Skírnir - 01.09.2016, Page 136
staðsettar á mörkun hins mannlega: Þær höfðu verið að blaða í
bókum, sækja sér vitneskju, stunda tilraunastarfsemi, ástunda listir
og svo framvegis. Þær ógnuðu íhaldssömum samfélagsgildum og
urðu þar af leiðandi ógnvænlegar, hættulegir nágrannar „okkar“ —
og loks „hinir“.
Gegnum tíðina hefur geðveikum einnig verið útskúfað úr mann-
legu samfélagi og þeir einangraðir og pyntaðir vegna meints annar-
leika. Sú hugmynd að hinir geðveiku séu óhreinir hefur einnig verið
áberandi; til dæmis tala Þjóðverjar um psychohygiene (geðhreinlæti)
þegar þeir tala um það sem við köllum geðheilbrigði. Þá er sú hug-
mynd algeng að geðveikir séu ekki einir og ekki heilir. Sem dæmi um
slíkt má nefna manninn sem leitar til Jesú og sagt er frá í Markús-
arguðspjalli. Sá býr ekki með fólki, hefur haft aðsetur í gröfunum og
er illa til reika. Hann hefur barið sig með grjóti. Hann hefur verið
bundinn eins og dýr en slitið sig lausan. Jesús spyr hann að nafni og
þá svara óhreinu andarnir í manninum: „Hersing heiti ég, vér erum
margir“ (Markúsarguðspjall 5.9).
Maðurinn í gröfunum er staðsettur kyrfilega á mörkum hins
mannlega, skítugur, blóðrisa og bundinn hefur hann haft aðsetur
meðal hinna dauðu, eins og draugur. Þessi dæmisaga sýnir vel þá
tilhneigingu vestrænna samfélaga að flokka fólk í „heilbrigt“ og
„óheilbrigt, „heilvita“ og „geðveikt“, „heilt“ og „klofið“, „æskilegt“
og „hættulegt“, en sannleikurinn er þó sá að við erum öll mörg
andstæðuvensl í einu, margbrotin og þversagnakennd. Það er að
segja, enginn einstaklingur er hreinn, heill, góður og óskiptur alla
ævi. Við erum öll mörg — og það birtist einna skýrast í þjóðtrúnni
þar sem hugmyndir fólks um huliðsheima endurspegla fyrst og
fremst það sjálft og þau samfélög sem þjóðtrúin tilheyrir og þrífst í.
Álfar, draugar og tröll eru verur sem við höfum notað sem
andstæðu „okkar“ eða þess sem á að teljast „eðlilegt“ hverju sinni.
Þannig notum við aðra heima til að afmarka okkar heim og það sem
er innan hans (Valdimar Tr. Hafstein 2003: 199). Álfar þykja
kannski vera „eðlilegri“ og þar af leiðandi „æskilegri“ en tröll og
draugar — eða flóttamenn í augum margra — þó álfar séu reyndar
samkvæmt flestum þjóðsögum skapvondir, hefnigjarnir, íhalds-
samir og göldróttir. Engu að síður virðast álfar vera mörgum kær-
372 bryndís björgvinsdóttir skírnir