Skírnir - 01.09.2016, Page 134
ódýr húsgögn, ódýr klæði og svo framvegis. Þess vegna má einnig
spyrja þeirrar spurningar hvort álfarnir endurspegli samviskubit
mannsins, þar sem álfahólnum er stillt upp andspænis malbiki, jarð -
ýtum og útþenslu mannabyggða. Og spengilegum álfum í vönduð -
um klæðum er stillt upp andspænis skyndibitaóðum neytendum í
slæmu formi og nánast einnota fötum úr H&M.
„Þegar samfélag eða ákveðnir hópar þess þjást af sameiginlegum
áhyggjum eða átökum af einhverjum toga, þá verður þess jafnan
vart í þjóðfræðaefni, hvort sem það er í bröndurum, orðrómi eða
veggjakroti — eða sögnum, á borð við álfasagnir, “ ritar Valdimar
Tr. Hafstein (2003: 210) í grein sinni „Hjólaskóflur og huldufólk:
Íslensk sjálfsmynd og álfahefð samtímans“. Það er því kannski ekki
skrýtið að enn séu álfasagnir á sveimi, og þá sérstaklega þegar um
vega- eða byggingarframkvæmdir er að ræða þar sem náttúruspjöll
verða rétt við mannabyggð, en slíkum spjöllum er erfitt að líta
framhjá þar sem þau eru að segja má í túnfætinum. Því má segja að
þegar minnst er á álfa í sömu andrá og náttúruspjöll sé verið að fjalla
um samviskubit okkar — neysluna, óhófið og óvirðinguna. Kannski
spyrjum við okkur þá spurninga á borð við þessa: Hvar og hvenær
ætlum við að hætta að umbreyta náttúru í malbik og hringtorg?
Verðum við ekki að hætta áður en eitthvað slæmt gerist? Þessar
spurningar brenna sífellt á okkur þegar við blasa skelfilegar lofts-
lagsbreytingar og nýjar fréttir berast daglega af náttúrspjöllum á sjó
og landi — en þá má einnig spyrja hvort milda megi samviskubitið
og vanlíðanina með því að hlífa eins og einum álfasteini.
Hinir
Í áðurnefndri grein fjallar Valdimar Tr. Hafstein um það hvernig
álfatrú dagsins í dag endurspeglar hugmyndir okkar um hið gamla
íslenska sveitasamfélag. Greinina byggir hann á eigin rannsókn á
álfatrú samtímans og er helsta niðurstaða hennar sú að í álfatrúnni
minnumst við gamla sveitasamfélagsins sem nú er nánast horfið.
Valdimar setur álfatrú samtímans í samhengi við þær hröðu breyt-
ingar sem áttu sér stað á 20. öld, allt frá aldamótunum 1900 þegar Ís-
land var eitt fátækasta land Evrópu til þess tíma þegar hernámslið
370 bryndís björgvinsdóttir skírnir