Skírnir - 01.09.2016, Page 135
371að verða álfur — að verða norn
komu til landsins 1940 og upp hófust róttækar breytingar hvað
varðar efnahag, byggð, samgöngur og menningu sem varað hafa allt
til okkar daga. „Aftur á móti bera álfasagnir samtímans þess engin
merki að nokkur breyting hafi átt sér stað í álfheimum,“ skrifar
Valdi mar og bendir á að álfar samtímans beiti sér helst fyrir land-
vörnum og því að koma í veg fyrir að það sem tilheyri ríki nátt úru-
nnar sé fært yfir í mannheima. „Kraftbirtingar yfirnáttúrunnar,
þegar álfheimar láta til sín taka, sýna það sem er utan marka þessa
samfélags, það sem tilheyrir öðrum, ekki okkur — og um leið fáum
við betri hugmynd um hvað tilheyrir okkur og hver þessi „við“
erum“ (Valdimar Tr. Hafstein 2003: 200–205).
Annarleiki álfa er auðkenndur með því að þeir eru í góðum
tengslum við náttúruna, líkt og við ímyndum okkur að maðurinn
hafi sjálfur verið fyrr á tímum, áður en hann „spilltist“ og tapaði
tengslum við stokka og steina. Og fór þess í stað að horfa á raun-
veruleikaþætti í sérútbúnum sjónvarpsherbergjum og hanga á Net-
inu. Jafnframt eru álfarnir framandi en þó nágrannar „okkar“.
Staðirnir sem tilheyra þeim er ónumið land, hin villta ótamda nátt-
úra í eða við mannabústaði, borgar- eða bæjarmörk. Á þessum álfa-
byggðum hvílir bannhelgi og þar má því ekki eiga við neitt eða
breyta neinu (Valdimar Tr. Hafstein 2003: 200). Álfarnir tilheyra
að þessu leyti fortíðinni líkt og draugar, og annarleiki þeirra er að
miklu leyti fólginn í ólíkum skilningi þeirra og okkar á tíma og
ólíkum heimkynnum — líkt og þeir tilheyri ekki aðeins öðrum tíma
heldur einnig annarri vídd.
En annarleika má finna ansi víða. Í fréttum getum við greint
hvernig talað er um annarleika „hinna“ sem birtist meðal annars í því
að aðeins er talað um flóttamannastraum og flóttamannavanda
þegar „hinir“ verða að flýja heimkynni sín inn á „okkar“ svæði.
Margir óttast hvað kunni að gerast þegar „hinir“ halda inn í „okkar“
heimkynni, en þegar „við“ þurfum að flýja heimkynni okkar vegna
náttúruhamfara eða samfélagslegra aðstæðna er hins vegar talað um
neyðarástand, landnám, Vesturfara og annað í þeim dúr.
Annarleiki kvenna varð fyrr á öldum til þess að galdrafárið átti
sér stað í Evrópu þar sem morð á konum voru gerð réttmæt með því
að flokka tiltekinn hóp kvenna sem „óeðlilegar konur“ og þær voru
skírnir