostar rétt. Áður en við víkjum að þessu
þurfum við þó að gera grein fyrir því hvað felst í þessum fjórum
leiðum að mati Páls og Peirce.
Páll segir að sá sem fylgir þrjóskuleiðinni myndi sér skoðun með
því að „ákveða að trúa staðfastlega því sem manni fellur fyrst í geð“
(Páll Skúlason 1987: 87). Kennivaldsleiðin felst á hinn bóginn í því
að „láta ríkið eða einhverja stofnun ákveða hverju við eigum að trúa
og hvaða skoðanir séu réttar“ (Páll Skúlason 1987: 88), meðal ann-
ars með áróðri og innrætingu frá unga aldri og með því að bæla niður
andstæðar skoðanir. Hvorug þessara tveggja leiða virðist vel til þess
fallin að leiðbeina okkur um hvernig við eigum að mynda okkur
sannar eða rökstuddar skoðanir.6 Þriðja leiðin til skoðanamyndunar,
fordómaleiðin, felst samkvæmt Páli í því að „mynda sér skoðun í
samræmi við það sem fólki finnst eðlilegast, eða nánar sagt: að
mynda sér skoðun í sem bestu samræmi við þær skoðanir sem maður
hefur þegar“ (Páll Skúlason 1987: 89). Þó að Páll kenni þessa leið við
fordóma í þýðingu sinni7 gæti þessi leið virst nokkuð vænleg við
324 finnur dellsén skírnir
5 Til hægðarauka mun ég stundum vísa til þessarar leiðar með orðunum „vísinda-
leg aðferð“.
6 Pragmatistinn Peirce tekur reyndar fram að þessar leiðir hafi líka ýmsa praktíska
kosti sem mikilvægt sé að huga að. Til dæmis stuðli kennivaldsleiðin að friðsemd
í samfélaginu og þrjóskuleiðin sé aðdáunarverð fyrir þær sakir að hún stuðli að
skjótri og staðfastri ákvarðanatöku. Engu að síður telur Peirce að við getum ekki
fylgt þessum leiðum ef við ætlum okkur að hafa „hreina röklega samvisku“ (Peirce
1955 [1877]: 20–21).
7 Rétt er að taka fram í þessu samhengi að hugtakið sem Peirce notar sjálfur,
„a priori method“, hefur ekki sömu neikvæðu skírskotun í huga flestra lesenda
og þýðing Páls á hugtakinu, „fordómaleiðin“. Vel má vera að Páll hafi hér verið
undir áhrifum túlkunarfræðinga á borð við Gadamer og Ricœur sem notuðu orðið
„fordómar“ í mun jákvæðari merkingu. (Ég vil þakka ritrýni Skírnis fyrir að benda
á þetta atriði)