Skírnir - 01.09.2016, Page 144
þótt ég hefði útskýrt fyrir þeim að álfatrú væri í raun náskyld
draugatrú sem Japanir þekkja vel úr sínum heimahögum og varla
færu þeir að sýna manneskju sem rannsakað hefði draugatrú sem
draug — eða hvað?
Þar sem ég hallaði mér upp að álfasteininum fyrir framan
japanska upptökuteymið skildi ég fyrst af hverju svo margir, sem ég
þekki og hafa rannsakað álfatrú eða notað hana í listsköpun sinni,
hafa hætt að svara erlendum blaðamönnum, látið vera að hitta þá
– kosið að snúa sér að öðru. Vindhviða barst af hafi og hárið bærðist
í golunni.
„Já, flott, horfðu á steininn núna!“ hrópaði bandaríski túlkurinn
sem vann með teyminu. „Haltu áfram að strjúka honum og … og
horfðu eins og inn í steininn!“
Andstæðuvenslin höfðu haft mig undir. Komið aftan að mér.
Líklega eins og þeim fjölmörgu nornum sem brenndar voru fyrr á
tímum, eða allskonar fólki sem talið hefur verið geðveikt. Ég var
allt í einu orðin að þessari náttúrutengdu konu, tilfinningaveru í ríki
náttúrunnar. Jafnvel geðveik. Ég — sem hafði alltaf ranghvolft aug-
unum þegar fólk spurði hvort álfar sæjust á Íslandi — var sjálf orðin
að vel sýnilegum álfi í heimildamynd um Ísland. Álfatrúin er vissu-
lega í sífelldri mótun og nú hafði ég óvart gengið til liðs við hana.
Eins og „nornin“ sem gruflar í bókum, sækir sér þekkingu, heillast
og segir öðrum frá – en endar síðan á að verða ein af þeim.2
Heimildir
Ármann Jakobsson. 2003. Tolkien og hringurinn. Reykjavík: Forlagið.
Ármann Jakobsson. 2006. „The Extreme Emotional Life of Völundr the Elf.“ Scand-
inavian Studies 78: 1–28.
Ármann Jakobsson. 2015. „Flokkunarkerfi hins yfirnáttúrulega.“ Mæna 2015: 85–90.
Reykjavík: Listaháskóli Íslands.
Árni Óla. 1968. Álög og bannhelgi, Reykjavík: Setberg.
380 bryndís björgvinsdóttir skírnir
2 Höfundur vill þakka Svölu Ragnarsdóttur ljósmyndara fyrir samstarfið og hug-
myndina að rannsókninni sem þessi grein er m.a. byggð á, Ármanni Jakobssyni og
Valdimar Tr. Hafstein fyrir rannsóknir og skrif sín um efnið, innblástur og ábend-
ingar og Marteini Sindra Jónssyni fyrir innblástur, ábendingar og áhuga á efninu.