Skírnir - 01.09.2016, Page 89
325gagnrýnin og vísindaleg hugsun
fyrstu sýn, og Páll tekur fram að hún sé „mun fræðilegri en hinar
tvær“ og reyndar líka „meira í anda almennrar skynsemi“ (Páll
Skúlason 1987: 90). Þeir sem til þekkja í sögu heimspekinnar sjá fljótt
að hér gæti Peirce verið að lýsa eins konar rökhyggju (e. rationalism)
sem leggur áherslu á að hægt sé að öðlast þekkingu a priori — eða
án þess að beita skilningarvitunum — og er sá grunur staðfestur
þegar nánar er að gáð í grein Peirce.8 Páll fylgir samt Peirce í því að
gagnrýna fordómaleiðina fyrir það að skoðanir okkar muni skorta
traustar undirstöður og verða þess í stað undirorpnar smekk, tísku
og ólíkum lífsviðhorfum. Vert er að benda á að hvorki Páll né Peirce
hafa neitt út á samræmi að setja, að minnsta kosti ekki sem slíkt.
Það sem þeir gagnrýna er sú hugmynd fordómaleiðarinnar að fólk
skuli byggja skoðanir sínar á forsendum sem það telur sjálfljósar. Við
vitum enda að mörgum „sjálfljósum“ sannindum hefur verið varpað
á ruslahauga sögunnar — til dæmis þótti sjálfljóst að efnislegt rúm
uppfyllti frumsendur Evklíðs þar til Albert Einstein gjörbylti hug-
myndum okkar þar um í almennu afstæðiskenningunni.
Fjórða leiðin, leið vísindalegrar aðferðar, byggir hins vegar á
„forsendum sem eru algerlega óháðar því hvað við höldum eða
okkur finnst“ (Páll Skúlason 1987: 90). Páll segir ekki mikið meira
um hina vísindalegu aðferð, en þetta atriði skýrist þegar við leitum
til Peirce. Samkvæmt Peirce byggist vísindaleg aðferð á empirískum
rannsóknum eða reynslugögnum — athugunum, tilraunum og þess
háttar. Skynjun og reynsla eru akkerið sem festir skoðanamyndun
okkar við raunveruleikann og veita henni hlutlægni í krafti þess að
vera óháð skoðunum hvers og eins (Peirce 1955 [1877]: 18). Nú hafa
svo sem ýmsar efasemdir verið settar fram hin síðari ár um hvort
skynjun og reynsla séu í raun jafn óháðar skoðunum okkar og
Peirce gerði hér ráð fyrir, og er í því samhengi talað um að reynslu-
gögn séu oft eða jafnvel iðulega kenningahlaðin (e. theory-laden).9
skírnir
8 Í mjög langri neðanmálsgrein fjallar Peirce (1955 [1877]: 16–17) um ólík rök-
hyggjukerfi Descartes, Kants og Hegels og útlistar af hverju hann telur að hugsun
þessara heimspekinga falli undir fordómaleiðina.
9 Hugmyndir af þessu tagi eru yfirleitt raktar til vísindaheimspekinga á borð við
Norwood Russell Hanson (1958), Paul Feyerabend (1959) og Thomas Kuhn (2015
[1962]).