Skírnir - 01.09.2016, Page 156
margar af þeirri hugmyndafræði sem Sigurður Nordal og Guð -
mundur Finnbogason settu fram á fyrstu áratugum aldarinnar um
að íslenskri nútímamenningu væri best borgið með því að horfa
aftur til fortíðar, til þeirrar menningar sem sveitir landsins höfðu að
geyma: „Viðhorf þeirra og margra annarra hefur verið kennt við
hamsúnisma. Orðið er dregið af nafni norska rithöfundarins Knuts
Hamsun, en í verkum hans, einkum Gróðri jarðar (Markens grøde)
sáu menn upphafningu hins frjálsa, sterka og sjálfstæða bónda sem
barðist einn við óblíða náttúru og erfiðar aðstæður og hafði sigur“,
segir Jón Yngvi Jóhannsson (2006a: 227).
Margar sveitasögur tímabilsins voru snortnar af „hamsúnisma“.
Ekki aðeins í þeim skilningi að þær taka sér hugmyndaheim
Gróðurs jarðar til fyrirmyndar heldur mætti sá hugmyndaheimur
einnig harðri gagnrýni. Í því samhengi ber Sjálfstætt fólk hæst, enda
hefur hún oft verið túlkuð sem nokkurskonar andsvar við Gróðri
jarðar (Árni Sigurjónsson 1987: 103; Halldór Guðmundsson 2006:
205). Sjálfur gengst Halldór að nokkru við þeirri túlkun í eftirmála
að 2. útgáfu bókarinnar og segir m.a. að í Sjálfstæðu fólki sé sömu
spurninga spurt og í Gróðri jarðar „þó svarið sé að vísu þveröfugt
við svar Hamsuns“ og hann bætir því við að „sinn þátt í samníngu
bókarinnar átti sú vissa mín að þjóðfélagslegar niðurstöður Hamsun
í Markens gröde væru yfirleitt rángar. Þessar tvær bækur eiga það
sameiginlegt, eins og reyndar þúsund bækur aðrar, að þær fjalla um
bændamál; en þær eru bersýnilega með andstæðum forteiknum“
(Halldór Laxness 1952: 472).
Sjálfstætt fólk vakti sterk viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð, en
þau fylgdu í flestum tilfellum pólitískri og hugmyndafræðilegri línu
þeirra sem létu þau í ljós, hvort sem það var í ritdómum eða al-
mennri þjóðfélagsumræðu (Árni Sigurjónsson 1987: 140–150). Við -
brögðin voru ekki aðeins í formi bókagagnrýni og greinaskrifa því
inn í umræðuna blönduðust aðrar sveitasögur. Þar á meðal má nefna
skáldsögurnar Dalafólk (1936 og 1939) eftir Huldu, Sturla í Vogum
(1938) eftir Guðmund G. Hagalín, Máttur jarðar (á dönsku 1942
og íslensku 1949) eftir Jón Björnsson og Gullnar töflur (á dönsku
1942 og íslensku 1949) eftir Bjarna M. Jónsson. Allar þessar sögur
eiga það sameiginlegt að upphefja sveitina á einn eða annan hátt.
392 ingi björn guðnason skírnir