Skírnir - 01.09.2016, Page 143
379að verða álfur — að verða norn
verið sérstakar og orðið að kennileiti. Það er yfirleitt í kringum
ákveðin kennileiti sem álfasögur verða til.
Ég pældi ekkert sérstaklega í álfasögunum í Hafnarfirði fyrr en
nýi vegurinn í gegnum Gálgahraun var lagður. Umræðan um álfa-
steinana varð fljótt á þann veg að sumir Íslendingar — og þá sér-
staklega álfasjáendur — væru geðveikir, en jafnframt var fjöl -
mörgum í nöp við veginn vegna þess að hann stefndi þvert í gegnum
fallegt hraun sem til þessa hafði fengið að standa ósnert. Rafmagn
fór nokkrum sinnum af Álftanesbæ meðan á framkvæmdunum stóð
og þær sögur gengu að vinnuvélar væru að bila (Svala Ragnarsdóttir,
munnleg heimild). Framkvæmdir töfðust. Þá mætti álfasjáandi á
svæðið, náttúruverndarsinnar mótmæltu og voru handteknir. Í þeim
hópi voru margir eldri borgarar sem lögreglan handjárnaði úti í
hrauni og þar á meðal hinn ástsæli sjónvarpsmaður Ómar Ragnars-
son. Allt þetta gerði það að verkum að umræðan um „geðveiki“
varð óáhugaverð í þessu samhengi. Hér var eitthvað annað á seyði
sem segir margt um sjálfsmynd fólks og samfélags, sögu þess og
hugmyndir, nostalgíu, sektarkennd, ósætti, kapítalisma, kynslóðir
og skilgreiningar á „annarleika“.
Í nokkra daga sat ég með japönskum þáttagerðarmönnum sem
vildu fræðast um álfatrú í sambandi við framkvæmdirnar í Gálga-
hrauni. Þegar ég ætlaði að segja frá vangaveltum mínum var ég vin-
samlega beðin um að tala minna og færa mig heldur nær álfa stein -
inum sem við stóðum við. Að lokum var ég beðin um að halla mér
upp að honum, leggjast ofan á hann og strjúka honum — banka á
hann líkt og mér þætti líklegt að einhver kæmi til dyra. Kannski átti
áhorfandinn heima í stofu að halda að ég héldi að það væri álfur í
steininum. Og þá rann allt í einu upp fyrir mér: Ég sjálf hafði um-
breyst í álf í augum þáttagerðarmannanna! Ég var orðin að framandi
veru á einangruðum stað, veru sem er svo nátengd hinni óspilltu og
villtu náttúru að hún bankar í steina og bíður þolinmóð eftir svari
á meðan aðrir rækta sitt tengslanet á Facebook og Twitter.
Ég heyrði tökumanninn segja við leikstjórann að hann væri
ánægður með síða ljósa hárið og bláu kápuna með loðkraganum því
hún væri svo „gamaldags“. Ég var orðin að einskonar 19. aldar álfi
og ætlunin var að sýna mig sem slíka í japönsku sjónvarpi. Jafnvel
skírnir