Skírnir - 01.09.2016, Page 128
náttúru þar sem munnlegar eða skriflegar sagnir herma að álfar eða
huldufólk búi. Áhrif þessarar hjátrúar birtast þá annaðhvort í
staðsetningu eða útliti mannvirkjanna, eða einmitt í því að ekki má
hrófla við ákveðnum landsvæðum innan bæjar- eða borgarmarka,
eða í túnfætinum, og þannig er komið í veg fyrir að land sé nýtt
undir byggingar, leikvelli eða annað sem manneskjunni kann að
detta í hug.
Miðpunktur flestra álfasagna nú á tímum er sjálf náttúran sem
álfarnir tilheyra og vilja standa vörð um, einna helst þegar maður-
inn ætlar að stíga þar niður fæti. Í álfasögum er manninum gjarnan
stillt upp andspænis þessari villtu og óspjölluðu náttúru — nánast
sem andstæðingi hennar, einhverjum sem leitast við að brjóta hana
niður, hafa hana undir og temja. Andstæðan maður-náttúra kallar
gjarnan fram spennu í brjóstum okkar, spurningar vakna, hver
ræður yfir hverjum, og því er kannski engin tilviljun að greina má
þessi andstæðuvensl í mörgum nýlegum kvikmyndum þar sem ekki
er aðeins tekist er á við hina villtu náttúru, heldur fyrst og fremst
sjálfsmynd mannsins og þær hugmyndir sem hann hefur um náung-
ann.
Á mörkum hins mannlega
Móðir mín hefur ekki viljað gangast við einum forföður sínum en
aðrir hafa aftur á móti verið settir á stall. Þessi óvinsæli forfaðir
okkar er einn þekktasti fjöldamorðingi Íslands, Axlar-Björn. Mann-
æta. „Vampýra í mannsmynd,“ hefur hann verið kallaður (Matth-
ías Viðar Sæmundsson 1990: 329). Mamma vill ekki kannast við að
eiga forföður sem fengið hefur þetta viðurnefni og er þar með
staðsettur svo kyrfilega á jaðri þess mannlega — líkt og álfurinn eða
draugurinn er hann ekki álitinn fullkomlega mennskur.
Álfar, draugar og vampýrur eru ekki dýr. Þessar verur eru
heldur ekki fullveðja manneskjur, jafnvel þótt þær séu af manna-
kyni og hafi jafnvel eitt sinn verið menn. Þær skera sig meðal ann-
ars frá mannfólkinu að því leyti að þær hafa aðra rýmisgreind og
annað tímaskyn en fólk af holdi og blóði. Þær geta horfið sjónum
okkar og einnig lifa þær margfalt lengur en við mannfólkið – þó án
364 bryndís björgvinsdóttir skírnir