Skírnir - 01.09.2016, Page 147
383íslenska sveitasagan
fagurfræði varðar.4 Í þessari grein verður þróun sveitasögunnar, sem
bókmenntahefðar, rakin með tilliti til menningarlegra og þjóð -
félagslegra hræringa á Íslandi á þeim tíma þegar sveitin er enn vett-
vangur og viðmið í bókmenntalandslaginu. Jafnframt verður þrí -
leikur Jóns Kalmans settur í samhengi við þessa hefð og að lokum
gerð tilraun til að svara knýjandi spurningu sem sögumaður þrí-
leiksins varpar fram snemma í fyrstu bókinni, Skurðum í rigningu:
„… til hvers að skrifa um íslenska sveit á ofanverðri tuttugustu öld,
þegar borgir þenjast út, mannúðin skreppur saman?“ (Sír 14).
Svörin við þessari spurningu eru margvísleg og lúta að frásagnar-
hætti og formgerð þríleiksins en ekki síður að aðkallandi samtíma-
málum á borð við náttúruvernd og samfélagsbreytingar.
Rykormurinn leystur úr læðingi
„Maður verður að beygja af þjóðveginum. Ekki æða áfram eftir
malbikuðum leiðum, heldur beygja og leysa rykorminn úr læðingi
malarvegarins“ (SbB 7). Þannig hefst Sumarið bakvið Brekkuna,
önnur bók þríleiksins. Þessi mynd af farartæki með rykorm í eftir-
dragi er reyndar sett fram í byrjun allra bókanna þriggja og raunar
víðar í þeim. Oftast nær hefur farartækið, hvort sem það er Land -
róver jeppi eða rúta, að geyma dreng á leið til dvalar á bænum Karls -
stöðum einhvern tíma á áttunda áratug liðinnar aldar. Lesendur
fylgja drengnum eftir enda er hann miðpunktur frásagnarinnar
og er jafnframt, sem fullorðinn maður, sögumaður og skrásetjari
hennar.
Sveitin er ónafngreind en lesendur geta gert sér hana í hugarlund
einhversstaðar á Vesturlandi því að ýmis kennimerki eru kunnug-
leg. En þótt sveitinni sé komið þar fyrir á hún sér tæpast nákvæma
fyrirmynd í veruleikanum. Enda er hún og íbúar hennar ekki sér-
lega þekkt eins og sögumaður minnist á:
Þótt sveitin væri um margt merkileg og ýmislegt þar að finna sem vert væri
að staldra við og skoða […] er saga sveitarinnar snauð af því sem í daglegu
tali kallast frægt fólk. Héðan koma engar stjörnur úr kvikmyndum, sjón-
skírnir
4 Um formgerð og fagurfræði þríleiksins, sjá Ingi Björn Guðnason 2009: 57–82.